Borgartún Sakavottorða allra starfsmanna velferðarsviðs borgarinnar verður aflað verði tillögurnar í aðgerðaáætluninni samþykktar.
Borgartún Sakavottorða allra starfsmanna velferðarsviðs borgarinnar verður aflað verði tillögurnar í aðgerðaáætluninni samþykktar. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Erna Ýr Öldudóttir ernayr@mbl.is Skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar vegna úttektar á verkferlum og reglum er varða tilkynningar og ábendingar sem berast til Barnaverndar Reykjavíkur, kom út í fyrradag.

Fréttaskýring

Erna Ýr Öldudóttir

ernayr@mbl.is

Skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar vegna úttektar á verkferlum og reglum er varða tilkynningar og ábendingar sem berast til Barnaverndar Reykjavíkur, kom út í fyrradag.

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sem hafði óskað eftir úttektinni, kynnti sama dag í borgarráði aðgerðaáætlun með tillögum um barnaverndarúrræði o.fl.

Heildarkostnaður vegna tillagnanna í aðgerðaáætlun velferðarsviðs er áætlaður 51,5 milljónir króna á ársgrundvelli.

„Að hluta til eru þarna tillögur byggðar á skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar en að hluta til eru þetta áherslumál okkar,“ að sögn Regínu. „Við viljum útvíkka hópinn sem þarf að skila inn sakavottorði. Önnur úttekt á barnaverndarstarfi hafði áður verið ákveðin haustið 2017 og er að koma í framkvæmd núna.“

Sakavottorðs allra aflað

Tillögurnar fela í sér að aflað verði vottorðs úr sakaskrá fyrir öll störf á velferðarsviði við ráðningar og reglulega á ráðningartímanum fyrir þá sem vinna með börnum og fötluðum. Þegar sé hafinn undirbúningur á uppsetningu rafræns ábendingarhnapps á vefsíðu Reykjavíkurborgar. „Við erum með þessu að auka aðgengi að barnaverndaryfirvöldum og viljum leggja áherslu á vandaða greiningu því að við vitum að þetta mun fjölga tilkynningunum, en viljum stíga varlega til jarðar.“

Næturvaktir í sólarhringsúrræðum Barnaverndar Reykjavíkur verði mannaðar tveimur starfsmönnum í stað eins. Í fræðsluáætlun velferðarsviðs verði reglubundin fræðsla til starfsmanna um kynferðisbrot gagnvart börnum ásamt rannsóknum og viðbrögðum.

Sérstakur viðtalsvísir

Verkferlum og kröfulýsingum verði breytt þannig að skimun fyrir ofbeldi með sérstökum viðtalsvísi verði hluti af verklagi í vinnu með börnum og unglingum, en Regína segir þessa skjólstæðinga vera nú þegar í reglulegum viðtölum og að skimuninni yrði bætt þar inn.

Ráðgjöf og stuðningur við stjórnendur verði aukinn með eflingu mannauðsþjónustu velferðarsviðs og tveimur stöðugildum verði bætt við mannauðsþjónustuna til að ná utan um aukið álag vegna breytinga á verkferlum og öflunar sakavottorða. Huga þurfi að erlendum starfsmönnum í ríkari mæli en hefur verið gert en erlendar konur hafa sérstaklega verið í áhættuhópi varðandi ofbeldi og áreitni.

Búið sé að undirrita samning við Capacent og RR ráðgjöf um úttekt á barnaverndarstarfi á vegum Reykjavíkurborgar til að fá faglegt og hlutlaust mat á skipulagi barnaverndarstarfs í Reykjavík, barnaverndarúrræða, starfsumhverfi og verkaskiptingu.

Kröfulýsingar fyrir sólarhringsúrræði barnaverndar verði settar í forgang, sem séu rammi um starfsemina og stuðli að samræmingu þjónustu, setji gæðaviðmið, skilgreini umboð, veiti yfirsýn, tryggi öryggi og auki skilvirkni. Í áhættugreiningu varðandi sólarhringsstofnanir fyrir börn og unglinga verði vaktir, starfsmannahald, húsnæði, öryggismenning og boðleiðir metnar. Innri endurskoðun veiti ráðgjöf um framkvæmd hennar. Verkefnastjóri verði svo ráðinn tímabundið til þess að innleiða aðgerðaáætlunina.