[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frjálsar Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Fljótasti maður Íslandssögunnar stendur frammi fyrir stórri ákvörðun.

Frjálsar

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Fljótasti maður Íslandssögunnar stendur frammi fyrir stórri ákvörðun. Trompetleikarinn Ari Bragi Kárason hefur bætt Íslandsmetið í 100 metra hlaupi tvö síðustu sumur en sex vikna æfingatörn í byrjun árs með mörgu af allra besta frjálsíþróttafólki heims, úrvalshópnum Altis í Phoenix í Arizona, skýrði betur hve miklu hann þarf enn að kosta til svo að draumurinn um Ólympíuleikana í Tókýó 2020 rætist.

Ari Bragi æfði meðal annars með Kanadamanninum Andre De Grasse, sem varð í 2. sæti á eftir Usain Bolt í 200 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Ríó, og Aries Merritt, heimsmethafa í 110 metra grindahlaupi. Ströng skilyrði ríkja um hverjir fá að æfa með Altis-liðinu, það er afar kostnaðarsamt, en því fylgir úrvalsæfingaaðstaða, -þjálfarar, -sjúkraþjálfarar, -næringarráðgjafar og fleira sem þarf til að frjálsíþróttafólkið geti náð fram sínu besta.

Ari Bragi, sem er 29 ára en hóf ótrúlegt en satt að æfa frjálsíþróttir fyrir aðeins fimm árum, fór fyrst að kynna sér Altis-hópinn fyrir tveimur árum:

„Svo fór ég að láta mig dreyma um að komast þarna út, þó að maður sæi að félagið setur afskaplega ströng skilyrði fyrir því hverjir fái að æfa þarna. Maður þarf að hafa hlaupið 100 metra undir 10,15 sekúndum til að mynda, og ég á best 10,51 best [innsk.: núgildandi Íslandsmet]. En ég taldi mig ekki geta tapað á að hafa samband og sendi inn tiltölulega kraftmikla umsókn. Þar tók ég meðal annars fram að ég væri líka tónlistarmaður, og hvað ég hef í raun verið stuttan tíma í frjálsum. Þetta þótti þeim mjög áhugavert, sérstaklega hvað varðar tónlistarlegan bakgrunn minn, eitt leiddi af öðru og ég fékk grænt ljós á að koma í þessar sex vikur,“ segir Ari Bragi. Hann er trompetleikari að aðalstarfi og má segja að trompetinn hafi hjálpað honum að komast að hjá Altis:

Andstæða við mitt líferni

„Algjörlega. Sá sem sér um að velja í hópinn þekkir nokkuð til íslenskrar tónlistar og ég gat leyft mér að nefna nokkur bönd sem ég hef spilað með, sem hann þekkti og fannst mjög áhugavert. Þetta var alveg frábær tími. Auðvitað var ég ekki alveg á sama stigi og aðrir þarna úti, en ég var samt ekkert rosalega langt frá þeim heldur. Maður fékk hins vegar að sjá þarna svart á hvítu muninn á fólki sem er atvinnumenn og fólki sem er hálfatvinnumenn. Það er ofboðslega mikill munur bara á lífsstíl. Þetta fólk mætir á æfingu, fer svo heim og gerir bara ekki neitt. Það má ekki gera neitt, því það hefur áhrif á æfinguna daginn eftir,“ segir Ari Bragi, sem er vanari að þenja trompetinn jafnvel langt fram eftir nóttu á milli æfinga:

„Þetta er algjör andstæða við mitt líferni enda frjálsar bara áhugamál, sem er þó kannski komið aðeins lengra hjá mér og ég reyni að gera eins mikið og ég get úr þessu. Það var rosalega gaman að fá að æfa eins og atvinnumaður þarna í sex vikur, með bestu spretthlaupurum í heiminum í dag. Þarna var heimsmethafinn í 110 metra grindahlaupi, og sá sem lenti í 2. sæti í 200 metra hlaupi á Ólympíuleikunum. Það var ofboðslega áhugavert fyrir mig að bera mig saman við þetta fólk,“ segir Ari Bragi.

„Það setti líka hlutina í samhengi og kom manni kannski aðeins niður á jörðina. Ég sá að ef ég vil geta hlaupið svona hratt þarf ég að fórna miklu meira en ég geri nú þegar, og þessa stundina er ég bara að vega og meta hvernig ég ætla að halda áfram úr þessu,“ bætir hann við.

Tókýó aldrei skýrara markmið

FH-ingurinn hefur sett stefnuna á að komast á Ólympíuleikana í Tókýó árið 2020. Fyrir síðustu Ólympíuleika var lágmarkið í 100 metra hlaupi 10,16 sekúndur, en Ari Bragi veit nú betur hverju hann þarf að fórna til að komast til Tókýó:

„Það hefur aldrei verið skýrara markmið. Þessi ferð gaf mér svör við svo mörgum spurningum. Eftir þessar sex vikur fékk ég fund með öllu þjálfarateyminu og þar fékk ég bara að vita: „Ef þú ætlar að gera þetta, þá þarftu að gera þetta.“ Þetta sýndi mér að ég þarf að vinna minna og æfa meira og ég verð að meta hjá sjálfum mér hve langt ég vil taka þetta. Ég hef alltaf verið númer eitt, tvö og þrjú tónlistarmaður, það er vinna mín sem skilar mér tekjum, en það er spurning hvort ég get minnkað meira við mig á því sviði.“

Fleiri út fyrir þægindaramma

Ari Bragi segir að greiða þurfi svimandi há æfingagjöld til að komast að hjá Altis, en að félag sitt FH og Frjálsíþróttasamband Íslands hafi ásamt fleirum hjálpað sér við að komast að í þessar sex vikur. Hann tekur undir að mikilvægt sé að íslenskt frjálsíþróttafólki fari í sams konar ferðir:

„Ekki spurning. Með þessu fór ég langt út fyrir þægindaramma minn, og annarra sem eru að æfa á sama stigi og ég, en ég gerði þetta og held að ég komi heim með ákveðnar nýjungar sem geti nýst fólki í öllum íþróttum. Þjálfunarfræðin eru á ofboðslega háu stigi þarna úti, en númer eitt, tvö og þrjú er að fólk æfi skynsamlega og sleppi við meiðsli og geri æfingar sem henta fyrir hvern og einn. Að fólk finni sína veikleika og hakki þá í sig. Við gefum okkur ekki mikinn tíma í þessa þjálfunarfræði hérna á Íslandi, og þar spilar inn í að þjálfararnir hér heima eru ekki í fullu starfi heldur bara áhugafólk, en það eru allir að reyna að gera sitt besta. Það er í raun aðdáunarvert hve Íslendingar hafa náð góðum árangri í frjálsum, sem sýnir hversu gott fólk kemur að þessu starfi hérna og hvað við eigum mikið af hæfileikaríku íþróttafólki.“

Fyrir áhugasama má geta þess að Ari Bragi mun halda námskeið í Kaplakrika á sunnudagsmorgun þar sem hann fræðir íþróttafólk um þann lærdóm sem hann dró af ferðinni til Phoenix: „Þetta er í raun fyrir alla þá sem hafa áhuga á að auka hraða sinn, hvort sem það er frjálsíþróttafólk, knattspyrnufólk, handboltafólk eða annað.“