Arnór Eggertsson fæddist 6. júlí 1941. Hann lést 20. febrúar 2018.

Útför Arnórs fór fram 26. febrúar 2018.

Ég kynntist Arnóri snemma á menntaskólaárunum. Við vorum lengst af í sama bekk, Z-unni, eins og Dúa. Þau voru einstaklega skemmtilegir bekkjarfélagar. Þarna bundumst við traustum vinaböndum sem héldu þar til yfir lauk.

Minningarnar eru margar en ein sækir á. Við Arnór fórum stundum tveir saman „út á lífið“ á laugardagskvöldum. Hann stjórnaði því (hann var nú einu sinni árinu eldri!) að ég, sem bjó á Ásvallagötunni, skyldi rölta upp á Bárugötu til hans undir kvöld og þaðan færum við svo niður í miðbæ. Þegar ég bankaði upp á í notalegri risíbúðinni hjá þeim Jóhönnu móður hans, kom hún til dyra en Arnór var hvergi að sjá. Svona atvikaðist þetta í hvert sinn sem við hugðumst lyfta okkur á kreik. „Komdu nú inn í stofu og fáðu þér sæti,“ sagði hin elskulega Jóhanna. „Arnór er í baði.“ Og það var ekki eins og hann væri í þann mund að ljúka hreinsunarathöfninni, heldur var hann að hefja hana! Leið svo óralöng stund, því Arnór var ekkert að flýta sér, þótt ég hefði mætt á tilskildum tíma.

Það hefur hvarflað að mér að Arnór hafi tímasett þetta svona til að ég gæti átt góða stund með Jóhönnu, og kannski líka til að hún fengi tækifæri til að kynnast vini hans. Og þótt mér kunni að hafa verið í mun að komast sem fyrst út að skemmta mér, hefði ég ekki viljað fara á mis við þessar stundir með Jóhönnu. Um þær á ég ljúfar minningar. Hún var einstaklega hlý kona og viðræðugóð.

Þótt samgangur okkar Arnórs hafi ekki verið mikill eftir að ég fór fyrst til New York árið 1970 og dvaldi þar samtals í 25 ár, var alltaf eins og við hefðum „hist í gær“ þegar fundum okkar bar saman hér heima. Hann var góður og traustur vinur. Ákveðinn en mjúkur, með sterkar skoðanir sem hann lá ekki á en tranaði heldur ekki fram. Og síðast en ekki síst var hann bráðskemmtilegur!

Við Halla færum Arndísi, Jóhönnu, Valdísi og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Herbert Haraldsson.

Það er skammt stórra högga á milli og eftir erfið veikindi hafa Arnór og Dúa kvatt okkur. Með lítilli kveðju langar mig að minnast þeirra hjóna, sem eiga sér fastan stað í hjarta mínu fyrir góðmennsku og velvilja sem þau hafa sýnt mér í gegnum tíðina. Á mínum yngri árum var ég tíður gestur á heimili þeirra og við Valla bestu vinkonur. Ég var ávallt velkomin, iðulega var eitthvað gott að borða í eldhúsi Dúu og við vinkonurnar gættum þess að ganga almennilega frá eftir okkur. Vegna umhyggju Arnórs og Dúu og vináttu þeirra í minn garð áttu þau stóran þátt í að ég hóf háskólanám á sínum tíma og snéri aftur í Vesturbæinn eftir nám og dvöl í Danmörku. Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa til þeirra og megi allir góðir kraftar hjálpa Völlu minni og fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum.

Selma Grétarsdóttir.