Gunnar Helgi Guðmundsson fæddist 20. október 1943. Hann lést 16. febrúar 2018.

Útför Gunnars Helga fór fram 2. mars 2018.

Það var hik á mér, mig langaði að fara og heimsækja hann Helga frænda. En það var hængur á, hann var kominn í umönnun í Sunnuhlíð og var með Alzheimer. Myndi hann hafa eitthvert gagn af því eða gaman eða myndi hann yfirleitt þekkja mig? En ég dreif mig og sá ekki eftir því. Þarna sat hann og var niðursokkinn í að tala við Svöfu föðursystur sína. Ég fór hinumegin við borðið og beið eftir að hann liti upp en það varð bið á því svo ég kallaði hressilega „Gunnar Helgi Guðmundsson kotari“ það kom stórt bros og sæll og blessaður til baka. Við áttum góða stund saman og mikið rætt um gamla daga og afa og ömmu í Kirkjulækjarkoti. Þegar ég kvaddi sagði hann „við erum sko ekta kotarar og takk fyrir að heimsækja mig“. Ég viðurkenni að ég fékk tár í augun.

Og það var alveg rétt við erum vorum sko ekta kotarar. Hugurinn leitar aftur í tímann til áranna þegar elsti krakkahópurinn í kotinu árg. 1940-1950 var við leik og störf, það var enginn dagur nógu langur, það var svo gaman að vera til og margt að gera. Útilegumannaleikur, fallin spýta, hlaupa í skarðið, feluleikur í hlöðunni eða að vera með afa á traktornum eða fá flatköku með kæfu hjá ömmu, það var sko ekki fúlsað við því. Það er söknuður í hjarta mínu að eiga ekki eftir að hitta þennan góða vin og frænda. Helgi var fastur fyrir ef honum fannst hallað á rétt sinn eða annarra og hafði ákveðnar skoðanir á flestum málum eins og sást þegar leiðir okkar lágu saman á þingum Alþýðusambandsins þar var hann kominn sem málsvari þeirra sem minna mega sín. Við fengum gott nesti báðir í sunnudagaskólanum hjá afa.

Leiddu mína litlu hendi,

ljúfi Jesús, þér ég sendi

bæn frá mínu brjósti, sjáðu,

blíði Jesús, að mér gáðu.

Hafðu gát á hjarta mínu

halt mér fast í spori þínu,

að ég fari aldrei frá þér,

alltaf, Jesús, vertu hjá mér.

Um þig alltaf sál mín syngi

sérhvern dag, þó eitthvað þyngi.

Gef ég verði góða barnið,

geisli þinn á kalda hjarnið

(Ásmundur Eiríksson)

Bið góðan Guð að umvefja með kærleika sínum eftirlifandi eiginkonu Jónu Baldvinsdóttur, börn þeirra og fjölskyldur þeirra og hugga í söknuði eftir góðum dreng.

Már Guðnason, Kirkjulækjarkoti.