Ellikerling nær manni að lokum. Þá er bara að setja upp sólgleraugu og húfu til að virðast yngri þar sem hrukkumeðöl duga ekki.
Ellikerling nær manni að lokum. Þá er bara að setja upp sólgleraugu og húfu til að virðast yngri þar sem hrukkumeðöl duga ekki.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta snýst auðvitað allt um að græða peninga og ef hægt er að sykurhúða fiskiroð og selja það dýrum dómum sem hrukkumeðal er augljóst að það er gert.

Ég finn að ég hef brennandi áhuga á hrukkum þessa dagana, nánast þannig að það er vandræðalegt. Ég nefnilega hef nýlega uppgötvað að hrukkurnar á efri vörinni hafa farið snarlega dýpkandi eftir að ég varð fimmtug. Og þó að þetta sé kannski ekki mikilvægt atriði í stóra samhenginu, þá er ég dálítið upptekin af þessu. (Tek það fram að ég hef líka stórar áhyggjur af flóttamönnum, skotárásum í Bandaríkjunum og almennri misskiptingu auðs í heiminum.)

En það má líka ræða litlu hlutina af og til!

Ég er algjörlega búin að gúggla hrukkur fram og til baka og því miður finnast engar töfralausnir. Ég frétti af vinkonum sem taka kollagen-töflur í gríð og erg því þær eiga að vera undralyf gegn öldrun húðarinnar. Costco selur þetta í stórum dunkum og vinkonurnar fylla körfurnar, enda kostar dunkurinn bara tvö þúsund kall þar en sex þúsund í heilsubúðum.

En skyldi þetta virka? hugsaði ég, meira en lítið skeptísk. Ég ákvað að gúggla þetta vel og lengi og fann ég ekki eina einustu grein sem vísindalega sannaði ágæti þessara kollagen-taflna. Jú, það finnast vissulega reynslusögur, en ekkert haldbært sem sannar þetta. Ég ákvað að hringja í húðlækninn minn. Hún fussaði og sveiaði. Mikið rétt, þetta er bull og vitleysa og virkar alls ekki. Málið er að þetta brotnar niður í meltingarveginum og hoppar alls ekkert upp í andlit og fyllir upp í hrukkur, eins og ég hafði svo sannarlega vonað. Þetta endar bara úti í sjó eins og annað sem fer í gegn og meltingarvegurinn gerir ekkert til þess að soga þetta efni inn í húðina. Reyndar er það svo með mörg fæðubótarefni, það er alveg óljóst hvaða gagn allt þetta duft gerir. Í alvöru, er betra að borða brokkólí í duftformi? Er það ekki bara betra gufusoðið? Þetta snýst auðvitað allt um að græða peninga og ef hægt er að sykurhúða fiskiroð og selja það dýrum dómum sem hrukku-meðal er augljóst að það er gert. Fæðubótarefnabransinn malar gull og smáa letrið er svo smátt að maður veit hvort sem er ekkert hvað maður er að láta ofan í sig. (Sérstaklega þegar fjarsýnin er sífellt að versna, ég get varla lesið á sjampóbrúsann í sturtunni og ruglast stundum á hárnæringu og sjampói. Getur einhver plís stækkað stafina á brúsunum? Það er voða erfitt að setja upp gleraugu í sturtunni.)

Sannleikurinn er sá að líklega breyta öll heimsins krem og allar fínu kollagen-töflurnar engu.

Ég þarf líklega að sætta mig við að fátt virðist lækna hrukkur þótt mögulega sé hægt að fylla upp í þær með fylliefni og lama þær með bótoxi.

Að sögn húðlæknisins á að forðast sólina. Ekki er verra að stunda almennt hollt líferni, sleppa reykingum og drykkja gerir voða lítið fyrir útlitið. Svefnleysi er líka slæmt, það vita allir.

Svo snýst þetta líka um genin; sumir eru bara hrukkóttari en aðrir. Annars nær ellikerling alltaf í mann að lokum, bara spurning um að reyna að fresta henni aðeins.