Það veltur á komandi kosningum hvort ásakanir um valdarán hafa verulega þýðingu

Robert Mugabe, fyrrverandi forseti Zimbabwe, hefur haft hægt um sig síðan honum var steypt af stóli síðastliðið sumar. Hann fór þó í vikunni í viðtöl og talaði þar enga tæpitungu. Hann sagði hreint út að „valdarán“ hefði verið framið í landinu.

Um leið neitaði hann að viðurkenna eftirmann sinn á forsetastóli, Emmerson Mnangagwa, og sagði að „réttkjörnir fulltrúar fólksins“ yrðu að taka við stjórnartaumunum sem fyrst. Bauð hinn 94 ára gamli Mugabe fram aðstoð sína við það ferli, en sagðist vera orðinn of gamall til þess að taka við stjórnartaumunum á ný.

Engum sem fylgdist með atburðarásinni í Zimbabwe síðasta sumar getur dulist það að sannleikskorn er að finna í frásögn Mugabes um valdarán. Það er þó ekki sérlega trúverðugt þegar hann sakar aðra um valdarán, auk þess sem engin eftirspurn var eftir áframhaldandi setu hans á valdastóli eftir 36 löng og erfið ár.

Hvað sem því líður er rétt hjá Mugabe að nauðsynlegt er að Mnangagwa standi við það að halda forsetakosningar í haust og að hann tryggi að þær kosningar verði sanngjarnar, ekki síst þar sem hann hyggst vera meðal frambjóðenda.

Komi upp sá grunur eftir kosningar að Mnangagwa hafi haldið embætti sínu með áþekkum aðferðum og Mugabe munu fleiri taka undir með forsetanum fyrrverandi að valdarán hafi verið framið. Vonin er hins vegar sú að lýðræðið muni loksins fá að njóta sín. Verði sú raunin munu íbúar Zimbabwe vonandi geta tekið skrefið út úr skugga Mugabes og inn í bjartari tíð.