Þráinn Hjálmarsson
Þráinn Hjálmarsson
„Að segja vegina hér í sveit þá verstu á landinu eru sennilega engar ýkjur. Ástandið er slæmt,“ segir Þráinn Hjálmarsson, skólabílstjóri á Hríshóli í Reykhólasveit.

„Að segja vegina hér í sveit þá verstu á landinu eru sennilega engar ýkjur. Ástandið er slæmt,“ segir Þráinn Hjálmarsson, skólabílstjóri á Hríshóli í Reykhólasveit. Börnin þar í sveit sem eiga lengst til skóla að sækja koma frá Gufudal í Gufudalssveit, sem er um 50 kílómetra frá Reykhólum. Þráinn ekur þessa leið fram og til baka á morgnana og síðdegis, fer þá yfir Hjalla- og Ódrjúgsháls, en til fjölda ára hefur verið rekistefna og ströggl um hvar ný leið þar skuli liggja. Í sl. viku ákvað sveitarstjórn Reykhólahrepps að nýr vegur skyldi lagður um Teigsskóg, sem er mun ódýrari kostur, í stað þess að gerð verði jarðgöng yfir hálsana tvo. „Fyrir löngu átti að vera klárt varðandi þessa vegagerð. Síðan þá hefur málið flækst, sennilega hefði verið fljótlegast að leggja göng um Hjallaháls,“ segir Þráinn og bætir við að umferð um þessar slóðir hafi aukist mikið síðustu misserin. Stundum komi 10-12 trukkar á dag með afurðir frá laxeldisstöðvum á sunnanverðum Vestfjörðum og malarvegirnir beri það álag ekki.