Jón Rúnar Gunnarsson málfræðingur.
Jón Rúnar Gunnarsson málfræðingur. — Ljósmynd/Margrét Jónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í bókinni Esterarbók – þýðing og fræðilegar forsendur er birt greinargerð Jóns Rúnars Gunnarssonar fyrir þýðingu biblíusögunnar af Ester, þeirri er varð drottning Medea og Persa, en bókin er gefin út í minningu Jóns. Árni Matthíasson arnim@mbl.is

Fyrir rúmum áratug kom út ný íslensk þýðing á Biblíunni og lögðu margir hönd á plóg. Einn af þeim var Jón Rúnar Gunnarsson málfræðingur og lektor í almennum málvísindum við Háskóla Íslands (1940-2013) sem vann að þýðingu nokkurra bóka Biblíunnar. Ein af þeim bókum var Esterarbók sem Jón þýddi 1992.

Er Jón hafði lokið þýðingu á Esterarbók, eða því sem hann kallaði þýðingartillögu, skilaði hann einnig inn greinargerð um þýðingartillögu sína þar sem finna mátti rökstuðning fyrir þeirri leið er hann fór og ítarlegar skýringar með dæmum. Til marks um hve vandvirkur Jón var má nefna að sjálf er Esterarbók um tíu síður í Biblíunni, en greinargerð Jóns ríflega hundrað síður.

Þessi greinargerð var stíluð á þýðingarnefnd Hins íslenska biblíufélags og ætluð henni, en að Jóni gengnum ákvað eiginkona hans, Margrét Jónsdóttir prófessor, að koma henni á bók sem Háskólaútgáfan gaf út.

Í spjalli við Margréti kemur fram að greinargerð Jóns hafi ekki verið til á tölvutæku formi, hún hafi aðeins verið til útprentuð og því hafi það kostað mikla vinnu að búa hana til prentunar. „Jón var mikill fullkomnunarsinni og honum fannst ekkert sem hann gerði nóg gott til að gefa það út, en ég vissi að hann hefði lagt mikla vinnu í þetta verk á sínum tíma og sent Biblíunefndinni það. Það var þó ekki til í tölvu og því þurfti að ljóslesa það allt. Það var meiriháttar mál sem hefði aldrei gengið upp nema fyrir það að Bjarki Karlsson skáld og málfræðingur vann í þessu með mér í mörg ár; ég get ekki sagt þér hve margar vinnustundir hafa farið í þetta verk.“

Margrét segir að vissulega megi alltaf deila um þýðingar, en að bókin sýni það hver hversu fjölhæfur Jón var, hve mikla þekkingu hann hafði á tungumálum og hve vandaður og nákvæmur hann var í sinni vinnu. „Af inngangi Jóns að verkinu, sem er afar merkilegur, má ráða að hann heillaðist af þessum heimi. Raunar veit ég það vel enda fylgdist ég vel með verkinu."

– Hvað þýðinguna varðar þá er hún í senn fagleg og fræðileg, fyrir mér sem leikmanni í það minnsta, en það er mikil kúnst að færa svona gamlan texta til nútímans.

„Það er ekki auðhlaupið að því að þýða Biblíutexta. Taka þarf ákvörðun um hvert málsniðið skuli vera. Markmiðið er að orðið komist til allra, textinn sé öllum skiljanlegur, en um leið skal málið vera hátíðlegt, jafnvel svolítið upphafið. Þetta getur verið snúið. En mér finnst Jóni takast þetta afar vel.“

Margrét segir að ýmsir hafi lagt henni lið við samantekt bókarinnar og útgáfuna. Vinna og alúð Bjarka Karlssonar hafi skipt sköpum en einnig nefnir hún Svein Valgeirsson Dómkirkjuprest, sem hafi lagt lið við hebreskuna í bókinni og Ragnar Helga Ólafsson sem hafi hannað kápuna af einstakri smekkvísi.