Una Sigríður Gunnarsdóttir fæddist 5. apríl 1924. Hún lést 15. febrúar 2018.

Útför Unu fór fram 24. febrúar 2018.

Elsku Sigga frænka, það er svo skrýtið að hugsa til þess að þú sért farin frá okkur. Ég á margar minningar um okkur saman sem ég geymi eins og gull í hjarta mínu. Alltaf varst þú tilbúin að hjálpa öllum og vildir allt fyrir alla gera. Þegar ég var barn bjuggu amma mín og vinkona þín alltaf til grasaseyði handa mér ef að ég varð lasin, þetta seyði var eins og töframeðal sem læknaði allt og var auk þess rosalega gott á bragðið. Stuttu eftir að amma deyr fæ ég hálsbólgu og hugsaði þá hvað væri gott að fá þetta grasaseyði núna. Fljótlega eftir það kemur mamma heim með flösku af grasaseyði með kveðju frá þér. Ég gleymi aldrei hvað ég var ánægð með þessa sendingu. Þessi saga lýsir þér svo vel, elsku Sigga mín, varst ekki lengi að redda því sem reddað varð. Í eitt skiptið þegar ég var að spjalla við þig spurði ég um uppskriftina, og þú varst ekki lengi að þylja upp fyrir mig og hvattir mig til þess að prófa og láta þig vita hvernig heppnaðist. Því miður náði ég ekki að prófa að gera þetta sjálf á meðan að þú lifðir, en ég veit að þú munt hjálpa mér að gera þetta þegar ég þarf á því að halda næst.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér, og ég er sérstaklega þakklát fyrir það hálfa ár sem ég vann á Uppsölum þar sem þú bjóst. Þessi tími gaf mér tækifæri til þess að efla sambandið okkar, ef það var dauður tími í vinnunni settist ég inn hjá þér og við spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Eftir að ég hætti að vinna þar kom ég reglulega að heimsækja þig og gat setið við rúmið þitt í marga klukkutíma að hlusta á þig segja mér sögur frá því í gamla daga, spyrja frétta um fólkið hérna heima eða rifja upp skondnar sögur af þér og Bóasi afa mínum. Það klikkaði ekki að þegar ég kom í heimsókn þá var fyrsta setningin þín: Nei, sæl elskan, ertu að koma að vinna hérna aftur? Við söknum þín nefnilega.“

Elsku Sigga mín, þó það sé skrýtið að hugsa til þess að ég sjái þig ekki aftur, veit ég að þú varst fegin að fá hvíldina.

Ég veit að þú hefur fengið góðar móttökur þarna uppi og skemmtir þér vel með þeim. Ég veit að þú situr og horfir til okkar allra sem eftir erum, passar upp á okkur og leiðbeinir okkur þegar þörf er á.

Fjölskyldu þinni sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur og bið Guð að styrkja þau öll á þessum erfiðu tímum.

Mig langar að kveðja þig í hinsta sinn með þessu litla ljóði sem ég samdi, elsku frænka.

Það er sagt að tíminn lækni öll sár

en það virðist ekki ætla að gerast.

Ég sit hér heima og felli þúsund tár

á meðan minningar um hugann berast.

Þann örlagadag ég ætíð mun muna

er ég frétti hvað varð um þig.

Að frænka mín kæra, farin burt væri,

ég fengi ei að sjá þig á ný.

Ég sit ein hér og hugsa um þig

og minningar okkar saman.

Ég veit að þú munt ávallt passa upp á mig,

við höfðum alltaf svo gaman.

Elsku frænka, nú ert þú farin mér frá

yfir í veraldir nýjar.

Að sjá þig aftur er mín eina þrá

en ég á minningar hlýjar.

Nú ég þig kveð, mitt ljúfa ljós,

og vona að þér líði vel.

Á leiðið þitt legg ég hvíta rós

með þökk fyrir vinarþel.

Þín

Stefanía Hrund Guðmundsdóttir.