Hreinn Jónasson fæddist 13. október 1933. Hann lést 20. febrúar 2018.

Útför Hreins fór fram 26. febrúar 2018.

Faðir okkar Hreinn Jónasson er látinn. Hann var veikur síðustu ár ævi sinnar, en kvartaði þó ekki yfir örlögum sínum, heldur var ljúfur í viðmóti fram í það síðasta. Elsku móðir okkar er nú ein eftir langa samveru. Á erfiðri stundu leitar hugurinn aftur í tímann til æskuára okkar. Öll þrjú eigum við okkar sérstöku minningar um hvernig pabbi kenndi okkur alls kyns veraldlega hluti, svo sem að gera við hjólið, aka bíl skynsamlega eða laga hitt og þetta. Ekki síður munum við þann stuðning sem hann gaf ef eitthvað vafðist fyrir í náminu. Þá breytti engu hvort um var að ræða íslenska tungu eða raungreinarnar. Áhugi hans á tækninýjungum og útskýringar á hvernig hlutirnir virka gerði lífið spennandi á tímum þar sem tækniframfarir og þróun gerðu framtíðina bjarta og spennandi. Menn voru sendir til tunglsins og mannkyninu virtust engin takmörk sett. Seinna meir þegar við sjálf vorum orðin foreldrar og öxluðum þá stóru ábyrgð að koma börnum okkar upp, jókst skilningur okkar á mikilvægi þess sem pabbi gerði þrátt fyrir langa vinnudaga, nefnilega að gefa sig að börnunum, hlusta, skilja og sýna skilning á barnshuganum. Allt var þetta gert góðlega en þó leiðbeinandi. Barnabörnin hafa einnig fengið sinn hlut af gæsku afa og sakna hans sárt. Börn hafa reyndar alltaf dregist að honum, sóst eftir sínum skerf. Fyrir allt þetta erum við þakklát og kveðjum pabba með kærleik.

Við viljum að lokum koma á framfæri þökk til ykkar allra, í Maríuhúsi og í Skógarhlíð, sem önnuðust pabba síðustu ár ævinnar, og sáuð til að honum liði sem best.

Jónína, Jónas og

Anna Katrín.

Fallinn er frá kær frændi og vinur, Hreinn Jónasson. Hreinn var elstur þriggja systkina og var fæddur og uppalinn á Hranastöðum í Eyjafirði, þar sem foreldrar hans bjuggu fyrstu búskaparárin. Fyrstu minningar okkar um Hrein frænda eru frá jólaboði í Skólastíg 1 á Akureyri, en þangað fluttu foreldrar hans, þegar þau hættu búskap á Hranastöðum. Hreinn kunni að spila á harmonikku og við sem vorum 10 og 12 árum yngri hlustuðum agndofa á hvað hann var flinkur þarna í jólaboðinu. Okkur fannst hann töframaður á fleiri sviðum og verðug fyrirmynd. Þegar Hreinn kom í heimsókn í Fjólugötu 3, þar sem við áttum heima, fékk hann stundum það verkefni að gera við straubolta eða jólaseríu, því hann var þá orðinn raffræðingur eins og amma orðaði það. Alltaf var auðvelt að leita til hans því hann var sérstaklega ættrækinn, greiðvikinn og hafði góða nærveru. Svo hélt hann áfram námi og eitt sinn heyrðist nafnið hans í útvarpinu, þegar hann dúxaði í rafmagnsdeild Vélskólans. Síðan fór hann til Mannheim í Þýskalandi, þá orðinn fjölskyldumaður, og lærði þar rafmagnstæknifræði. Síðast þegar við hittum Hrein í janúar síðastliðnum í Skógarbæ, þá kvaddi hann okkur með þeim orðum að við mættum ekki láta þennan þráð slitna. Að leiðarlokum þökkum við Hreini frænda ævilanga vináttu og vottum systkinum hans, eiginkonu hans Sigríði Halblaub, börnum og barnabörnum, okkar dýpstu samúð.

Magni og Þórir Hjálmarssynir.