— Getty Images/iStockphoto
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skólasamfélagið er í uppnámi eftir fyrirlögn samræmdra prófa í 9. bekk í síðustu viku, þar sem stór hluti nemenda tók prófið við óviðunandi aðstæður. Tæknilega hliðin er þó aðeins einn þáttur gagnrýni á prófin. Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is

Það er ekkert launungarmál að samræmd könnunarpróf í grunnskólum landsins hafa verið gagnrýnd, ekki bara núna í ár þegar tæknilegir annmarkar settu prófin úr skorðum, þar sem til dæmis aðeins 1.700 nemendur af 4.000 gátu lokið prófi í íslensku, heldur einnig síðustu árin. Hefur gagnrýnin meðal annars snúið að því að prófin séu ekki í takt við nútímakennsluaðferðir, séu gamaldags og trufli skólastarf.

Prófin hafa líka verið gagnrýnd fyrir innihald og spurningar og má þar einkum nefna íslenskuprófin, sem málfræðingar, kennarar og foreldrar hafa fundið ýmislegt að, en á næstu síðum er fjallað um þessa gagnrýni frá ýmsum hliðum.

Ákveðið hefur verið að nemendum í 9. bekk gefist kostur á að þreyta að nýju könnunarprófin í ensku og íslensku og er þátttaka valkvæð, samkvæmt ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Menntamálastofnun hefur ráðið þrjá óháða sérfræðinga til að fara yfir ferlið við fyrirlögn samræmdra könnunarprófa og leitað ráða hjá fyrrverandi forstöðumanni Námsmatsstofnunar.

Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Salaskóla í Kópavogi, segir að nemendur hafi í ár orðið fyrir miklu áfalli.

„Ég held það hafi ekki komið nógu skýrt fram í þessu öllu að þetta fór sérlega illa í þá. Krakkarnir voru búnir að undirbúa sig ofboðslega vel og leggja mikinn metnað í þetta, sum voru jafnvel búin að kaupa sér aukatíma. Þetta fór sérstaklega illa í nemendur sem voru að þreyta prófin í séraðstæðum, þá sem þurfa lesaðstoð eða lengri tíma en líka bara alla. Það fóru nemendur að gráta og þótt tæknivandamálið sé leyst situr þetta eftir í nemendum og okkur starfsfólki skólans líka. Manni finnst mikið á nemendur lagt að það eigi að endurtaka þennan leik,“ segir Hafsteinn.