[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Arnlaugsson fæddist í Akurgerði í Reykjavík 17.3. 1923. Hann lærði skipasmíði hjá Magnúsi Guðmundssyni og lauk námi 1945. Á unglingsárunum vann Helgi hjá föður sínum sem rak hænsna- og kúabú í Haga við Hofsvallagötu.

Helgi Arnlaugsson fæddist í Akurgerði í Reykjavík 17.3. 1923. Hann lærði skipasmíði hjá Magnúsi Guðmundssyni og lauk námi 1945.

Á unglingsárunum vann Helgi hjá föður sínum sem rak hænsna- og kúabú í Haga við Hofsvallagötu.

Helgi starfaði við Landssmiðjuna 1946-47, var skipasmiður hjá Daníelsslipp frá 1947 og síðan hjá Slippfélagi Reykjavíkur um langt árabil. Hann var starfsmaður Málm- og skipasmiðasambandsins 1973-93 og starfsmaður Samiðnar 1993-94.

Helgi sat í stjórn Sveinafélags skipasmiða 1947-81, var formaður þess 1954-84, fulltrúi sveinafélagsins á þingum Málm- og skipasmiðasambandsins og þingum ASÍ, var gjaldkeri Málm- og skipasmiðasambandsins um árabil frá 1964 og félagslegur endurskoðandi reikninga ASÍ og reikninga Lifeyrissjóðs málm- og skipasmiða.

Helgi er heiðursfélagi Samiðnar frá 1994, heiðursfélagi Félags járniðnaðarmanna og var sæmdur gullmerki félagsins. Hann sat í trúnaðarmannaráði Félags járniðnaðarmanna um árabil.

En hvað er Helgi að gera í dag?

Að sögn barna hans eru þau hjónin upptekin af því að njóta lífsins. Þau fara í sund á hverjum degi, spila golf, fara í gönguferðir og sækja tónleika. Þau hafa ferðast vítt og breitt um heiminn, og nú, í tilefni 95 ára afmælisins, eru þau stödd á suðrænum slóðum við minigolfiðkun, gönguferðir og dans á kvöldin.

Fjölskylda

Helgi kvæntist 19.10. 1946 Ólínu B. Guðlaugsdóttur, f. 26.6. 1925, d. 1.11. 1979, húsfreyju.

Dóttir Ólínu frá því áður, og fósturdóttir Helga, er Hilda Emilía Hilmarsdóttir, f. 13.2. 1944, fyrrv. skrifstofumaður við MS, búsett í Reykjavík en maður hennar er Ólafur Þórðarson og eru dætur þeirra Kristín, f. 1971, Sylvía Björk, f. 1973, og Viktoría, f. 1980.

Börn Helga og Ólínu eru Kristinn, f. 5.3. 1947, múrarameistari, var kvæntur Birnu Björnsdóttur en þau skildu og eru synir þeirra Helgi Björn, f. 1966, og Hákon, f. 1971, en dóttir Kristins og Svanhildar Diego er Kolbrún Ólína, f. 1990. Seinni kona Kristins er Ten og eiga þau soninn Kris, f. 2009; Arnlaugur, f. 2.9. 1955, markaðsstjóri í Reykjavík, var kvæntur Guðbjörgu Hákonardóttur en þau skildu og er dóttir þeirra Íris, f. 1976, en seinni kona Arnlaugs er Anna Birgitta Bóasdóttir og er sonur þeirra Andri Már, f. 1982; Guðrún, f. 2.9. 1955, skrifstofumaður hjá Advania, búsett í Mosfellsbæ, gift Ómari Garðarssyni og eru dætur þeirra María, f. 1977, og Eva, f. 1982; og Elsa Kristín, f. 20.3. 1964, skrifstofumaður hjá Reyni bakara, búsett í Reykjavík en maður hennar er Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson og eru synir þeirra Kristófer, f. 1991, og Sindri Snær, f. 1996.

Seinni kona Helga er Erna Ragnheiður Hvanndal Hannesdóttir, f. 30.8. 1933. Þau hófu búskap 1982 og giftu sig 1991.

Börn Ernu Ragnheiðar frá fyrra hjónabandi eru Finnbjörg, f. 24.8. 1952, þroskaþjálfi í Reykjavík, en maður hennar var Guðjón Ólafsson sem lést 2014 og eignuðust þau fjórar dætur; Jóhann Örn, f. 7.8. 1954, múrarameistari í Tulsa í Bandaríkjunum en kona hans er Anna Helgadóttir og á hann þrjú börn; Halldóra, f. 8.8. 1956, fyrrv. bankastarfsmaður en maður hennar er Bjarni Ingvarsson og eiga þau þrjú börn, og Íris Hvanndal, f. 25.10. 1972, kennari, búsett í Hafnarfirði en maður hennar er Halldór Geirsson og eiga þau þrjú börn. Helgi á 22 langafabörn og fjögur langalangafabörn en Erna á 19 barnabörn.

Systkini Helga: Guðmundur, f. 1.9. 1913, d. 9.11. 1996, rektor MH; Skúli, f. 30.9. 1916, d. 8.6. 1917; Sigríður, f. 18.1. 1918, d. 21.12. 2007, kennari; Ólafur, f. 2.3. 1920, d. 28.11. 1984, vélstjóri og síðar slökkviliðsstjóri í Hafnarfirði; María, f. 21.6. 1921, fyrrv. bankastarfsmaður; Elías, f. 8.11. 1925, d. 4.11. 2000, bifvélavirki og kennari við Iðnskólann í Reykjavík; Hanna, f. 29.7. 1928, d. 13.1. 1984, röntgentæknir.

Foreldrar Helga voru Arnlaugur Ólafsson, f. í Gerðum í Gaulverjabæjarhreppi 8.8. 1888, d. 2.9. 1971, verkamaður og bóndi í Haga í Reykjavík, og k.h., Guðrún Guðmundsdóttir, f. á Múlastöðum í Flókadal í Borgarfirði 6.9. 1884, d. 6.8. 1943, húsfreyja.