Jón Steinar Traustason fæddist í Vestmannaeyjum 3. desember 1941. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Mjódd 24. febrúar 2018.

Foreldrar Jóns Steinars voru Trausti Jónsson, f. 11.1. 1917 á Hvammi í Mýrdal, d. 2. janúar 1994, og Ágústa Haraldsdóttir, f. 14.8. 1919 í Vestmannaeyjum, d. 27. desember 1989.

Systkini Jóns Steinars eru Haraldur, f. 22.11. 1939, d. 13.6. 1993, Ágústa, f. 12.2. 1943, Brynja, f. 27.8. 1944, Óli Ísfeld, f. 6.10. 1945, Steinunn, f. 14.12. 1948, Ásta, f. 26.10. 1950, og Trausti Ágúst, f. 19.3. 1952, d. 31.10. 1969.

Jón Steinar var ógiftur og barnlaus. Jón ólst upp í Vestmannaeyjum og bjó þar og starfaði mest allt sitt líf eða þar til í maí 2012 að hann flutt í Þangbakka 10 Reykjavík.

Jón gekk í Barnaskólann í Vestmannaeyjum. Að lokinni skólagöngu fór hann að vinna almenn fiskvinnslustörf eins og gerðist í Eyjum á þessum árum. Hann fór í nám í Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði og lauk þaðan prófi 1968 í skrúðgarðyrkju. Á námsárunum vann hann við garðyrkju í Reykjavík. Eftir að hann kom aftur heim til Eyja fór hann aftur að vinna í fiskvinnslu á veturna, en með föður sínum hjá Kirkjugarði Vestmannaeyja á sumrin, fram að Gosi. Í gosinu vann hann við hreinsun bæjarins, en hafði aðsetur í Þorlákshöfn þar sem foreldrar hans voru um sinn, þangað til hægt var að flytja aftur heim til Eyja. Þá fór hann aftur að vinna við fiskvinnslu hjá ýmsum aðilum, þar til hann varð að láta af störfum vegna heilsubrests.

Jón Steinar var félagi og starfaði í Alþýðubandalagi Vestmannaeyja í gegnum árin og síðan í Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Hann starfaði í Verkalýðsfélagi Vestmannaeyja og sinnti þar trúnaðarstörfum.

Útför Jóns Steinars fer fram frá Breiðholtskirkju í dag, 16. mars 2018, klukkan 13.

Lokið er enn einum kafla í lífsbókinni hjá okkur systrum. Jón Steinar bróðir okkar, sem ávallt var kallaður Bóri af þeim sem til þekktu, er fallinn frá eftir áralanga baráttu við erfið veikindi sem drógu úr honum lífskraftinn smátt og smátt þar til yfir lauk. Bóri var næstelstur í okkar systkinahóp og því stóri bróðir okkar systra. Margs er að minnast frá okkar uppeldisárum á Hásteinsvegi 9, þar sem var oft glatt á hjalla og mikið rætt og mikil hlegið og þá mest að okkur sjálfum, því margt skemmtilegt gerist í stórum systkinahópi. Bóri var sá okkar sem fór síðastur að heiman og myndaði sterk tengsl við móður okkar. Þau höfðu líkar skoðanir á mönnum og málefnum, voru ættfróð og var ekki komið að tómum kofunum hjá þeim hvað það varðaði.

Bóri var víðlesinn og afar minnugur og leituðum við ekki sjaldan í „uppflettiritið“ Bóra bróður ef okkur vantaði upplýsingar um fjölskylduna eða eitthvað annað. Nú er hann farinn og við erum þegar farnar að finna fyrir því að okkar vantar upplýsingar frá honum, því Bóri hélt minni sínu um liðna tíð mjög vel fram á síðustu stund.

Á þessum tímamótum hvarflar hugur okkar heim í eldhúsið á Hásteinsvegi 9 þar sem við systkinin og foreldrar sátum við eldhúsborðið eftir máltíðir og rifjuðum upp sögur úr æsku okkar, sem sum okkar voru of ung til að muna, en höfðum alltaf jafn gaman af að heyra. Eða mamma að vaska upp og Bóri með viskastykkið að þurrka, þá mynduðust oft miklar umræður um menn og málefni og ekki síst pólitík sem var þeim báðum hugleikin og fóru skoðanir þeirra saman þar, þá sérlega verkalýðsbaráttu þess tíma.

