[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hönnunarsafn Íslands blæs til heljarinnar skóveislu á morgun, sunnudag. Í tilefni af tíu ára afmæli Kron by Kronkron verða til sýnis 800 skópör úr smiðju þeirra Hugrúnar Daggar Árnadóttur og Magna Þorsteinssonar.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Sigríði Sigurjónsdóttur, forstöðumanni Hönnunarsafns Íslands, reiknast til að hönnuðirnir Hugrún Dögg Árnadóttir og Magni Þorsteinsson hafi hannað sem svarar einu skópari á þriggja daga fresti síðastliðinn tíu ár. Afraksturinn er 1.200 handunnin pör, sem þau hafa látið framleiða fyrir sig undir merkjum Kron by Kronkron á Spáni og Portúgal allar götur frá árinu 2008. Ætla mætti að þau gerðu fátt annað en að hanna skó, en svo er ei því þau hanna einnig samnefnda fatalínu og reka auk þess tvær verslanir í miðborginni, Kronkron og skóbúðina Kron, sem er sú eina á landinu sem selur skóna þeirra.

Skórnir eru að öllu leyti handgerðir og þau kappkosta að vera í nánu samstarfi við um fjörutíu reynda spænska og portúgalska handverksmenn, sem koma að skóvinnunni með einum eða öðrum hætti. Hugrún Dögg og Magni vilja hafa alla þræði í hendi sér, þau fylgjast með framleiðsluferlinu frá upphafi til enda og eru á sífelldum þeytingi milli landa, bæði þar sem skórnir eru unnir, sýndir á sýningum og seldir.

Hugrún Dögg er fatahönnuður að mennt og Magni hárgreiðslumaður. Þau kynntust aldamótaárið, stofnuðu verslun sama ár og hafa síðan hannað saman fatnað og skó. Einnig andrúmsloftið í búðum sínum, ef svo má að orði komast. „Hönnun er það sem líf okkar snýst um, hún er ástríða okkar, heimurinn okkar,“ segir Hugrún Dögg einfaldlega.

10 ára afmælisveisla

Að sögn Sigríðar er lífsýn parsins um margt sérstök og speglast hvort tveggja í metnaði og hugsjónum. „Þau eru fylgin sér og láta markaðsöflin ekki hafa áhrif á sig. Þau leggja áherslu á að para saman vörur frá mismunandi hönnuðum, sem eru líkt þenkjandi og þau, í búðina sína. Búðirnar eru ævintýraheimur þar sem hægt er að gleyma sér í fegurðinni, dást að handverki og hugmyndaflugi, láta sig dreyma, máta og spjalla. Og kannski eignast flík, eða skó, sem staðist hafa fagurfræðilegar kröfur þeirra Hugrúnar Daggar og Magna,“ segir Sigríður, sem undanfarið hefur verið í óða önn að raða upp skóm á sýninguna Undraveröld Kron by Kronkron í Hönnunarsafninu. Sýningarstjóri er Ástþór Helgason, gullsmiður. Sýningin er haldin í tilefni af tíu ára afmælinu og verður opnuð kl. 16 á morgun, sunnudaginn 18. mars, og stendur til 18. september. Opnunardaginn ber upp á síðasta dag Hönnunarmars og er því einn af dagskrárliðum hönnunarveislunnar.

Til sýnis verða 800 pör, allt frá fyrstu Kron by Kronkron-pörunum til þeirra nýjustu. Dömuskór eru í meirihluta, en einnig eru þar nokkrir herraskór og barnaskór, sem þau eru nýfarin að hanna. „Öll pörin eru frumgerðir, sem þau hafa varðveitt og koma Hönnunarsafninu sannarlega til góða núna. Ég veit ekki til að sérstök skósýning hafi áður verið haldin á Íslandi, en miðað við hversu margir eru „skósjúkir“ býst ég við góðri aðsókn,“ segir Sigríður og heldur áfram:

Skósýki og ástríður

„Í tískuheiminum eru skór flokkaðir sem fylgihlutir. Fólk er oft mjög ástríðufullt gagnvart skóm, skósjúkt, eins og við segjum gjarnan á Íslandi. Kannski helgast skósýkin af því að einu gildir hvernig fólk er í vextinum þá passa flestir í fallega skó.“

Auk þess sem Kron by Kronkron skórnir hafi þá sérstöðu að vera handgerðir, segir Sigríður með ólíkindum hversu þeir eru útpældir í minnstu smáatriðum. Yfirleitt eru þeir samansettir úr mörgum og mismunandi bútum úr alls konar efnum; þó mestanpart leðri og textíl. Mun lengri tíma taki að búa til eitt par en flestir geri sér grein fyrir. Hugrún Dögg skýtur inn í að frá því handverksmennirnir hefjist handa líði yfirleitt eitt og hálft ár þangað til skórnir séu komnir í búðarhillurnar.

„Við berum virðingu fyrir handverkinu, höfum gamlar hefðir í hávegum og fylgjum hvorki tískustefnum né -sveiflum. Á sama tíma og flestir eru að reyna að framleiða sem mest af öllu, sem einfaldast, ódýrast og á sem fljótlegastan hátt, nálgumst við sköpun okkar sem listaverk,“ segir hún.

Handverkið er leiðarljósið

Sigríður tekur í sama streng og lýsir umbeðin helstu einkennum skónna, sem eru þess verðir að bera uppi heila sýningu á safni eins og Hönnunarsafni Íslands. „Óvenjulegir, litrík og djörf litasamsetning, oft mjög skrautleg og skemmtileg blanda af efnisáferðum og mynstrum. Skórnir eru frumlegir, auðþekkjanlegir og klassískir – skór sem koma manni í spariskap. Og síðast en ekki síst eru þeir þægilegir.“

Þótt Kron by Kronkron-skórnir séu mismunandi og hvert par einstakt, segir Sigríður breytingarnar frá ári til árs ekki svo afgerandi að hægt sé að segja óyggjandi til um árganginn.

Þetta rímar við það sem Hugrún Dögg segir um að þau Magni gefi lítið fyrir tískuna, tengi ekki við hana og hún sé því ekki leiðarljós þeirra í hönnuninni.

„Við erum einlæg í okkar sköpun og ekkert að reyna að vera annað en við erum,“ segir hún. „Handverkið og gæðin eru okkar leiðarljós,“ bætir hún við.

Sýningin Undraveröld Kron by Kronkron í tilefni af tíu ára afmæli samnefnds merkis er hluti af Hönnunarmars og verður opnuð kl. 16 á morgun, sunnudaginn 18. mars. Aðrar sýningar á safninu eru Ðyslextwhere, sem er húfuverkefni, og Safnið á röngunni með Einari Þorsteini. Nánari upplýsingar: www.honnunarsafn.is