Hilary Finch
Hilary Finch
Eftir Hilary Finch: "Umsögn Hilary Finch, fyrrverandi aðaltónlistargagnrýnanda The Times, um heimsfrumflutning á nýjum klarínettukonsert Áskels Mássonar í Eldborg."

Nýr klarínettukonsert Áskels Mássonar, 16 mínútna verk í einum samfelldum kafla, átti sér langt sköpunarferli en rann á endanum greiðlega í flutningnum frá upptökum að ósi eins og sæmir titlinum. Silfurfljót, tileinkað og samið fyrir Einar Jóhannesson, einleikara í fremstu röð, átti sér upphaf sem lítil hugmynd sem rann af stað fyrir tveimur áratugum. Árið 2014 opnuðust flóðgáttir og verkið streymdi fram og kláraðist á sex vikum. Og heimsfrumflutningurinn fór fram í Hörpu hinn 15. febrúar árið 2018 þar sem Einar var einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Osmos Vänskäs. Salurinn var þéttsetinn og móttökurnar innilegar og hlýjar og lófatakið langt.

Titill verksins, sem er klarínettukonsert nr. 2 eftir Áskel (sá fyrri, sem einnig var saminn fyrir Einar árið 1979, vakti heimsathygli á tónskáldinu) gæti verið misvísandi. Hugsið ekki um bókstaflega lýsingu á fljóti segir Áskell, heldur um myndhvörf í líki flæðandi tóna, andardráttar, enduróms. Og þannig byrjar konsertinn: klarínettan sendir frá sér inn- og útöndunarhljóð, ósýnilega tónlist, sneriltromma og symbalar byrja að krauma og láta í sér heyra og stefja- og hendingabrot vekja hlustir okkar. Lágstemmdir tónar frá víólum, fiðlum og trompetum hvetja klarínettuna til að finna sér laglínu. Og líkt og oft hjá Schumann og Shostakovich er mannsnafn falið í stuttri hendingu sem stendur nærri hjarta verksins. Aðeins tónskáldið og einleikarinn vita hvert nafnið er. En ég skal deila með ykkur leyndarmálinu: tónarnir í lagstúfnum eru dregnir út úr nafni einleikarans: E, A, H, A, ES.

Laglínunni vex smám saman ásmegin með sindrandi tónum, trillum, glissandorennsli upp tónaraðir, sem gefa einleikshljóðfærinu kraft og sjálfstraust til að taka óhikað að sér sögumannshlutverkið. Undir öllu þessu magna harpan, marimban og pákurnar – hljóðfæri sem veita Áskeli oft innblástur – upp síendurtekinn seið. Vaxandi streymi tónlistarinnar, innra háflæði hennar, leiðir til óvenjulegrar og ögrandi tvíleiks-kadensu, þar sem ljóðrænir hæfileikar Einars mættu jafningja í fiðlueinleik konsertmeistarans Nicolas Lollis.

Meiri fegurð, birta og ljóðræna – það sem Áskell hefur á öllum ferli sínum fengið innblástur af í leik Einars – leiðir til annarrar kadensu, nú bara fyrir klarínettuna. Þetta er nokkurs konar ítrekun, en útvíkkuð og þanin upp í hæstu tóna, meðan pákurnar leika hljóðan en knýjandi undirstraum, áður en við tekur spunakenndur kafli, Lento dolce. Á einum stað þar sem klarínettan hendist í einum takti frá ofurveiku pianissimo upp í sterkasta fortissimo lendir hún í straumkasti og hringiðu þar til hæg trillandi tónabrú leiðir verkið aftur til upphafsins. Hnígandi tónar og hvíslandi andardráttur frumsköpunarinnar loka lífsflæði þessa verks.

Djúpur skilningur og áhugi einleikarans, Einars Jóhannessonar, og augljós gleði stjórnandans Osmos Vänskäs við að vinna aftur með kærum vinum sínum í Sinfóníuhljómsveit Íslands gerðu þessa tónleika, sem enduðu með afar spennandi og kröftugum flutningi á sjöttu sinfóníu Shostakovich, sérlega minnisverða. Svo mjög að þegar hljómsveitin stóð fyrir kammertónleikum í Norðurljósum daginn eftir stóðu þeir Osmo og Einar hlið við hlið og léku ómótstæðilegt Duettino eftir Áskel fyrir tvær klarínettur – skondið og skemmtilegt aukalag eftir tvo magnaða kvöldviðburði í Hörpu.

Hilary Finch er fyrrverandi aðaltónlistargagnrýnandi The Times. hilfin@clara.co.uk