Jóhann Gunnar Jóhannsson fæddist í Reykjavík 19. september 1969. Hann lést 9. febrúar 2018.

Útför Jóhanns fór fram 9. mars 2018.

Í dag syrgjum við fallinn félaga, elskulegan vin og traustan samstarfs- og stuðningsmann til margra ára, Jóhann Jóhannsson.

Við eigum margar góðar minningar um samveru okkar með Jóhanni. Fljótlega eftir að við opnuðum 12 Tóna hóf hann að venja komur sínar og var duglegur að notfæra sér hlustunaraðstöðuna, um leið og hann fékk sér einn eða fleiri kaffibolla. Jóhann var spenntur fyrir því nýja úrvali sem við buðum upp á og ekki síst fyrir þeirri klassísku tónlist og hljóðmynd sem reis úr rústum tveggja heimsstyrjalda, enda var hann alla tíð forvitinn og leitandi á lendum tónlistarinnar. Við nýttum okkur yfirgripsmikla þekkingu Jóhanns á framsækinni tónlist á þessum tíma. Hann hvatti okkur til dæmis til að hefja innflutning frá ítalska útgáfufyrirtækinu CAM sem gefur meðal annars út kvikmyndatónlist Goblin, Nino Rota og Ennio Morricone. Ekki datt okkur í hug þá að einungis nokkrum árum síðar ætti Jóhann eftir að feta svo eftirminnilega í fótspor þessara meistara sem höfðu svo mikil áhrif á hann.

Það er okkur mjög í fersku minni þegar Jóhann kom í heimsókn einn góðan veðurdag árið 2001 og skildi eftir brenndan geisladisk sem hann vildi að við hlustuðum á. Þetta var tónlistin úr leikritinu Englabörn, en sú sýning var þá ekki enn komin á fjalirnar. Við hlustuðum og hlustuðum. Næst þegar Jóhann kom föðmuðum við hann innilega og þökkuðum þannig fyrir þessa dásamlegu gjöf sem hafði snert okkur svo djúpt. Það sagði margt um hógværð Jóhanns að honum komu þessi sterku viðbrögð á óvart. En svo brosti hann sínu fallega brosi. Við hvöttum hann eindregið til að koma tónlistinni á framfæri og mæltum með breska útgáfufyrirtækinu Touch sem vænlegan vettvang fyrir þessa tónlist. Það gekk eftir og með Englabörnunum bláu hófst glæsilegur alþjóðlegur sólóferill Jóhanns. Síðar vorum við svo lánsamir að gefa út fimm geisladiska með tónlist Jóhanns, og fjóra með hljómsveitum hans Apparat Organ Quartet og Evil Madness. Þetta voru ólík en allt saman skemmtileg og gefandi verkefni. Þar kynntumst við vel því hvernig Jóhann vann og þeim fókus sem hann hafði á öllu ferlinu, frá upptöku til umslagshönnunar og loks umgjörð tónleikahalds.

Það var einstaklega ánægjulegt að fá að fylgjast með Jóhanni vaxa sem tónskáld og þeirri velgengni sem fylgdi í kjölfarið. Á sama tíma höfum við notið þeirra forréttinda að fá á hverjum degi að kynna tónlist hans fyrir þeim fjölmörgu innlendu og erlendu gestum sem hafa heimsótt verslun okkar í gegnum árin. Við höfum séð hvernig tónlistin hefur snert þá sem eru að heyra hana í fyrsta sinn. Og þó Jóhann sé nú farinn þá lifir hann áfram í hjörtum okkar í tímalausri tónlist sinni.

Við sendum Karólínu og fjölskyldu Jóhanns innilegar samúðarkveðjur.

Lárus Jóhannesson, Jóhannes Ágústsson, Einar Þ. Kristjánsson.