— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kalda stríðið var sinnar eigin gerðar og stóð í nærri hálfa öld. Sambúð Vesturlanda við Rússland nú er allt annarrar gerðar. En hitt er rétt að það blása sífellt kaldranalegri vindar og það er erfitt að sjá að nokkur verði betur staddur herðist sá kuldi enn.

Nú hefur heimurinn mannkynssöguna í fingurgómunum. En það þýðir ekki endilega að nú kunni fleiri en áður þá sögu upp á sína 10 fingur.

Staðreyndir að smekk

Galopið aðgengi að upplýsingum verður til þess að óþarft þykir að fylla hýsirými heilans með því sem er innan seilingar hvenær sem er svo lengi sem símtækið er það. Það gæti því sýnst hjákátlegt að velta þessu fyrir sér og eyða pappír og „prentsvertu“ í það að auki. En upplýsingarnar sem eru svo aðgengilegar eru ekki allar eins og sýnast. Þeir sem fletta upp nýlegum atburðum eða umræðuefnum sem þeir sjálfir þekkja mjög vel til sjá fljótt að villandi staðhæfingum og stundum hreinum uppspuna er blandað við „þekktar staðreyndir.“ Þá sést að þeim sem er umhugað um að „sannleikurinn“ sé þeirra sannleikur tekst ótrúlega oft að villa um fyrir þeim sem leitar sér fróðleiks. Margoft er tilhæfulausum fullyrðingum blandað inn í texta sem settur er fram eins og um samþykktar staðreyndir sé að ræða. Þeir sem illa eru að sér fara illa út úr þeirri mötun.

Stundum er látið vera að skrökva beint enda er líklegra að slíkt verði leiðrétt. Í staðinn er hlaðið inn „staðreyndum“ sem saman draga upp brenglaða mynd þótt hvert og eitt atriði gæti staðist. Þetta hefst með því að sleppa að nefna staðreyndir sem ýta undir allt aðra niðurstöðu. Þess utan geta hagsmunaaðilar keypt sína útleggingu í þá stöðu að hún „poppar“ jafnan upp fyrst þegar spurt er.

Staðreynd sem stendur fyrir sínu, segir aðeins brotakennda mynd ef hún er sérvalin og látin segja alla söguna. Sé birt „staðreynd“ um konu sem barði mann, gaf honum glóðaraugu, sparkaði í klof og reif hár hans, þá sýnir það að þar fór mikið skass og ætti vart að ganga laust. Ef önnur staðreynd er höfð með gæti hún sýnt að staðreyndin um barsmíðarnar, þótt sönn væri, dró upp skakka mynd af því sem gerðist. Sú staðreynd kynni að sýna að barsmíðarnar voru viðbrögð konunnar við tilraunum hrotta til að nauðga henni.

Margir muna kannski enn hvernig fjölmiðlaheimurinn umturnaðist þegar einn af ráðgjöfum Trumps forseta, Kellyanne Conway, svaraði fullyrðingum fréttamanna um dægurefni sem skaust stundarkorn upp í hæstu hæðir umræðunnar. Fréttamennirnir bentu á að þær staðreyndir sem þeir og starfssystkin þeirra höfðu fært fram drægju upp mynd sem væri ekki góð og ekki væri neinn vegur að andmæla. Frú Conway sagði þá að „alternative facts“ drægju upp allt aðra mynd af sama efni. Ekkert skal sagt um það hvort það mat hennar var rétt. En viðbrögðin við þeim orðum hennar að rétt væri að skoða aðrar staðreyndir til samanburðar voru ótrúleg. Fréttaheimurinn taldi sig aldrei hafa heyrt annað eins og þetta. Skyndilega hefði eitthvað orðið til sem héti „alternative facts“ og fólk sem staðið væri að því að vera með vond mál og viðkvæm þættist geta teflt slíku fram gagnvart staðreyndum sem fjölmiðla- og rannsóknarblaðamenn hefðu „aflað“. Slíkt og því líkt undirstrikaði með sláandi hætti siðleysi og forstokkun þess liðs sem nú hefði, með atbeina Pútíns, hertekið Hvíta húsið með kosningasvindli.

Þetta heimatilbúna hneyksli yfirtók alla umræðu næstu tvo daga og var algjörlega einhliða.

