Beta Einarsdóttir fæddist 17. apríl 1923. Hún lést 2. mars 2018.

Útför Betu fór fram 13. mars 2018.

Við kveðjum ömmu Betu með söknuði, rík af góðum minningum um lífsglaða og hlýja konu sem hélt reisn sinni allt til dauðadags.

Amma var barngóð, það var gott að koma til hennar og afa og okkur leið alltaf vel eftir að hafa heimsótt þau. Það var aldrei lognmolla í kringum þau. Þegar við vorum hjá þeim á Kálfafellsstað var farið á fjörur, ferðast og leikið sér. Á ferðalögum hafði amma þann sið að koma aldrei við í sjoppum á leiðinni heldur útbjó alltaf nesti og svo var sest einhvers staðar á góðum stað og borðað.

Þegar við vorum lítil var amma mikið í því að láta okkur föndra og virtist alltaf eiga til nóg af vattkúlum, pípuhreinsurum og litum til að við gætum búið til hin ýmsu „listaverk“.

Hún var líka mikill fagurkeri. Sjálf alltaf mjög glæsileg og lagði metnað í að halda fallegt heimili. Hún fór um fjöll og fjörur til að finna fallega steina, skeljar, rekaviðardrumba eða annað til að föndra úr og fegra umhverfi sitt.

Amma var sterkur persónuleiki. Hún myndaði sér eigin skoðanir og hafði ákveðin gildi í heiðri, var jafnaðarmanneskja og kvenréttindakona allt sitt líf.

Það er að vissu leyti erfitt að fjalla um ömmu án þess að afi komi þar fyrir líka. Þau voru svo samheldin. Gáfu mikið til samfélagsins hvar sem þau komu. Heimili þeirra var líflegt og skemmtilegt og gestagangur mikill. Heimsins málefni voru rædd og þó svo að fólk væri ekki sammála var alltaf jákvætt andrúmsloft heima hjá þeim. Það var líka mikið spilað og þá helst bridds. Sú heilaleikfimi á örugglega sinn þátt í því hve vel hún amma eltist.

Amma og afi hafa verið okkur góðar fyrirmyndir. Amma kenndi okkur hvernig á að haga sér í kirkjum og kökuboðum. Að borða ekki alltaf af sömu sortinni í kaffitímum heldur „fara hringinn“. Hún var alltaf að hvetja til einhvers konar sköpunar, hvort heldur var að spila á hljóðfæri, föndra eða mála.

Síðastliðin ár hafa þau afi og amma umfram allt sýnt okkur að maður þarf ekki að vera hræddur við að eldast. Ef maður eldist með aðeins brot af þeirri lífsgleði sem skein af ömmu á maður gott í vændum.

Heimurinn er tómlegri án ömmu Betu.

Guðrún Beta, Gunnar Steinn og Fjalarr Páll Mánabörn.

Ég var svo heppin að fara til ömmu og afa á hverjum degi eftir leikskóla þegar ég var lítil og fá að verja miklum tíma með ömmu í uppvextinum. Hún var meðal minna bestu vinkvenna síðan þá og það var mikið lán að hafa hana í næstu götu. Andrúmsloftið heima á Langholtsvegi var svo notalegt. Stundvíslegur tetími með heimabökuðum herragarðskökum, bridgeheimsóknir, líflegar umræður og föndurskorpur. Hver veggur þakinn list og útsaumi eftir ömmu. Hún var listræn, skapandi og vel lesin. Hún þoldi hins vegar ekki hól í sinn garð eða sinna nánustu. Hún var alltaf skreytt sjálf. Með stóra skartgripi og talaði fyrir að klæðast sterkum litum. Það er auðvelt að sjá ömmu fyrir sér í rauðu.

Við fórum líka saman í fjölmörg ferðalög um landið. Amma var fararstjóri og leiddi til dæmis fjörugöngur þar sem við stúderuðum rekavið og leituðum að fígúrum í viðarmynstrinu sem var svo skerpt á með málningu þegar heim var komið. Verkin skreyttu síðan garðinn ásamt steinum úr fjallaferðum.

En amma ræktaði garðinn sinn. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það til þeirra sem þekkja til. Amma kallar á stór orð. Hún hafði sterkar skoðanir, var réttsýn og bar virðingu fyrir öllum og talaði fyrir réttindum þeirra sem henni fannst undiroka eða minna mega sín. Hún var sjálf svo þakklát og talaði fyrir því að velja gleðina. Hún minntist oft á tíma sinn í Hrísey og Suðursveit þar sem hún var svo heppin að kynnast svo góðu og tryggu fólki en það er mér nokkuð augljóst að það gekk í báðar áttir.

Henni fylgdi mikill drifkraftur enda kenndi hún handavinnu, stóð að uppsetningu leikrita og sá um sunnudagskaffi eftir messur til að nefna nokkra hluti.

Hjúkrunarfræðin var líka stór hluti af ömmu og hún talaði ósjaldan um hversu heppin hún var að hafa skráð sig í hjúkrun á sínum tíma. Hún sinnti hjúkrun að mestu leyti í sjálfboðavinnu þar til hún flutti til Reykjavíkur en á vöktum á Hrafnistu lagði hún mikið upp úr því að spjalla og tengjast fólki þar sem uppáhalds samtöl hennar hófust oftar en ekki á spurningunni „hverra manna ert þú“. Svona var amma áhugasöm um alla. Góð og skemmtileg.

Ég sakna félagsskap hennar og tek undir með afa. Það blasa við skörðin þegar svona fólk fer.

Anna Beta Gísladóttir.

Merk kona, Beta Einarsdóttir, fyrrverandi prestfrú á Kálfafellsstað í Suðursveit, er fallin frá. Hennar er nú minnst með söknuði og virðingu. Beta var ákaflega mikil félagsmálakona og Kvenfélagið Ósk í Suðursveit má muna sinn fífil fegri, en það stóð í hvað mestum blóma árin sem Beta dvaldi í Suðursveit.

Hún með allan sinn framkvæmdavilja og óþrjótandi uppsprettur af alls kyns uppákomum var vakin og sofin í félagsstarfinu. Þau voru ófá námskeiðin sem hún stóð fyrir á vegum kvenfélaganna og kvenfélagasambandsins og þar flæddi hugmyndaflugið óbeislað, urðu þá til hinir ýmsu munir sem enn prýða heimili okkar hér í sveitarfélaginu. Heimili þeirra Betu og Fjalars stóð öllum opið og var gestrisni þar í fyrirrúmi, ávallt til kaffi á könnunni og óþrjótandi bakkelsi og naut kirkjukórinn þess meðal annars óspart. Þau hjónin höfðu ákaflega gaman af að spila og var bridge þar mjög í hávegum haft.

Nú er komið að kveðjustund, en við eigum eftir að mætast aftur hinum megin við móðuna miklu. Fjalar, Anna, Máni og afkomendur, innilegar samúðarkveðjur.

Guð blessi Betu Einarsdóttur.

Torfhildur Hólm

Torfadóttir.