Starfsmenn Garðasóknar bera fermingarbörnin á höndum sér. Á myndinni eru sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, Arnór Bjarki, Snævar Jón Andrésson, Matthildur Björnsdóttir og sr. Friðrik J. Hjartar. Þau halda á fermingardrengnum Hákoni Inga.
Starfsmenn Garðasóknar bera fermingarbörnin á höndum sér. Á myndinni eru sr. Jóna Hrönn Bolladóttir, Arnór Bjarki, Snævar Jón Andrésson, Matthildur Björnsdóttir og sr. Friðrik J. Hjartar. Þau halda á fermingardrengnum Hákoni Inga. — Morgunblaðið/Hanna
Hákon Ingi Farestveit er einn af þeim sem fermast á þessu ári í Garðakirkju. Hann talar hér um hvernig er að vera ungur maður á Íslandi, hvernig hann sér fyrir sér heiminn í framtíðinni, tilurð þess að hann fermist og um trúna. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Spurður hvernig fermingarfræðslan hefur verið í vetur segir Hákon Ingi hana hafa verið fræðandi. „Þó að það gangi oft mikið á hjá okkur strákunum í tímum hef ég fengið mikla fræðslu um Guð, Jesú og trúna. Prestarnir Jóna Hrönn og Friðrik hafa unnið flotta vinnu með okkur. Þau eru skemmtileg og sr. Friðrik er sérstaklega fyndinn, þar sem hann segir mikið af bröndurum.

Hinir fræðararnir eru líka flottir. Nói fræðari og guðfræðingur sagði okkur t.d. frá því að hann hefði verið erfiður unglingur og ekki viljað fermast þegar hann var 14 ára svo það á eftir að ferma hann. Nói var að hvetja okkur til að koma vel fram við skólafélaga okkar. Ég mun aldrei gleyma sögunni hans,“ segir Hákon Ingi.

Nýr og betri skilningur

Að sögn Hákons Inga er aðstaðan fyrir fermingarfræðsluna góð. „Að hafa bæði kirkjuna og safnaðarheimilið og fara á milli hentar vel. Ég hef heyrt margar biblíusögur frá því að ég var lítill en prestarnir og fermingarfræðararnir hafa sagt sögurnar í vetur frá nýju sjónarhorni. Ég hef heyrt þær alveg frá því í leikskóla en nú eru þær útskýrðar og ég skil þær miklu betur og boðskap þeirra. Ég hef líka góðan bakgrunn þar sem ég hef farið fjórum sinnum í Vatnaskóg og kann því flestar biblíusögurnar og versin og trúarjátninguna. Við fórum allir strákarnir í Vatnaskóg í fermingarferðalag í haust og það var gaman.“

Er töff að vera trúaður í dag?

„Krakkar í dag pæla lítið í því hvort aðrir séu trúaðir, eru ekkert að tala um þetta sín á milli. En ef einhver ætlar ekki að fermast þá er talað um það, það er ekki hneykslast heldur mega allir vera eins og þeir eru. Nokkrir ætla að fermast borgaralega og okkur hinum finnst það svolítið skrítið þar sem flestir ætla að fermast í kirkjunni, en það er gott að allir geti valið. Það er samt ekki töff að vera að dýrka eða biðja mikið til Guðs svo aðrir viti. Það er eitthvað sem þú hefur fyrir þig persónulega.

Þegar ég hef farið í Vatnaskóg á sumrin er farið í kapelluna á kvöldin en það er val. Ég fór nokkrum sinnum. Þegar forstöðumaðurinn sagði að við mættum biðja upphátt fyrir öllum hinum steig eiginlega enginn fram. Var svolítið feimnismál sennilega, kannski voru flestir hræddir við að það yrði hlegið að þeim.“

Með fallega drauma

Hvaða væntingar gerir þú til framtíðarinnar og hvernig muntu nýta þér trúna í framtíðinni?

„Mig langar að stofna fjölskyldu og vera með fólkinu sem ég elska og elskar mig. Í dag langar mig til að fara í lögregluna, hefur langað það lengi þar sem mér finnst það spennandi starf. Ég mun örugglega nýta mér trúna þegar ég þarf á styrk að halda, t.d. ef einhver deyr eða er veikur eða ef ég þarf sjálfur hjálp. Þá tala ég við Guð og hann hlustar á mig. Það er alltaf hægt að leita í trúna. Ef ég verð lögreglumaður í framtíðinni mun trúin örugglega hjálpa mér áfram í erfiðum aðstæðum. Ef ég eignast börn í framtíðinni vil ég láta skíra þau.“

Geturðu sagt mér hvað hefur staðið upp úr í vetur?

„Ég lærði miklu meira um trúna en ég hélt ég myndi læra. Hélt ég vissi miklu meira en ég geri. Það var líka mjög skemmtilegt að fara á fermingarhátíðina Betri eru tveir en einn. Það var mjög merkilegt að hlusta á Guðjón Reykdal Óskarsson á hátíðinni en hann ræddi við okkur um líf sitt og hvernig við sýnum vinum okkar stuðning í verki. Svo kom Bergvin Oddsson í fermingartíma en hann missti sjónina þegar hann var 14 ára. Það var svo merkilegt að heyra hvað þeir voru báðir jákvæðir þrátt fyrir mikla erfileika.“

Myndi vilja stuðla að heimsfriði

Hvernig samfélag langar þig að sjá í framtíðinni ef þú fengir að ráða og myndir innleiða það sem þú hefur lært í fermingarfræðslunni í vetur?

„Ég myndi vilja stuðla að heimsfriði og leyfa fólki að vera eins og það er og fá að hafa þá trú sem það vill sjálft án þess að vera áreitt af öðrum. Fólk hafi skilning á því að það eru ekki allir með sömu skoðanir.“

Ef þú ættir að gera eitthvað eitt fyrir Guð á hverjum degi, hvað væri það?

„Að fá fleiri til að hlusta á boðskapinn. Að skilja hvað þetta gefur manni í reynd. Að koma vel fram við alla.“

Eitthvað að lokum?

„Ég hvet alla til að kynnast Jesú og því sem hann sagði. Hann er góð fyrirmynd.

Mér fannst fínt að koma í messu af og til í vetur þótt maður þurfi að vakna fyrir kl. 11 á sunnudegi.“

Höf.: Hákon Ingi Farestveit