Bóri eignaðist ekki börn sjálfur en var með eindæmum barngóður og naut góðs af því hvað systkini hans voru dugleg að eignast börn, sem hann hafði mjög gaman af að knúsa og kyssa og var gjarnan gert grín að því að börnin lentu í „þvottastöðinni“ hjá Bóra frænda.

Bóri var mikil grúskari og átti bæði kvikmyndatöku- og sýningarvél sem var tekin upp við hátíðleg tækifæri og haldin sýning í stofunni heima og horft bæði á myndir sem hann tók af fjölskyldunni og einnig þöglar myndir sem hann hafði komið sér upp og þá var nú hlegið og er það í fersku minni hvað þeir bræður gátu hlegið mikið að Chaplin og öðru gömlu klassísku gríni. Bóri átti einnig nokkrar myndavélar og fór m.a. um landið og myndaði náttúruna og einnig myndaði hann gömul hús í Reykjavík og víðar sem hann hafði mikið dálæti á . Einnig hafði hann mikinn áhuga á alls konar tækni sem viðkom radíógræjum og keypti tækniblöð og fylgdist vel með nýjungum á því sviði. Hann hlustaði mikið á tónlist og var vel að sér í sígildri tónlist. Þar sem hann bjó einn fékk hann óáreittur að rækta sína sérvisku, sem varð töluverð með árunum og þá sérstaklega varðandi mat. Bóri var reglumaður, heiðarleg og góð manneskja.

Bóri var mikil Eyjamaður og vildi hvergi annars staðar búa, þó hann væri oft hvattur til að flytja upp á fastalandið og setjast að nær okkur systrum, þegar hann var orðinn einn eftir í Eyjum af fjölskyldunni. Á 70 ára afmæli sínu tók hann þá ákvörðun að kaupa sér íbúð við Þangbakkann og flutti þar inn í maí 2012. Þar átti hann góð þrjú ár með annarra hjálp eða þar til hann fór á hjúkrunarheimilið Skógarbæ þar sem hann dvaldi þar til yfir lauk.

Takk fyrir samfylgdina í gegnum lífið, Bóri bróðir.

Þínar systur,

Ágústa, Brynja,

Steinunn og Ásta.

Ég vil í fáeinum orðum minnast Jóns Steinars Traustasonar sem lést 24. febrúar sl. Ég kynntist Jóni þegar leiðir okkar lágu saman í starfi Alþýðubandalagsins í Vestmannaeyjum. Ég fann strax að Jón var ákaflega traustur, heilsteyptur og skemmtilegur maður. Hann hafði brennandi áhuga á félagsmálum, bæði innan Alþýðubandalagsins og einnig og ekki síður innan Verkalýðsfélags Vestmannaeyja. Þar tók hann virkan þátt í áratugi og gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir hönd félagsins. Jón var mikið prúðmenni, kurteis og það var þægilegt að vera nálægt honum og ræða við hann um allt milli himins og jarðar, ekki síst um verkalýðs- og félagsmál. Hann hafði ríka réttlætiskennd og var ávallt tilbúinn að verja og berjast fyrir málstað verkafólks og þeirra sem verst höfðu kjörin í samfélaginu. Hann var ætíð trúr þeirri hugsjón að í krafti félagshyggjunnar væri sannarlega hægt að breyta samfélaginu og gera það réttlátara. Þá hugsjón var hann óspar á að styðja og berjast fyrir.

Jón var mjög fróður um fortíð og samtíð. Hann las mikið og aflaði sér þannig þekkingar á hinum ólíkustu og ólíklegustu sviðum. Ég minnist þess að oft þegar leita þurfti svara við ýmsum spurningum sem upp komu í félagsstarfinu og enginn vissi svör við, var algengt að einhver benti á að þetta vissi Jón örugglega. Sú varð og oftast raunin.

Ævistarf Jóns var almenn verkamannavinna og lengstum vann hann í fiskvinnslu. Þeir sem þar unnu með honum fundu að þar fór heiðarlegur og traustur maður og þeir báru fyrir honum mikla virðingu og áttu í honum góðan og skemmtilegan vinnufélaga.

Nú þegar Jón er fallinn frá er margs að minnast. Þær minningar eru allar góðar. Við sem þekktum hann söknum hans og minnumst með þökkum fyrir að fá að kynnast góðum samferðamanni.

Við hjónin sendum fjölskyldu Jóns samúðarkveðjur. Minning hans lifir meðal okkar allra.

Ragnar Óskarsson.