Hefði hún staðið eitthvað lengur þá hefði hugsanlega náðst að sýna hvaða dellumakerí var á ferð. En þá var komið eitthvert nýtt æsingamál og vera má að Trump hafi sjálfur startað því um leið og hann skaust niður í eldhús um nótt til að seðja sárasta hungrið og hafi sent nokkur „tíst“ til að nýta tímann. Það er auðvitað hverju orði sannara að þær eru margar staðreyndirnar sem halda má fram að geti snerti hvert mál. Kellyanne Conway sem er lögfræðingur, fyrrverandi málflutningsmaður og kennari við lagadeild George Washington-háskóla, fór auðvitað nærri um það.

Staðreyndirnar þarfnast talsmanns

Það er góð regla þegar mál eru rakin og tekist er á um hagsmuni að reynt sé að koma sér sæmilega saman um hver sé söguþráðurinn og hvaða „staðreyndir“ máls skipti einhverju um niðurstöðu þess.

En staðreynd lífsins er auðvitað sú að einstakir aðilar máls halda fremur fram þeim staðreyndum sem þeir hafa gagn af en hinum. Enda er það jú annarra málsaðila og talsmanna þeirra að sjá um sína hlið.

Góðir dómarar draga svo saman þá mynd sem lýsir málavöxtum best og lög leiða til að eigi að hafa mest áhrif á úrlausn máls.

Ef eingöngu annar aðilinn kæmi að málatilbúnaðinum er næsta víst að sitthvað myndi vanta upp á aðra hlið hans – „the alternative facts“.

Stundum háttar þannig til að ekki er „öðrum staðreyndum“ til að dreifa. Og þá liggur fyrir að „túlka þær staðreyndir málstaðnum í hag. Þá verður einatt mjög langt á milli aðila þótt sömu „staðreyndirnar“ liggi til grundvallar röksemdunum.

Einn Rússagaldurinn enn

Þessi rulla um sjálfsagða hluti er aðdragandi umfjöllunar um það mál sem einna hæst bar í vikunni sem er að líða. Það var eiturefnaárás á tvo Rússa í Salisbury í Englandi sunnanverðu. Málið er bæði dularfullt og reyfarakennt. Allmargar staðreyndir liggja þegar fyrir. En fjarri því allar. „Alternative facts“ gætu komið fram síðar og því átt eftir að breyta þeim söguþræði sem nú er þekktur.

Allmargar þekktar staðreyndir virðast óneitanlega benda til þess að rætur ódæðisins hljóti að liggja í Rússlandi. Sumir ganga lengra og fullyrða að rótarendana megi staðfæra af nákvæmni. Þeir eigi upphaf sitt innan Kremlarmúra, þar sem Jósef gamli Stalín, sjálfur „sonur skóarans,“ hélt lengst allra um tauma og það nokkuð fast. Breski utanríkisráðherrann, Boris Johnson, segir að „yfirgnæfandi líkur“ standi til þess að Pútín forseti hafi gefið fyrirmælin um eiturefnaárásina. Rússnesk yfirvöld brugðust fljótt og hart við og sögðu m.a. að óhugsandi væri að „þessi ásökun yrði fyrirgefin“. Slíkt orðalag sætti ekki tíðindum í pólitískum skylmingum, en í opinberum yfirlýsingum, sem lúta jafnan þekktu og samþykktu orðalagi, gegndi öðru máli. Viðbrögð yfirvalda í Kreml sýndu að orð breska ráðherrans væru ekki aðeins talin ögrun heldur persónuleg árás á forseta Rússlands.

Hvaða rök, hvaða staðreyndir?

En hvers vegna telja bresk yfirvöld sig geta fullyrt að eiturefnaárásin á rússnesku feðginin sé ákvörðun æðstu yfirvalda í Rússlandi? Í fyrsta lagi vegna þess að þau geta ekki nefnt neinn annan aðila til þessarar sögu og ekki boðlegt að halda því fram að þau hvorki viti né geti getið sér til um það hver hafi verið að verki. Og í öðru lagi vegna þess að þau telja einfaldlega að vísbendingarnar um það séu margar og næsta ótvíræðar.

