Vilhjálmur Geirmundsson fæddist 19. desember 1943. Hann lést á öldrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 8. mars 2018.

Foreldrar Vilhjálms voru Geirmundur Jónsson, f. 1912, d. 1999, og Hólmfríður Steinunn Guðmundsdóttir, f. 1913, d. 1944. Systkini Vilhjálms eru Erna, f. 1939. Hálfbræður Vilhjálms eru Sveinn, f. 1953, Jón, f. 1956, Guðjón Ingvi, f. 1959. Vilhjálmur kvæntist Steinunni Eiríksdóttir, þau slitu samvistum. Eignuðust þau eina dóttur, Huldu, sambýlismaður hennar er Jón Unnar Friðjónsson og eiga þau saman tvær dætur.

Sambýliskona Vilhjálms síðustu árin er Freygerður Sigríður Jónsdóttir og á hún tvær dætur.

Útför Vilhjálms fer fram frá Hofsóskirkju í dag, 17. mars 2018, klukkan 14.

Vilhjálmur Geirmundsson, eða Villi bróðir eins og hann var ætíð kallaður á okkar heimili, er farinn í sína hinstu för. Það eru allmörg ár síðan fór að bera á veikindum hjá Villa, hann var farinn að gleyma hlutum. Villi gerði sér sterka grein fyrir þessu og talaði oft um sín veikindi þegar við hittumst og fannst miður að geta ekki gert alla þá hluti sem hann hafði gert áður vegna sinna veikinda, það var fátt sem hann gat ekki gert ef honum datt það í hug.

Þegar ég var lítill drengur var oft gott að leita til Villa bróður, hann var alltaf tilbúinn að aðstoða ef á þurfti að halda. Eftirminnilegast er atvik sem gerðist rétt fyrir jól, í þá daga voru keyptir epla- og appelsínukassar sem ekki var snert á fyrr en á jólum, karl faðir okkar kemur heim með slíka og setur niður í kjallara og upp í hillu svo ekki var ætlast til að við snertum kassana, en lítill drengur gat ekki með nokkru móti staðist þessa freistingu að næla sér í þó ekki væri nema eitt epli. Laumast ég niður færi eplakassann aðeins fram svo hægt sé að taka lokið af, en viti menn þá mætir mér hvæsandi rotta sem hafði komið sér fyrir á bak við kassann. Ekki veit ég hvernig mér tókst að komast upp aftur án þess að slasa mig, þvílíkur hraði var á mér. Eftir þetta neitaði ég að búa í þessu húsi þar til Villi sagði mér að hann hefði banað rottunni. Villi var mín hetja eftir þetta. Svo er mér líka í fersku minni vörubíllinn sem hetjan mín smíðaði fyrir mig, óþreyjufullur var ég að bíða eftir að rauða málningin þornaði almennilega og stalst til að fara með bílinn út í moldarbing og athuga hvort sturtan á pallinum virkaði ekki sem skyldi. Villi kemur heim frá róðri og sér prakkarastrikin mín og var ekki glaður, hann gerði mér það ljóst þá að ég skyldi ekki valda honum aftur þvílíkum vonbrigðum eins og raun bar vitni, ég lofaði því og held ég hafi staðið við það að mestu eftir þetta.

Villi lærði vélvirkjun og var vandvirkur og nákvæmur í því sem hann tók að sér, vann mikið fyrir samferðamenn sína á Hofsósi, meðal annars í pípulögnum, hjá honum fékk ég mína fyrstu reynslu af þeirri iðn. Hann tók að sér að leggja pípulögn í raðhúsið sem ég byggði mér og ég var hlaupadrengur hjá honum þegar ég var ekki á sjónum, hann lét mig snitta upp á gamla mátann og hét ég því þá að þetta skyldi ég aldrei vinna við. En tímarnir breytast og mennirnir með, þegar ég kom í land og húsið tilbúið til innflutnings var ég búinn að kynnast eiginkonu minni, Önnu Björk, og hennar syni, sem var þá bara eins árs, þá fór ég að læra pípulagnir og var hann fyrstur manna sem ég réð til mín í vinnu eftir að ég útskrifaðist sem pípulagningamaður, samstarf okkar entist í allmörg ár og ekki var ég, né aðrir, svikinn af þeim verkum sem eftir hann lágu. Villi var mikið á okkar heimili í öll þau ár sem hann vann hjá mér, við Anna Björk og drengirnir okkar litum ætíð á hann sem einn af okkur.

Elsku Hulda og fjölskylda, elsku Freyja, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Guð blessi ykkur öll.

Jón, Anna Björk og synir.

HINSTA KVEÐJA
Hin langa þraut er liðin,
nú loksins hlaustu friðinn,
og allt er orðið rótt,
nú sæll er sigur unninn
og sólin björt upp runnin
á bak við dimma dauðans nótt.
(Valdimar Briem.)
Hvíl í friði, elsku vinur.
Sveinn (Svenni) og Anna.