[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is „Það mætti gróflega ætla að algengt geti verið að það taki 10-40 vinnustundir að undirbúa svar við fyrirspurn og í augnablikinu er staðan þannig að verið er að vinna svör við 26 fyrirspurnum.

Fréttaskýring

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

„Það mætti gróflega ætla að algengt geti verið að það taki 10-40 vinnustundir að undirbúa svar við fyrirspurn og í augnablikinu er staðan þannig að verið er að vinna svör við 26 fyrirspurnum.“

Þetta segir Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, aðspurður um þá vinnu sem fyrirspurnir alþingismanna til ráðherra útheimta í ráðuneytinu.

Fyrirspurnir alþingismanna til ráðherra og forseta Alþingis komust í kastljósið í vikunni þegar Morgunblaðið upplýsti að einn þingmaður, Björn Leví Gunnarsson, hefði lagt fram 72 fyrirspurnir á yfirstandandi þingi. Alls hafa verið lagðar fram 283 fyrirspurnir á þessu þingi og er þeim flestum ósvarað. Á þremur síðustu þingum hafa verið lagðar fram 749 fyrirspurnir. Ljóst er af svari Guðmundar að gífurleg vinna fer fram í ráðuneytunum við að svara öllum þessum fyrirspurnum. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í fyrradag eru engin takmörk fyrir því hve margar fyrirspurnir einstaka þingmenn geta lagt fram á Alþingi.

Örðugt að virða tímafresti

Umfang þeirrar vinnu sem fram fer í fjármálaráðuneytinu til að svara þessum fyrispurnum ræðst bæði af fjölda þeirra og eðli, að sögn Guðmundar. Fjöldi fyrirspurna sem þingmenn hafa beint til fjármálaráðuneytisins hefur verið breytilegur undanfarin ár og farið allt upp í 68 skriflegar og sjö munnlegar fyrirspurnir á einu löggjafarþingi, eða 75 fyrirspurnir alls. Það sé sömuleiðis mjög breytilegt hversu mikill tími fer í að vinna svörin. Í einhverjum tilvikum hafi farið fleiri tugir eða jafnvel hundruð vinnustunda í að undirbúa einstök svör.

Guðmundur segir vísbendingar um að fyrirspurnum sem beint er til ráðuneytisins fari fjölgandi og ennfremur að það útheimti meiri vinnu, gagnaöflun og í einhverjum tilvikum rannsóknir, áður en þeim er svarað.

„Fyrir stjórnsýslu, sem oft er undir öðru álagi, getur það reynst örðugt að virða tímafresti til að veita svör við fyrirspurnum, en það hefur verið lögð rík áhersla á að vanda til undirbúnings svara og gera það innan tímamarka. Í mörgum tilvikum hefur hins vegar þurft að biðja Alþingi um frest því það er ógerningur að svara innan tilskilins tíma,“ segir Guðmundur.

„Við höfum ekki skráð þann vinnutíma hvorki hjá ráðneytinu né stofnunum þess. Það hefur þó af og til verið rætt hvort rétt sé að halda skrá yfir þessa vinnu,“ segir Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, aðspurður.

Kristján kveðst ekki treysta sér til að fullyrða neitt um það hvort vinna við að svara fyrirspurnum hafi aukist á undanförnum árum. „Það er einfaldlega mjög misjafnt milli ára og tímabila hversu margar fyrirspurnir berast og hve umfangsmikla vinnu þarf til að svara þeim,“ segir Kristján.

Veruleg vinna fyrir Alþingi

Með breytingum á þingsköpum í mars 2007 var sett inn ákvæði um að beina mætti fyrirspurnum til forseta Alþingis á þingskjali og óska skriflegs svars um stjórnsýslu á vegum þingsins. Fyrsta fyrirspurnin var lögð fram í desember 2009 og síðan þá hefur alls 42 fyrirspurnum verið beint til forseta Alþingis, samkvæmt upplýsingum Þorsteins Magnússonar, aðstoðarskrifstofustjóra Alþingis. Fyrirspurnir til forseta Alþingis er varða stjórnsýslu þingsins eru að jafnaði 4-5 á hverju þingi.

„Við höfum ekki lagt mat á hversu mikil vinna felst í því að taka saman upplýsingar sem liggja til grundvallar svari forseta en það er þó óhætt að segja að sumar fyrirspurnir hafa kallað á verulega vinnu fleiri en eins starfsmanns,“ segir Þorsteinn.