Eitrið sem notað var kemur að þeirra mati úr eiturgeymslum gömlu Sovétríkjanna. Um það er varla deilt. Ekki sé vitað um neinn annan sem hafi framleitt þetta eitur. Skripal, sem fyrir árásinni varð, sé fyrrverandi rússneskur njósnari sem hafi á sínum tíma verið dæmdur svikari og njósnari bresku leyniþjónustunnar.

Vitnað er í orð Pútíns forseta sem hafi aðspurður sagt í sjónvarpsviðtali að það sem hann þyldi verst og reyndar alls ekki væru óheilindi. Þau fyrirgæfi hann aldrei.

Þá er rætt um morðið á Alexander Litvinenko sem árið 2006 var myrtur með rússnesku eitri, geislavirku polonium 210 sem blandað hafði verið í te hans. Bresk yfirvöld hafa í hans tilviki getað bent með trúverðugum hætti á þá einstaklinga sem komu að morðinu á Litvinenko.

Rússnesk yfirvöld segja hins vegar meint sönnunargögn vera fjarri því að vera trúverðug og hafna því framsalskröfum Breta.

Breskir læknar áttu í nokkrum vandræðum með að ákvarða hvaða eitur var notað til að bana Litvinenko, en ekki er talið að það hafi orðið til þess að ekki tókst að bjarga honum.

May, Mirzayanov og Corbyn

Theresa May forsætisráðherra sagði breskum þingheimi að það væri ekki kostur á annarri niðurstöðu (alternative conclusion) en þeirri að Rússland bæri ábyrgð á morðtilrauninni á Sergei Skripal, njósnara og gagnnjósnara, og Yuliu dóttur hans, hinn 4. mars sl. Feðginin eru nú sögð á hægum batavegi.

Einn af sovésku vísindamönnunum sem komu að því að þróa taugaeitrið novichok (nýliði), Vil Mirzayanov, sem fékk hæli í Bandaríkjunum og býr þar nú nærri hálfníræður, er ekki í vafa um að fyrrverandi landar hans hafi verið að verki og hann er ekki bjartsýnn á batahorfur Skripals og Yuliu. Hann vitnar til þess að samstarfsmaður hans hafi vegna mistaka orðið fyrir litlum skammti af þessu eitri og strax fengið rétt móteitur og hafi vissulega lifað í 5 ár eftir það en verið stórlega laskaður maður. Ummæli þessa gamla vísindamanns eru eftirtektarverð um margt. Hann fordæmir að eitrið skuli notað til hryðjuverka. Það hafi aldrei staðið til. Þetta hafa ætíð verið hugsað sem hernaðarvopn og stefnt að því að nota það til fjöldadráps á vígvelli, en ekki til hryðjuverka af því tagi sem hér var!

Spurður um það hvort hann óttaðist ekki um líf sitt eftir að hafa opnað sig opinberlega með þessum hætti svaraði hann því til að hann væri gamall orðinn svo að það tæki því ekki að hafa áhyggjur af því. En hann upplýsti jafnframt að hann hefði birt formúluna að eitrinu á bók sem enn mætti kaupa á Amason fyrir fáeina dollara og jafnframt hefði hann fyrir löngu lagt til að eitrið væri sett á alþjóðlegan bannlista en við því hefði ekki verið orðið!

Mirzayanov bætti því við eitrið væri þægilegt til flutninga. Það mætti flytja í tveimur aðskildum flöskum og væru báðar algjörlega hættulausar. Það væri aðeins eftir að innihaldið í flöskunum væri blandað saman sem efnið yrði þegar stórkostlega hættulegt.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði í andsvörum við May forsætisráðherra að fullgildar sannanir um aðild Rússa að eiturefnaárásinni lægju alls ekki fyrir. Því mætti ekki hrapa að ályktunum og að verða ætti við óskum rússneskra yfirvalda um að senda þeim sýni af eitrinu, sem notað var, svo þau gætu sagt álit sitt á því. Þessi viðbrögð leiðtogans mæltust illa fyrir í þinginu og var óánægjan veruleg í flokki Corbyns sjálfs. Skoðanakannanir í kjölfarið sýndu að yfirgnæfandi meirihluti bresku þjóðarinnar var ánægður með framgöngu May og að sama skapi hneykslaður á framgöngu Corbyns. Leiðtoginn hefur því tekið til við að draga í land með yfirlýsingar sínar og segir nú að vissulega séu mestar líkur á því að Rússland hafi staðið fyrir árásinni.

