Öflugur Matthías Orri Sigurðarson var í lykilhlutverki hjá ÍR í gær.
Öflugur Matthías Orri Sigurðarson var í lykilhlutverki hjá ÍR í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Breiðholti Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.

Í Breiðholti

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Það var ljóst frá fyrstu mínútu í 79:73-sigri ÍR á Stjörnunni í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Dominos-deildar karla í gærkvöldi að ÍR-ingar voru staðráðnir í að sagan myndi ekki endurtaka sig. Stjarnan vann rimmu liðanna, 3:0, á síðasta ári, einmitt í átta liða úrslitunum. Í gær komu ÍR-ingar hins vegar mjög ákveðnir til leiks og náðu í forystu strax í 1. leikhluta, sem þeir héldu út allan leikinn, án þess að Stjarnan næði að ógna henni að ráði.

Taylor sýndi hvað hann getur

Lið ÍR hefur þroskast töluvert á einu ári, en í fyrra voru flestir leikmenn liðsins að taka þátt í úrslitakeppninni í fyrsta skipti. ÍR-ingar eru árinu eldri, reyndari og betri. Auk þess er liðið með gullmola í Ryan Taylor. Taylor byrjaði leiktíðina gríðarlega vel en hefur haft aðeins hægara um sig upp á síðkastið. Hann sýndi hins vegar sínar bestu hliðar í gær og samvinna þeirra Matthíasar Orra Sigurðarsonar var til fyrirmyndar. Taylor skoraði 31 stig og hitti m.a. úr fjórum af fimm þriggja stiga körfum sínum, auk þess sem Stjörnumenn réðu illa við hann í teignum. Taylor lét mest að sér kveða undir körfunni framan af vetri, en upp á síðkastið hefur hann skotið meira fyrir utan, með misjöfnum árangri. Í gær gekk hins vegar flest upp sem hann reyndi og þá eru ÍR-ingar nær óstöðvandi. Matthías Orri skoraði sjálfur 19 stig og sagði hann í samtali við Morgunblaðið eftir leik að biðin eftir úrslitakeppninni hefði verið erfið á köflum, sú var tilhlökkunin eftir að gera betur en í fyrra.

Stjarnan á mikið inni

Spilamennska Stjörnunnar var ekki hræðileg, þótt skotnýting þeirra stóran hluta leiks hafi verið það. Hvað eftir annað fengu Stjörnumenn fína möguleika í sókninni, sem þeir nýttu ekki nægilega vel. Ein þriggja stiga karfa úr nítján tilraunum í fyrri hálfleik segir allt sem segja þarf. Hlynur Bæringsson var langbesti leikmaður Stjörnunnar og skoraði hann 15 stig og tók 22 fráköst að auki. Bandarískir leikmenn Stjörnunnar náðu sér ekki á strik og á Stjarnan mikið inni og fullt erindi í þessa rimmu. Takist Stjörnumönnum að fínpússa leik sinn örlítið fyrir leik tvö á mánudaginn kemur eru þeir alls ekki búnir að segja sitt síðasta í þessari úrslitakeppni.