Ræða formanns Bjarni Benediktsson flutti ræðu við setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Á annað þúsund flokksfélaga hlýddi á hann í Laugardalshöll.
Ræða formanns Bjarni Benediktsson flutti ræðu við setningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Á annað þúsund flokksfélaga hlýddi á hann í Laugardalshöll. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnar Þór Ingólfsson athi@mbl.is Fertugasti og þriðji landsfundur Sjálfstæðisflokksins hófst í gær í Laugardalshöll með fundum málefnanefnda flokksins.

Arnar Þór Ingólfsson

athi@mbl.is

Fertugasti og þriðji landsfundur Sjálfstæðisflokksins hófst í gær í Laugardalshöll með fundum málefnanefnda flokksins. Síðdegis setti svo formaðurinn Bjarni Benediktsson landsfundinn formlega og hélt um fjörutíu mínútna langa ræðu fyrir landsfundargesti og fulltrúa.

Bjarni skaut nokkuð fast á fyrrverandi samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, Viðreisn og Bjarta framtíð, sem hann sagði raunar að ætti nú enga framtíð. Hann sagði að honum hefði þótt ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og þessara „smáflokka“ töluvert höktandi.

„Eftir að því lauk fannst mér mjög undarlegt að sjá samstarfsfólk okkar úr þeirri stjórn lýsa því yfir að Sjálfstæðisflokkurinn hefði af þeirra hálfu verið á einhvers konar skilorði í þessu stjórnarsamstarfi,“ sagði Bjarni og bætti því við að síðar hefði komið á daginn að í raun hefði það verið Björt framtíð sem var á skilorði hjá kjósendum.

Hann vék einnig að Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, og gagnrýndi stuðning hennar og flokksins við vantrauststillögu gagnvart Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra á dögunum.

„Einhvern tímann hefði formaður þess flokks sagt að hér væri enn einu sinni vegið með ósanngjörnum hætti að kvenkyns ráðherra í ríkisstjórn, kvenkyns stjórnmálamanni. En það virðist bara ekki eiga við um Sigríði Andersen, sem hefur staðið sig vel og átti mikið inni fyrir stuðningi meirihluta Alþingis og ykkar – og hún stendur sterkari á eftir,“ sagði Bjarni, en minntist ekki á það að tveir þingmenn Vinstri grænna, samstarfsflokks Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn, studdu vantrauststillöguna gegn dómsmálaráðherra.

Söguleg ríkisstjórnarmyndun

Hann sagði að myndun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr við völd hefði verið á „margan hátt söguleg“ og að ekki hefði verið sjálfgefið að ná saman við VG, sem væru á hinum enda pólitíska ássins. Hann hefði hins vegar talið það nauðsynlegt, til þess að nýta þau einstöku tækifæri til uppbyggingar sem íslenskt samfélag. Flokkarnir þrír hefðu getað náð saman um það.

„Aðstæður nú eru einstakar, við erum í miðju góðæri og erfiðu árin eru að baki,“ sagði Bjarni. Fram kom í máli hans að tekjuskattslækkanir og lækkun tryggingagjaldsins væru á áætlun ríkisstjórnarinnar og var þessum áformum um skattalækkanir fagnað með öflugu lófataki.

Hann gerði menntamálin einnig að umtalsefni og sagði menntakerfið „besta tækið sem við eigum til þess að tryggja að börnin okkar búi við jöfn tækifæri þegar þau halda af stað út í lífið“. Til framtíðar litið væri ljóst að mörg þeirra starfa sem við þekktum í dag yrðu hreinlega ekki til þegar þau börn sem eru að hefja skólagöngu í dag skiluðu sér út á vinnumarkaðinn. Því lægi fyrir að menntakerfið þyrfti að breytast í takt við þarfir nútímans.

Harður áróður gegn krónunni

Þá sagði Bjarni ýmsa pólitíska andstæðinga „ganga mjög langt“ í áróðri gegn íslensku krónunni. Vissulega væri mikil áskorun að halda úti eigin gjaldmiðli, en að í allri umræðu um gjaldmiðilinn væri lítið rætt um kosti þess að búa við eigin mynt, en það gerði íslensku þjóðinni kleift að mæta búhnykkjum, jafnt sem áföllum.

„Það má til dæmis öllum vera ljóst að styrking íslensku krónunnar í kjölfar gríðarlegrar fjölgunar ferðamanna hingað til lands hefur gert það að verkum að tugprósenta hækkanir kaups á undanförnum árum leiddu ekki til verðbólgu, eins og svo oft hefur gerst áður.

Hann sagði það mega heita „heimsmet í bjartsýni, óskhyggju og barnaskap“ að halda að evrópski Seðlabankinn myndi horfa til stöðu efnahagsmála á Íslandi við vaxtaákvarðanir sínar eða aðrar ákvarðanir sem máli skipta, ef Íslendingar væru aðilar að evrusamstarfinu.

„Það getur orðið mjög kostnaðarsamt, það er beinlínis hægt að segja að það sé efnahagslega hættulegt fyrir okkur Íslendinga ef gengi og vextir sem við búum við endurspegla einhvern allt annan veruleika heldur en okkar,“ sagði Bjarni og bætti því við að það væri skýr stefna Sjálfstæðisflokksins að Ísland ætti að halda forræði yfir eigin peningastefnu og hafna upptöku annars gjaldmiðils.

„Við viljum halda forræði þjóðarinnar fyrir stjórn peningamála og við viljum að áfram verði byggt á íslensku krónunni,“ sagði Bjarni.