Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson
Reykjavíkurborg er stórskuldug og borgarbúar greiða hæsta leyfilega útsvar. Og Reykjavíkurborg hefur ekki burði til að veita skammlausa grunnþjónustu.

Reykjavíkurborg er stórskuldug og borgarbúar greiða hæsta leyfilega útsvar. Og Reykjavíkurborg hefur ekki burði til að veita skammlausa grunnþjónustu. Eitt sem til dæmis hefur vakið athygli er að borgin þrífur ekki göturnar og afleiðingarnar eru að mengun í Reykjavík er langt yfir öllum viðmiðunarmörkum.

Á sama tíma gerist það að Reykjavík, eitt sveitarfélaga, tekur þátt í sýningunni Verk og vit og býður þar upp á bás sem kostaði 12.834.000 krónur, ef marka má kostnaðaráætlun.

Þetta mátti lesa í svari borgarstjórnarmeirihlutans í borgarráði í gær við fyrirspurn sjálfstæðismanna sem var svohljóðandi: „Hver var kostnaður við bás Reykjavíkurborgar á sýningunni Verk og vit annars vegar og hver var kostnaðurinn við bjórinn sem boðið var upp á og var sérmerktur Borgarlínunni?“

Í svarinu segir einnig að tilgangurinn með þátttöku borgarinnar hafi verið „að miðla þeim upplýsingum sem borgin hefur yfir alla þá uppbyggingu sem nú á sér stað innan borgarinnar. Þá var tækifærið notað til að kynna sameiginlegt samgönguverkefni allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, Borgarlínuna“.

Og auðvitað þurfti Borgarlínubjór til þess.

En er réttlætanlegt að Samfylkingin láti borgina borga kosningaáróður sinn með þessum hætti?