Svarta kusa Dósakistan á Hvanneyri hefur vakið verðskuldaða athygli.
Svarta kusa Dósakistan á Hvanneyri hefur vakið verðskuldaða athygli. — Morgunblaðið/Oddný Kristín G.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Birna G. Konráðsdóttir Borgarfjörður Bifróvision er nafn á árshátíð nemenda við Háskólann á Bifröst.

Úr bæjarlífinu

Birna G. Konráðsdóttir

Borgarfjörður

Bifróvision er nafn á árshátíð nemenda við Háskólann á Bifröst. Nafnið er dregið af hinni einu sönnu Júróvisionkeppni og kemur til af því að á sínum tíma var gríðarlega mikil söngkeppni meðal nemenda skólans, ár hvert. Hver keppandi varð að útvega sér umboðsmann og finna sér dulnefni þannig að einungis keppandi og umboðsmaður vissu um væntanlega þátttöku. Æfingar stóðu oft yfir í langan tíma og ekki kom í ljós hverjir voru meðal keppenda fyrr en æfingar hófust með hljómsveit. Jafnvel þá áttu keppendur ekki að segja hver frá öðrum. Á hinu stóra kvöldi stigu síðan nemendur á svið og dómnefnd ásamt gestum í sal greiddi atkvæði um hver væri til þess bær að bera titilinn sigurvegari Bifróvision hvert ár fyrir sig. Með breyttu skipulagi á námi, þegar fjarnemar verða sífellt fleiri, hefur keppnin sjálf lagst niður en árshátíðin ber enn hið gamla nafn.

Nýstárlegt hjólastatíf prýðir nú skólagrundina við Kleppjárnsreykjaskóla í Borgarfirði. Það er Guðmundur Hallgrímsson, völundur á Hvanneyri, sem smíðaði statífið og gaf skólanum. Að sögn Guðmundar kom það til vegna þess að enginn staður var fyrir hjólin á skólalóðinni og lítið af aukafjármagni til að kaupa slíkt. Statífið er smíðað úr rafmagnskefli og undir því eru vörubretti til að fá stuðning. Rafmagnskeflið átti hann til síðan hann smíðaði „Svörtu kusu“, óvenjulega dósakistu sem er á Hvanneyri. Ungmennafélagið Íslendingur er eigandi kusu. „Ungmennafélagið vantaði dósakistu og upp úr spjalli við formann félagsins kom það til að ég smíðaði gripinn,“ segir Guðmundur í samtali. Kusan hefur vakið athygli enda nokkuð sérstök og segja má að hvergi fari betur um hana en einmitt í vöggu landbúnaðar, á Hvanneyri.

Í dreifbýlinu er leiklistargyðjan enn blótuð. Félagar í Leikdeild Umf. Skallagríms hafa skemmt Borgfirðingum og Mýramönnum í ríflega 100 ár og þetta ár var engin undantekning á því. Leikritið sem sýnt var að þessu sinni heitir 39½ vika eftir Hrefnu Friðriksdóttur. Leikstjóri var Hrund Ólafsdóttir og sýningar voru í félagsheimilinu Lyngbrekku.

Í Grunnskóla Borgarfjarðar hefur verið síðan 2013 unnið að þróunarverkefni sem heitir Leiðtoginn í mér eða „Leader in me“. Verkefnið byggist á hugmyndum Stephens Coveys um sjö venjur einstaklinga sem hafa náð langt á sínu sviði. Þessi aðferðafræði hefur verið þróuð til að veita nemendum víðtækari menntun innan skólakerfisins og hefur skilað miklum árangri víða um heim en Grunnskóli Borgarfjarðar er eini grunnskólinn á landinu sem innleitt hefur þessa aðferð. Nokkrir leikskólar beita henni hins vegar hérlendis með góðum árangri. Verkefninu er ætlað að auka sjálfsöryggi, ábyrgðartilfinningu og frumkvæði einstaklinga og búa þá undir áskoranir og tækifæri 21. aldarinnar. Ekki er markmiðið að gera leiðtoga úr öllum heldur hjálpa hverjum og einum að blómstra með eigin styrkleika að vopni.

Sönglíf er mjög blómlegt í Borgarfirði. Þar á meðal eru félagar í karlakórnum Söngbræðrum sem hafa boðið upp á skemmtilegar uppákomur undanfarin ár. Ekki síst er vinsælt það sem heimamenn kalla Sviðaveislu og hefur verið árlegur viðburður og færri komist að en vilja. Á matseðlinum hafa verið heit og köld svið og saltað hrossakjöt með rófustöppu og kartöflumús. Kórfélagar hafa sjálfir séð um skemmtiatriðin með söng sínum og oftar en ekki hefur síðan kröftugur fjöldasöngur hljómað um Borgarfjörðinn er líða tekur á kvöldið.