Magnús Hagalín Gíslason var fæddur á Borg í Skötufirði 20. apríl 1927 en ólst upp í Önundarfirði. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eir 4. mars 2018.

Foreldrar hans voru Gísli Þorsteinsson, f. 29. september 1895 á Þórðareyri, Ögurhreppi, d. 18. desember 1961, og kona hans Guðrún Jónsdóttir, f. 24. mars 1900 á Ísafirði, d. 3. júlí 1985. Magnús var næstelstur átta systkina. Látin eru Guðmundur Ísleifur, Bjarni Ásmundur, Guðbjörg María og Gunnar en Þorsteinn, Sólveig og Guðmundur Helgi lifa bróður sinn.

Magnús kvæntist 24. júlí 1948 Helgu Jónsdóttur, f. 15. janúar 1928 í Reykjavík, d. 3. september 1994. Foreldrar Helgu voru Jón Hjörtur Vilhjálmsson, f. 17. júlí 1900, d. 24. ágúst 1938, og Kristjana Þorsteinsdóttir, f. 26. september 1900, d. 30. júní 1959. Börn Magnúsar og Helgu: 1) Jón Hjörtur, f. 25.9. 1948, vinkona hans er Steinunn María Jónsdóttir. Dætur Jóns og Ídu Atladóttur (skilin) eru a) Eva, f. 1977, hún á þrjú börn, b) Nanna, f. 1982, hún á tvö börn. 2) Ingólfur Már, f. 15.10. 1951, kvæntur Sigrúnu Agnesi Njálsdóttur. Synir þeirra eru a) Brynjar Helgi, f. 1975, hann á þrjú börn, b) Óli Njáll, hann á fjögur börn. 3) Rúnar Þröstur, f. 8. maí 1955, kvæntur Herdísi Hafsteinsdóttur. Þeirra börn eru a) Aron, f. 1987, hann á tvö börn, b) Bjarki, f. 1991, og Íris, f. 1992. Fyrir átti Herdís soninn Tómas Árna, f. 1976, hann á þrjú börn. 4) Sigrún, f. 10. febrúar 1957, gift Jóhanni Haukssyni. Þeirra börn: a) Magnús Örn, f. 1975, hann á fjögur börn b) Sólveig Helga, f. 1982, hún á tvö syni c) Hallgrímur Andri, f. 1994. 5) Ólafur Gísli, f. 28. október 1960, d. 15. desember 1978. 6) Edda, f. 28. júní 1962, gift Arnari Sverrissyni. Þeirra dætur a) Berglind, f. 1981, hún á þrjú börn b) Hjördís, f. 1989, hún á tvo syni. 7) Magnea Helga, f. 31. mars 1964, gift Sigurði Hjaltasyni. Þeirra börn eru a) Andrea Rakel, f. 1992, hún á einn son, b) Alexander Helgi, f. 1996, c) Aðalsteinn Freyr, f. 2002. 8) Hrafn, f. 17. mars 1968, kvæntur Hildi Þorkelsdóttur. Þeirra dætur eru a) Helga, f. 2006, b) Freyja, f. 2009. Fyrir átti Hrafn c) Arnór Rafn, f. 1989, með Lilju Guðjónsdóttur. Hann á eina dóttur. d) Birnu Kristínu, f. 1994, og e) Daníel Inga, f. 1996, með fyrri konu sinni Heiðu Jónsdóttur.

Magnús nam við Sjómannaskólann, útskrifaðist þaðan og starfaði lengst af sem stýrimaður og skipstjóri á bátum og togurum. Var með eigin útgerð um margra ára skeið. Frá því Magnús hætti sjómennsku og fram að sjötugu starfaði hann sem næturvörður í Húsdýragarðinum. Meðfram þeirri vinnu hannaði hann og setti upp troll ásamt því að sinna netaviðgerðum.

Magnús og Helga bjuggu lengst af á höfuðborgarsvæðinu en einnig um skeið á Ísafirði og í Neskaupstað 1952-1959.

