Ferðalög eiga ekki bara að byggja á neyslu heldur einnig á forvitni.
Ferðalög eiga ekki bara að byggja á neyslu heldur einnig á forvitni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Jónsdóttir Njarðvík stofnaði Ferðaskrifstofuna Mundo árið 2011 eftir að hafa verið í akademíu í yfir tuttugu ár og unnið sem frumkvöðull innan háskóla.
Margrét Jónsdóttir Njarðvík stofnaði Ferðaskrifstofuna Mundo árið 2011 eftir að hafa verið í akademíu í yfir tuttugu ár og unnið sem frumkvöðull innan háskóla. Hún er gott dæmi um það hvernig áskorun getur breyst í hið besta tækifæri ef við tökum á henni sem slíkri. Margrét missti vinnuna árið 2011 og stofnaði upp frá því fyrirtæki utan um sjálfa sig þar sem hæfileikar hennar, menntun, ástríða og áhugamál fá að njóta sín. Hér segir hún okkur frá spennandi ferðum Mundo fyrir þá sem vilja gefa ferðalög í fermingagjöf. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Margrét Jónsdóttir Njarðvík er vararæðismaður Spánar, með doktorspróf í spænsku og MBA-gráðu auk þess sem hún er leiðsögumaður og jógakennari. Allt þetta nýtir hún til góðs í ferðaframboði Mundo.

Hvað er í boði hjá ykkur í upplifun á erlendri grundu fyrir fermingarbörnin? „Mundo hefur sérhæft sig í að skapa örugg alþjóðleg tækifæri fyrir ungmenni. Við erum með sumarbúðir í Kastilíu á Spáni þar sem krakkarnir búa hjá vel völdum fjölskyldum með unglinga á sama aldri, læra spænsku, fara á leiðtoganámskeið og taka þátt í ævintýradagskrá. Sjálf er ég svo á staðnum allan tímann með vel valið starfsfólk. Rannsóknir hafa sýnt að það er lykilatriði að hefja kennslu í þriðja tungumáli fyrir sextán ára aldurinn auk þess sem tungumálakennsla í framhaldsskólum hefur verið skorin svo mikið niður að ef foreldrar taka þá menntun ekki í sínar hendur – þá verður lítið um þekkingu í þriðja máli. Þetta gerist einmitt nú þegar ljóst er að börnin okkar munu ekkert endilega starfa á Íslandi í framtíðinni og spænska er orðin lykiltungumál fyrir þá sem læra í Bandaríkjunum og eða ferðast um hin 25 lönd þar sem spænska er töluð.“

Lykilþekking fólgin í menningarlæsi

Hvaða máli skiptir fyrir lífið að kynnast öðrum menningarheimum? „Menningarlæsi er lykilþekking fyrir nútímaþjóðfélag. Það felur í sér að opna hugann og skilja aðra – skilja fyrst áður en við ætlumst til þess að aðrir skilji okkur. Umburðarlyndi, friður og hagsæld framtíðarinnar byggist einmitt á menningarlæsi og getur það hikstalaust komið í veg fyrir styrjaldir auk þess sem það forðar okkur frá því að vera „heimsk“ í skilningi Hávamála en þar er það notað um að vera þröngsýnn og heimaalinn.“

Hildur segir einkunnarorð Mundo vera menntun, skemmtun, menning og þjálfun. „Þau lifum við á hverjum degi og sérstaklega í þjónustu við unglingana okkar. Við erum með sumarbúðir fyrir 14-16 ára, annað tungumálanám fyrir unglinga víðs vegar um Spán, Þýskaland og Frakkland auk okkar vinsæla skiptináms. Við bjóðum upp á skiptinám á Spáni, í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Frakklandi. Umsóknarfrestur er einmitt nú í lok mars og því er ansi mikið í gangi á skrifstofunni hjá okkur þessa dagana.“

Fermingargjöf ferð til Ibiza

Áttu skemmtilega sögu frá þér tengda ferðalögum á fermingaraldri? „Fermingargjöfin mín var einmitt að fara með mömmu og pabba til Ibiza, fá einkaathygli í tvær vikur en ég er yngst sex systkina. Ferðin var sérlega góð fyrir mig út af þessari einkaathygli og því að borða framandi mat og babbla á spænsku. Ekki óraði mig þó fyrir því þá að ég myndi verja starfsævinni í að sinna og miðla spænskri menningu,“ segir hún, en Margrét er höfundur spænsk-íslensk-spænsku orðabókarinnar.

