Jón Viðar Jónmundsson
Jón Viðar Jónmundsson
Eftir Jón V. Jónmundsson: "Þessi vinnubrögð stjórnar BÍ að reyna ekki að horfast í augu við staðreyndir heldur hrökkva í skotgrafirnar eru dauðadæmd."

Í ljósi þess sem ég upplifði við setningu Búnaðarþings, umfjöllun formanns BÍ í útvarpi um þingið, hluta umræðna sem ég hlýddi á og að lokum lestur ályktana þess, virðist mér allur varinn góður að skrifa nú eftirmæli um þessa ágætu samkomu sem ég þekki allnáið eftir að hafa fylgst með störfum þess í nær fimm áratugi. Niðurlæging samkomunnar er orðin slík að tæpast er þess að vænta að félagsskapurinn að baki hjari til ráðgers næsta þings. Ætlunarverk stjórnar BÍ að ganga af íslenskum landbúnaði dauðum verður áreiðanlega komið það langt þá.

Formaður BÍ setti þingið fyrir hádegi 5. mars. Í setningarræðunni var ekki einu orði vikið að framtíðarsýn landbúnaðarins. Mestu púðri var eytt á „hrákjötsdóm“ EFTA-dómstólsins frá síðasta ári. Ég minnist þess að hafa séð formanninn á ágætu málþingi um þetta mál á Hvanneyri í nóvember. Greinilega hafði hann ekki skilið orð af því sem þar fór fram. Þar var undirstrikað hve alvarlegar afleiðingar athafnaleysi stjórnvalda hér á landi í gerð á áhættumati hefði haft á framgang málsins. Þykist þekkja að þar hafi stjórn BÍ aldrei lagt hönd á plóginn. Á sama tíma eru flutt nánast átölulaust til landsins mörg tonn af gróðurmold, sem sannanlega hafa flutt með sér meinvætti og eru áreiðanlega verulega meiri áhætta íslensku búfé en innflutt kjöt. Svona vinnubrögð og málflutningur eins og BÍ stundar í þessu máli munu hvergi þekkjast á byggðu bóli. Eðlilegt að ráðherra væri ekki auðkeyptur til snúninga á slíkum grundvelli.

Þessi vinnubrögð stjórnar BÍ að reyna ekki að horfast í augu við staðreyndir heldur hrökkva í skotgrafirnar eru dauðadæmd. Þau geta aldrei leitt af sér annað en varnarstöðu í málum og menn verða aldrei í takti við tímann í sinni vinnu. (Stjórnin og sérstaklega formaðurinn betur þekkt fyrir að gera yfirleitt ekkert.) Því miður virtust fulltrúar á Búnaðarþingi flestir ekki gera sér grein fyrir hvaða blekkingarleik formaður og stjórn voru að leika.

Ég hlýddi á almennar umræður Búnaðarþings. Í meginatriðum voru þær svartnætti. Það skapast að vísu af þeim veruleika sem ég hef í skrifum mínum verið að leiða mönnum fyrir sjónir að hvorki stjórn BÍ eða stjórnvöld hafa nokkra stefnu í landbúnaðarmálum. Þar hef ég verið að benda á samanburð við Noreg sem afhjúpar þetta með öllu nenni menn að setja sig inní málið. Öll umræða um einhverja stefnu er því sjálfkrafa dæmd til að vera mest innihaldslaust þvaður. Þar er formaðurinn fremstur meðal jafningja.

Sigríður Jónsdóttir dró þessi sjónarmið fram í sinni ræðu á þinginu og benti í því sambandi á þá skýru stefnu sem stjórn BÍ hefði markað í síðasta búvörusamningi um að ganga af íslenskum landbúnaði dauðum. Formaðurinn lýsti sig ósammála þessu en færði ekki nokkur rök fyrir máli sínu, þó að Sigríður hefði fært fram augljós rök áður í málinu.

Á þriðjudagsmorgni mætti formaðurinn í morgunútvarpi. Hafi einhver fengið einhverja hugmynd út frá því sem hann sagði var það líklega að Búnaðarþing væri drykkjusamkoma bænda á tveggja ára fresti. Kunni hluta úr einni línu ferskeytlu um veisluhöld gamals þings sem málhagur höfðingi kom þá á flug. (Athyglisvert að hlutfallslega fór líklega stærri hluti tímans núna til veisluhalda en hjá gömlu þingunum.) Þáttarstjórnanda varð á að spyrja um viðhorf til fjórðu tæknibyltingarinnar hjá landbúnaðinum. Þetta er sem stendur almennasta umræðumál á eftir loftslagsógninni hjá bændum um allan heim. Þetta kom greinilega flatt upp á formanninn sem virtist ekki skilja hvað var spurt um og setti á stað samhengislaust blaður um umhverfismál. Í beinu framhaldi komu fréttir sem lýstu fjórfalt hraðari umhverfisbreytingum í hafinu gagnvart þorskstofnum en þeir sem best vissu höfðu áður talið. Fróðlegt að hlusta á bull formannsins í því beina samhengi.

Eftir að hafa lesið ályktanir þingsins fæ ég ekki séð að neitt sem skiptir íslenskan landbúnað máli liggi eftir þingið. Sum málin meira að segja einkennast um of af þekkingarleysi eða rangtúlkunum eins og rætt er í sambandi við „hrákjötsmálið“. Tollamálin þar nærtækust. Því er marglýst yfir af stjórnvöldum að þessir samningar voru gerðir til að liðka fyrir hliðstæðum ívilnunum fyrir sjávarafurðir Íslendinga. Viti ég rétt er samningurinn auk þess að frumkvæði íslenskra stjórnvalda. Minni hagsmunum mögulega fórnað fyrir meiri. Eins og í fyrra málinu það eina raunhæfa í málinu að bregðast við veruleikanum. Móta viðbrögð í ljósi þess.

Störf sín kórónaði þingið með að endurkjósa þennan dæmalausa formann auk þriggja eldri stjórnarmanna. Þó að þeir séu ekki jafningjar formannsins í bulli og rangfærslum þá hafa þeir allir sýnt góða tilburði þar sem mögulega mætti segja frá í annarri grein síðar.

Höfundur starfaði hjá BÍ á fimmta áratug.

Höf.: Jón V. Jónmundsson