Sambýliskona Magnúsar til hartnær tuttugu ára var Jóhanna Jónsdóttir, f. 5. nóvember 1918, d. 24. júní 2016.

Magnús verður jarðsunginn frá Garðakirkju í dag, 16. mars 2018, klukkan 15.

Tengdapabbi var vestfirskur sjómaður. Tilheyrði kynslóðinni sem fór að vinna fyrir sér í síðasta lagi um fermingu. Hamhleypa til vinnu en sjálfur sagðist hann vera latur. Fór fyrst á vertíð frá Akranesi, 14 eða 15 ára gamall. Fór í Sjómannaskólann og lauk þaðan prófi og varð kornungur skipstjóri. Kynntist því vel af eigin raun að það „gefur á bátinn við Grænland“. Var svo gæfusamur að eiga stóran þátt í að bjarga bróður sínum úr sjávarháska 1955, en upplifði líka að skipsfélagi færi fyrir borð. Hann ræddi þó ekki þátt sinn í björguninni fyrr en síðustu árin.

Magnús var fiskinn og þótti fara vel með bæði skip og áhöfn. Orðljótur stundum en líka orðheppinn. Kunni best við að stjórna sjálfur. Hann var spilamaður, tapsár, gleðimaður og fantagóður dansari. Það var geysilega gaman að dansa við hann gömlu dansana þegar hann hló og sveiflaði mér í vals og polka. Hann hafði yndi af danstónlist og karlakórsöng, en ég heyrði hann aldrei syngja sjálfan. Tengdó kunni að „glingra við stút“, en honum og Bakkusi varð þó fullvel til vina á tímabili en slitu svo vináttunni. Karlremba var hann tengdó og íhaldssamur. Þó var Magnús fyrsti karlinn sem ég þekkti og sá taka til, þvo gólf og elda mat óbeðinn. Hann var snyrtipinni og pjattrófa, svo við kölluðum hann gjarnan páfuglinn og ég sé þau gen erfast í beinan karllegg, rétt eins og keppnisskapið.

Þegar Magnús hætti sjómennsku seint á níunda áratug síðustu aldar gerðist hann næturvörður í Húsdýragarðinum. Meðfram vann hann við að hanna og setja upp troll sem og að gera við net enda annálaður netamaður.

Ungur kvæntist hann tengdamömmu, Reykjavíkurdísinni Helgu Jónsdóttur. Börnin urðu átta á tuttugu árum. Heimili áttu þau á Ísafirði, Neskaupstað, Garðabæ og Reykjavík. Verkaskiptingin var hefðbundin. Helga sá um heimilið, Magnús stundaði sjóinn og „skaffaði“. Hjónaband þeirra varði þar til Helga varð bráðkvödd 1994.

Magnús var að vonum nokkuð brotinn eftir andlát Helgu en kynntist svo á dansgólfinu Jóhönnu Jónsdóttur, og saman áttu þau mörg góð ár. Magnús varð ungur í annað sinn og dekraði við Hönnu sína á alla lund. Þau fóru lengi í daglega göngutúra, dönsuðu, spiluðu, fóru til sólarlanda og nutu lífsins meðan heilsan leyfði. Hanna lést sumarið 2016.

Og kallinn leyndi á sér, á áttræðisaldri lærði hann að mála sem veitti honum mikla ánægju og hann hélt meira að segja sýningar, t.d. í Gerðubergi.

Við Magnús tengdumst fjölskylduböndum í hartnær 45 ár. Við deildum oft, stundum harkalega, um póltík, jafnrétti, fjölskyldumál og fleira. Enda ekki undarlegt, svo ólík sem við vorum á margan hátt. En væntumþykja okkar var, þrátt fyrir það, gagnkvæm og náðum við sáttum jafnharðan.

Tengdapabbi var trúaður á þann hátt sem stundum er kallað að menn eigi sína barnatrú, Og nú hefur sjóarinn, sem Magnús var fyrst og fremst, kvatt, saddur lífdaga, siglt heim, látið akkerið falla og er í höfn.

Sigrún Agnes.