Hrein eign Gildis lífeyrissjóðs um nýliðin áramót nam 517,3 milljörðum króna og hækkaði um 47,7 milljarða króna. Eignir sjóðsins hafa aldrei verið meiri.

Hrein eign Gildis lífeyrissjóðs um nýliðin áramót nam 517,3 milljörðum króna og hækkaði um 47,7 milljarða króna. Eignir sjóðsins hafa aldrei verið meiri. Raunávöxtun síðasta árs nam 5,8% og fól í sér töluverð umskipti frá fyrra ári þegar hún reyndist neikvæð um 0,9%.

Stærstur hluti eigna samtryggingardeildar sjóðsins var bundinn í erlendum verðbréfum eða 29,2%. Þá eru 27,4% bundin í ríkistryggðum skuldabréfum, 19,3% í innlendum hlutabréfum, 6% í skuldabréfum fjármálafyrirtækja. Þá voru 5,9% bundin í skuldabréfum annarra fyrirtækja og 5,5% í sjóðfélagalánum.

Góð afkoma sjóðsins í fyrra skýrist helst af góðri ávöxtun erlendra hlutabréfa sem hækkuðu um 13,3% í íslenskum krónum.

Greidd iðgjöld á árinu 2018 voru ríflega 23 milljarðar króna samanborið við 19,4 milljarða árið 2016. Þá greiddi sjóðurinn út 15,4 milljarða í lífeyri samanborið við 14,3 milljarða ári fyrr.

Fjöldi virkra sjóðfélaga var 32.966 um nýliðin áramót og hafði fjölgað úr 30.761 frá fyrra ári. Þá hafði fjöldi lífeyrisþega einnig aukist nokkuð og farið úr 20.331 í 22.255. Rekstrarkostnaður sjóðsins, reiknaður sem hlutfall af eignum nam 0,16% og breyttist ekki milli ára. Sé hann skoðaður sem hlutfall af greiddum iðgjöldum lækkaði hann hins vegar úr 3,5% í 3,2%. Reiknaður rekstrarkostnaður á hvern sjóðfélaga nam 3.364 krónum í fyrra.

Tryggingafræðileg staða sjóðsins er nú neikvæð um 1,6% en var neikvæð um 2,7% í árslok 2016. ses@mbl.is