Steinar Erlingsson
Steinar Erlingsson
„Vegir koma illa undan vetri. Víða er slitlagskápan að gefa sig og undirlag veganna er jafnvel ónýtt,“ segir Steinar Erlingsson mjólkurbílstjóri. Hann sækir mjólk á sveitabæi í uppsveitum Árnessýslu annan daginn en hinn í Borgarfjarðardali.

„Vegir koma illa undan vetri. Víða er slitlagskápan að gefa sig og undirlag veganna er jafnvel ónýtt,“ segir Steinar Erlingsson mjólkurbílstjóri. Hann sækir mjólk á sveitabæi í uppsveitum Árnessýslu annan daginn en hinn í Borgarfjarðardali. Ekur þá um tengivegi sveitanna sem eru yfirleitt mjóir og barn síns tíma, eins og sagt er.

„Það getur verið vandasamt að mæta bílum á sveitavegunum, því kantarnir bera ekki álag þungra bíla. Þessa vegi verður alla að styrkja, bæði til að þjóna íbúum og ferðafólki. Á Hringveginum er leiðin frá Borgarnesi og upp fyrir Bifröst illa farin. Úr mínu heimahéraði á Suðurlandi get ég svo nefnt Þjórsárdalsveginn, frá Sandlækjarholti að Árnesi. Þar eru vegbrúnir signar og hættulegir á mjóum vegi sem mikil umferð er um, en þetta er vegurinn sem liggur að sex virkjunum inn á fjöllum,“ segir Steinar sem víkur að þeirri hættu sem ferðamenn á bílaleigubílum skapi. „Já, ferðamennirnir eru í allt öðrum takti en Íslendingar. Keyra oft hægt og stoppa jafnvel á miðjum vegi til að klappa hestum eða taka myndir. Á því verður að taka.“