Blóðþrýstingur er ávallt gefinn upp sem tvær tölur, efri mörk og neðri mörk, og einingin sem enn er notuð er mm Hg (millimetrar kvikasilfurs).
Blóðþrýstingur er ávallt gefinn upp sem tvær tölur, efri mörk og neðri mörk, og einingin sem enn er notuð er mm Hg (millimetrar kvikasilfurs). — GettyImages/iStockphoto
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margir þjást af of háum blóðþrýstingi en það er ýmislegt hægt að gera til að fylgjast með ástandinu og líka vonandi bæta það. Inga Rún Sigurðardóttir ingarun@mbl.is

Hár blóðþrýstingur eða háþrýstingur er eitthvað sem margir eru að kljást við en það er margt hægt að gera til þess að bregðast við ástandinu.

Notaðu tæknina

Þó nokkur öpp eru til sem geta haldið utan um upplýsingar tengdar heilsu hjarta- og æðakerfis. Til dæmis má nefna Blood Pressure Companion og Heart Habit. Það allra nýjasta er síðan sérstakt hulstur sem mælir blóðþrýsting með því aðeins að nota einn fingur en greint er frá þessu í nýjasta blaði Science Translational Medicine.

Flestir nota samt hefðbundna blóðþrýstingsmæla heima sem fara utan um handlegg. Í þeim tilfellum er nauðsynlegt að hvíla sig í fimm mínútur fyrir mælingu og gæta þess að 30 mínútur séu liðnar frá síðustu máltíð, æfingu eða baði en nauðsynlegt er að fylgja öllum leiðbeiningum nákvæmlega. Síðan er um að gera að skrá niðurstöðunar, t.d. í ofangreind öpp og fara með þær í næstu læknisheimsókn.

Farðu að prjóna

Bresku samtökin Knit for Peace gerðu rannsókn á áhrifum þess að prjóna á heilsuna og segja að það myndi spara breska heilbrigðiskerfinu mikið fé ef fólk færi almennt að prjóna. Þau segja að það að prjóna lækki blóðþrýsting, dragi úr þunglyndi og seinki elliglöpum. Þau segja prjónamennskuna jafnslakandi og jóga. Prjón geti róað hjartsláttinn um 11 slög á mínútu að meðaltali og skapi almennt róandi ástand sem dragi úr stresshormónum og lækki þar með blóðþrýsting.

Stöðugt stressástand er stór þáttur í of háum blóðþrýstingi. Þess vegna er mikilvægt að læra að takast á við stressið, átta sig á því hvað veldur því og hvernig er hægt að minnka það eða útrýma því. Þeir sem vilja ekki prjóna geta til dæmis stundað jóga, gert öndunar- eða núvitundaræfingar til að draga úr stressinu.

Taktu lyf

Þeir sem eru komnir með háþrýsting ættu að sjálfsögðu að taka þau lyf reglulega sem læknir þeirra ávísar þeim. Það er samt mikilvægt að ræða við lækninn ef lyfin valda aukaverkunum því hann gæti þá viljað breyta skammtinum eða skipta um lyf. Á Heilsuvera.is er réttilega minnt á að regluleg inntaka á blóðþrýstingslækkandi lyfjum geti komið í veg fyrir að þú fáir hjartaáfall eða heilablóðfall og þar með bjargað lífi.

Hreyfðu þig

Regluleg hreyfing, a.m.k. 30 mínútur flesta daga vikunnar, getur lækkað blóðþrýstinginn um 4-9 mm Hg, samkvæmt mayoclinic.org. Þar segir að það sé mikilvægt að hreyfingin sé regluleg því um leið og maður hættir að æfa getur blóðþrýstingurinn hækkað á ný. Ef einhver er með hækkaðan blóðþrýsting en ekki háþrýsting er mjög mikilvægt að hreyfa sig til að forðast að ástandið versni. Gott er að ganga, skokka, hjóla, synda eða dansa. Styrktarþjálfun getur líka hjálpað til.

Æfingarnar geta líka verið gagnlegar til að léttast en það er gott að gera ef viðkomandi er í yfirvigt og með háþrýsting.

Borðaðu hollan mat

Mataræði sem er ríkt af heilkornum, grænmeti og fituminni mjólkurvörum getur lækkað blóðþrýstinginn um allt að 14 mm Hg en þetta mataræði er kennt við DASH.

Grænt laufgrænmeti á borð við klettasalat, spínat og grænkál, ber og rauðrófur eru góður kostur. Bananar, haframjöl, lax, hvítlaukur, ólífuolía, fræ og jafnvel dökkt súkkulaði eftir matinn er á meðal þess sem rúmast innan mataræðisins.

Minnkaðu saltið

Það að draga jafnvel lítillega úr saltneyslu getur minnkað blóðþrýsting um 2-8 mm Hg en Íslendingar neyta meira af salti en mælt er með. Samkvæmt ráðleggingum um mataræði er mælt með að fullorðnir neyti ekki meira en sem nemur 6 grömmum af salti á dag.

Stór liður í því er að borða ekki tilbúinn mat. Hversu mikið salt við notum er vani og það tekur stuttan tíma að venja sig á að borða minna salt. Kryddjurtir af ýmsu tagi koma þarna sterkar inn sem valkostur við saltið til að gefa gott bragð.