Þrír ættliðir saman að baka. Þeir Emil, Ásgeir og faðir hans Stefán Sandholt.
Þrír ættliðir saman að baka. Þeir Emil, Ásgeir og faðir hans Stefán Sandholt. — Ljósmynd/Karl Petersson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Sandholt, eigandi Sandholt bakarí, er af fjórðu kynslóð bakara og rekur nú fjölskyldubakaríið inn í nýja tíma. Hann ræðir hér við okkur um listgreinina á bak við kransakökur á fermingardaginn. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Uppruna okkar má rekja til ársins 1920 þegar langafi minn stofnaði Sandholt bakarí. Í dag byggjum við á okkar einstöku arfleifð og hafa vinnubrögð og siðferði gamla bakarísins aldrei átt betur við að mínu mati. Við reynum stöðugt að vinna inn á við í staðinn fyrir að vaxa út á við og fjölga útibúum. Við viljum ekki vera út um allt og missa fókusinn á það sem mér finnst skipta meginmáli, sem eru gæði þess sem við bjóðum upp á. Að bjóða upp á heiðarlegar afurðir skiptir öllu máli að mínu mati.“

Sandholt í 100 ár

Ásgeir rifjar upp að hann hafi ekki verið eldri en níu ára þegar hann man fyrst eftir sér í vinnu hjá Sandholt. Svo náin var fjölskylda hans fyrirtækinu. „Pabbi, afi og langafi störfuðu allir í Sandholt, svo ég er fjórða kynslóðin sem tekur við rekstrinum.“

Sandholt bakarí hefur tekið breytingum undanfarna áratugi. „Við vorum meira í iðnaðarframleiðslu en einbeitum okkur núna meira að gæðum. Að gera hlutina eins vel og hægt er. Við vorum einna fyrstir til að koma með súrdeig inn á markaðinn. Við höfum hægt á allri framleiðslu og pössum upp á að láta ekki hraðann draga niður gæðin.“

Stundaði listnám í Danmörku

Ásgeir ætlaði sér ekki að starfa í Sandholt, fór í listnám og stundaði myndlist um tíma. „Það var samt alltaf eitthvað sem dró mig að fyrirtækinu. Með myndlistarnáminu, starfaði ég í Sandholt á sumrin þar sem ég skreytti og málaði á kökur og nýtti þannig myndlistaráhugann.“

Ásgeir segir að heiðarleiki í matargerð sé mikilvægur og sem dæmi þá skipti öllu máli að súrdeigsbrauð fái sinn vinnslutíma, til að niðurbrot sé eðlilegt og fólk sé að fá það sem það leitar eftir þegar það borðar brauðið. Það sama megi segja um alla aðra hluti sem boðið eru upp á hjá Sandholt. „Ef við bjóðum upp á jarðarberjafrómas, þá er innihald að mestum hluta jarðarber en ekki gerviefni eða önnur efni sem notuð eru til að svíkja neytandann, sem því miður tíðkast á mörgum stöðum.“

Kransakökur alltaf vinsælar

Að mati Ásgeirs eru kransakökur vinsælar í fermingar, þar sem þær eru fallegar og hátíðlegar. „Kransakökur eru orðnar eins íslenskar og þær eru danskar, en vinsælasta hráefnið í öllum heiminum á eftir sykri eru möndlur.

„Ástæðan fyrir því að kransakökur eru vinsælar er sú að margir eiga góðar minningar um kransakökur úr æsku. Í raun er kransakaka stór konfektkaka. Við getum gert hana á mismunandi hátt og ég reyni að hafa hana ekki of sæta. Í ár er kakan skreytt með náttúrulegum afurðum, berjum og súkkulaði. En á árum áður var meira notast við plast og pappa í skreytingar.“

Þegar kemur að kransakökum, þá er algengast að fólk biðji um horn eða toppa. „En við höfum verið að gera ýmislegt fleira, svo sem fiðlu og önnur hljóðfæri.“

Að lokum bendir Ásgeir á að Sandholt býður einnig upp á veisluþjónustu fyrir fermingar, þannig að hægt er að skipuleggja veisluna með því frá a-ö.

Höf.: Ásgeir Sandholt