Kolbeinn Hermann Pálsson og Þorberg Ólafsson bregða á leik í stólnum góða.
Kolbeinn Hermann Pálsson og Þorberg Ólafsson bregða á leik í stólnum góða. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Upprunalegur stóll úr rakarastofunni í Eimskipshúsinu ennþá í fínu ástandi.

„Það má alveg slá því föstu að þetta sé stóll úr rakarastofunni í Eimskipafélagshúsinu og mjög líklega einn af stólunum sem voru þar þegar stofan var opnuð árið 1921,“ segja Þorberg Ólafsson og Kolbeinn Hermann Pálsson, sem báðir störfuðu á stofunni sem afi þess síðarnefnda, Sigurður Ólafsson, og síðar faðir hans, Páll Sigurðsson, ráku. Þegar Þorberg og Kolbeinn hófu störf á stofunni á sjöunda áratugnum voru komnir nýir stólar af gerðinni UG en stóllinn á myndinni er af gerðinni REX.

Tilefni heimsóknar Þorbergs og Kolbeins í geymsluhúsnæði í Reykjavík að skoða téðan stól er símtal frá eiganda hans, Kristbirni Haukssyni, sem hafði samband við Morgunblaðið eftir að grein um rakarastofuna í Eimskipafélagshúsinu birtist fyrir nokkrum vikum. Kristbjörn keypti stólinn á Akureyri fyrir tveimur árum en þar á undan var hann um tíma á Ísafirði. „Ég ætlaði að hafa hann heima og hafa það huggulegt í honum en hann er alltof þungur, um 400 kg, þannig að ég kom honum vel fyrir hérna í geymslunni,“ segir Kristbjörn sem safnar gömlum hlutum af ýmsu tagi, meðal annars bílum og leikföngum.