En mótrökin?

Þeir sem segja fljótaskrift á niðurstöðunni um aðild Rússa og Pútíns sérstaklega segja að sannanir séu enn af skornum skammti og ásakanir og aðgerðir á þeim byggðar séu eingöngu fengnar með getgátum sem bresk yfirvöld segi að vísu vera óyggjandi. En fyrst viðurkennt sé að aðeins sé um líkindi að tefla en ekki sannanir megi einnig draga fram þá þætti sem minnki augljóslega þær líkur. Litvinenko, sem nær örugglega hafi verið myrtur af Rússum, hafi verið njósnari Rússa. Hann hafi fengið hæli í Bretlandi, hafið samstarf við bresku leyniþjónustuna og gefið út bækur um starfsemi sinna gömlu yfirmanna og einnig veist þar að núverandi stjórnvöldum.

Rússar hafi hins vegar sjálfir flett ofan af Skripal njósnara og dæmt hann í 13 ára fangelsi fyrir svik hans og þjónkun við óvinaríki. Stjórnvöld í Kreml hafi síðan, að eigin ákvörðun, afhent hann Bretum í víðtækum njósnaraskiptum sem fram fóru í Austurríki. Skripal hafi þá ekki lengur búið yfir neinum gagnlegum upplýsingum og hafi, ólíkt Litvinenko, haft sig hægan og haldið sig til hlés í Bretlandi.

Pútín sé gamall njósnaforingi og hann viti því betur en aðrir að menn afhendi ekki fanga í fangaskiptum og sendi síðan menn á eftir þeim til að drepa þá. Slíkir samningar verði að halda, það sé jafn mikilvægt fyrir báða. Þá sé fráleitt að ætla að Pútín hafi gefið fyrirmæli um að láta drepa Skripal fáeinum vikum fyrir forsetakosningar í Rússlandi og tekið áhættuna af því að setja heimsmeistaramótið í knattspyrnu í uppnám, sem Rússland hafi varið miklum fjármunum til að undirbúa myndarlega. Mótið sé mjög mikilvægt, bæði fyrir heiður Rússlands og Pútíns, ekki síst eftir það sem gerðist varðandi Ólympíuleikana og afleiðingar þess á Vetrarólympíuleikunum í Suður-Kóreu.

Eftir morðárásina á Litvinenko hafi Bretar átt myndir af gerendum sem hröðuðu sér til Rússlands og tengdu þannig árásina við landið með ótvíræðum hætti. Ekkert slíkt hafi enn fundist í síðara tilvikinu, þótt líklegt sé að Skripal-feðginin ættu að geta hjálpað til við þann þátt rannsóknarinnar haldi bati þeirra áfram. Bresk yfirvöld segjast gefa lítið fyrir skýringar af þessu tagi enda vegi þær létt í samanburði við alla þá þætti sem hljóti að vera afgerandi um mat á því hvar sök á eiturefnaárásinni sé að finna. Hún sé, ásamt árásinni á Litvinenko, fyrsta eiturefnaárás í Evrópu frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari.

Nýtt kalt stríð?

Kalda stríðið var sinnar eigin gerðar og stóð í nærri hálfa öld. Sambúð Vesturlanda við Rússland nú er allt annarrar gerðar. En hitt er rétt að það blása sífellt kaldranalegri vindar og það er erfitt að sjá að nokkur verði betur staddur herðist sá kuldi enn.

Og því miður virðist sama hljóðið í öllum nú og hjá veðurfræðingum framan af þessu ári. „Því miður eru djúpar lægðir eða hæðir yfir Grænlandi svo langt sem við sjáum.“

Á sínum tíma er sagt að sr. Bjarni hafi brugðist þannig við veðurfregnum: „Hæð er yfir Grænlandi. Biskupinn yfir Íslandi. Verður þá vont veður?“

Þessum veðurfregnum má breyta þannig: „Trump ræður Vínlandi. Pútín ráðskast í Rússlandi. Vandi er um slíkt að spá.“