[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Yngri aldurshópar hér á landi eru verr settir en þeir eldri hvað snertir flesta mælikvarða sem tengjast andlegri líðan.

Sviðsljós

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Yngri aldurshópar hér á landi eru verr settir en þeir eldri hvað snertir flesta mælikvarða sem tengjast andlegri líðan. Unga fólkið upplifir meiri streitu, finnur oftar fyrir einmanaleika, metur andlega heilsu sína verr og hamingju sína minni en þeir sem eldri eru. Ungir karlar telja sig mun síður hamingjusama en aðrir hópar, en minna en helmingur karla undir 35 ára telur sig hamingjusaman og 8% telja sig óhamingjusöm. Konur eru aftur á móti fleiri í hópi þeirra sem finna oft eða mjög oft fyrir mikilli streitu í daglegu lífi og kemur sá kynjamunur fram í öllum aldurshópum fram að 55 ára aldri.

Þetta eru meðal niðurstaðna könnunar sem Embætti landlæknis lét gera í fyrra á andlegri heilsu, svefni, streitu, einmanaleika og hamingju Íslendinga. Gallup annaðist könnunina sem framkvæmd var frá því í ársbyrjun 2017 og út desembermánuð. Könnunin tók til rúmlega 8.000 Íslendinga og var svarhlutfallið 54,5%. Sigrún Daníelsdóttir segir í greinargerð um könnunina í Talnabrunni , fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar, að mikilvægur liður í stefnumótun og lýðheilsuaðgerðum á sviði geðheilsu og vellíðanar sé að fylgjast með stöðu og þróun lykilmælikvarða. Í því skyni hafi ofangreindir þættir verið kannaðir á undanförnum árum. „Litlar breytingar hafa átt sér stað hvað snertir streitu, svefn og hamingju á þessu tímabili en lítilsháttar lækkun hefur orðið á hlutfalli þeirra sem meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða frá árinu 2014. Mælingar á þessum þáttum hafa þó varpað ljósi á mikilvægan mun eftir aldri og kyni,“ segir Sigrún.

Þegar nánar er rýnt í upplýsingarnar í fréttabréfinu kemur eftirfarandi á daginn: Tæplega þrír af hverjum fjórum Íslendingum (72%) meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða árið 2017 og hefur hlutfallið lækkað jafnt og þétt frá því vöktun hófst árið 2014, en þá var það 79%. Lítil breyting er þó frá því fyrir ári.

Rúmlega tveir af hverjum þremur fullorðnum Íslendingum (67%) fá nægan svefn (7-8 klst á nóttu). Um fjórðungur (24%) fullorðinna finnur oft eða mjög oft fyrir mikilli streitu í daglegu lífi árið 2017 sem er svipað hlutfall og áður. Rúmur þriðjungur (37%) finnur sjaldan eða aldrei fyrir mikilli streitu.

60% telja sig hamingjusöm

Líkt og í fyrri könnunum greina fleiri konur en karlar frá mikilli streitu og yngri aldurshópar frekar en þeir eldri. Tæpur þriðjungur karla (30%) og rúmur þriðjungur kvenna (37%) undir 35 ára aldri segist oft eða mjög oft finna fyrir mikilli streitu í daglegu lífi en aðeins 13% karla og 11% kvenna meðal 55 ára og eldri, sem er svipað hlutfall og áður.

Um 60% fullorðinna Íslendinga telja sig hamingjusöm og hefur þetta hlutfall verið nokkuð stöðugt frá því vöktun hófst árið 2014. Ekki er munur eftir kyni meðal eldri aldurshópa en meðal þeirra yngri eru færri karlmenn hamingjusamir en konur. Í yngsta aldurshópnum telja aðeins 42% ungra karla sig hamingjusöm á móti 59% ungra kvenna. Í heildina telja 4% Íslendinga sig óhamingjusöm, þar af 5% karla og 3% kvenna. Heilt yfir er lítill munur á óhamingju eftir aldri og kyni, að því undanskildu að óhamingja er mest meðal ungra karla, en 8% karla undir 35 ára meta sig óhamingjusöm.