Ferðalög sem byggjast á forvitni

Hvaða áhrif hafa ferðalög á okkur á þessum mótunarárum? „Ferðalög eru það sem menntar okkur mest af öllu í lífinu. Þau eru hin fullkomna birtingarmynd af því að læra með því að gera og höfða til allra skilningarvitanna í okkur. Þess vegna skiptir máli að skipuleggja ferðalög fyrir ungmenni sem byggjast ekki bara á neyslu heldur á forvitni – það er nauðsynlegt að lesa í sjúklega forvitni unglinganna okkar á þessum aldri og lofa þeim að finna púlsinn í annarri menningu, sögu, lykt, tísku, matarmenningu, málaralist og byggingarlist.“

Kraftaverk Jakobsvegar

Ertu trúuð sjálf?

„Já, ég er trúuð og andlegt líf tekur sífellt meira pláss í mínu lífi. Nú hef ég gengið og hjólað Jakobsveg alls ellefu sinnum. Stundum hef ég farið allan stíginn og stundum hluta hans. Aldrei hef ég komið eins út af stígnum og alltaf verð ég vitni að kraftaverki hjá samferðafólki mínu. Jakobsvegur færir okkur nefnilega tengsl við okkur sjálf sem svo auðvelt er að missa niður. Við missum niður tengingu milli sálar, huga og líkama, nokkuð sem stígurinn tengir saman í lífi okkar. Það er nefnilega ekki nóg bara að fara í ræktina og borða hollan mat – það þarf að tengja saman líkama, sál og huga og þaðan tengja okkur sjálf við náttúruna sjálfa – einmitt það sem gerist á Jakobsvegi. Jafnframt er það gamall sannleikur að mesta heilun lífsins felst í að einfalda lífið niður í að ganga, sofa og borða – hreinsa hugann af öllu öðru áreiti þannig að við hugsum einungis um bakpokann okkar en það er ein besta líking sem til er fyrir lífið sjálft sem við burðumst um með á bakinu.“

Jakobsvegur ein af leiðunum til Guðs

„Jakobsvegur er ein af leiðunum til Guðs. Í Santiago fundust bein heilags Jakobs, lærisveins Jesú, sem sendur var til Evrópu til að boða kristna trú. Þess vegna hafa Evrópubúar haldið til Santiago frá því á miðöldum. Þeir hafa gengið leiðina til að fá bót meina sinna og fyrirgefningu synda sinna. Það var svo ekki fyrr en eftir síðustu aldamót að fleiri uppgötvuðu heilunarmátt leiðarinnar og líka þeir sem einungis hafa áhuga á lista- og menningarsögu Evrópu. Enginn fer þessa leið ósnortinn.“

Mælir þú með slíku fyrir fjölskylduna að upplifa ævintýri? „Ó, já, það geri ég svo sannarlega. Ég mæli ekki með því að fara með ung börn en það er snilld að hjóla þessa leið með unglinga sem hafa hreyfiþörf og ósjaldan hef ég farið með mæðgur og mæðgin – fullorðna einstaklinga.“

Fermingarpeningar notaðir í skiptinám

Hafa fjölskyldur verið að velja ferðalög og upplifun í stað hefðbundinnar veislu í tengslum við ferminguna? „Já, það er afar algengt að stórfjölskyldan slái saman í sumarbúðir fyrir fermingarbarnið og einnig er algengt að ungmennin noti síðar fermingarpeningana til að fara í skiptinám.“

Hvernig gerir maður skemmtileg fjölskylduferðalög betri? „Bestu fjölskylduferðalögin eru þau sem eru undirbúin af gleði og forvitni, þar sem blandað er saman skemmtun og menntun og það haft að leiðarljósi að kynnast menningu. Þá er forvitni haldið að krökkunum og blönduð ævintýraljóma frekar en möguleikanum á neyslu.“

Að lokum segir Margrét að íslenskir unglingar séu frábærir. „Þeir eru mun betur staddir en mín kynslóð var. Foreldrar þeirra eru líka mun meðvitaðari en fyrri kynslóðir um að þeir bera ábyrgð á menntun barnanna sinna og að þjálfa þau þannig að þau skeri sig úr hópnum á jákvæðan máta. Búið er að stytta framhaldsskólann og fjölmargir foreldrar gera sér grein fyrir því að þar opnast tækifæri til að senda ungmennin í skiptinám. Til dæmis vita fáir að hægt er að vera í skiptinámi í tíunda bekk en flestir fara út á fyrsta ári í menntaskóla eða öðru ári. Flestir vita þó að tungumál lærum við betur því yngri sem við erum og ef fyrir hendi eru öruggar aðstæður erlendis fyrir börnin okkar – þá er um að gera að nýta þær.“

Höf.: Margrét Jónsdóttir Njarðvík