Heimir Klemenzson fæddist 7. júlí 1991. Hann lést 20. febrúar 2018.

Útför Heimis fór fram 3. mars 2018.

Kveðja frá Menntavísindasviði

Haustið 2016 hóf glæsilegur hópur ungs fólks kennaranám við Kennaradeild Menntavísindasviðs. Í þeim hópi var Heimir Klemenzson. Hann vakti þegar í stað aðdáun bæði samnema og kennara fyrir áhuga sinn, glaðværð og birtu sem fylgdi honum. Og áhugasamur og virkur var hann í náminu öllu. Hann var spurull, leitandi og skapandi.

Það var því mikið áfall að frétta af ótímabæru andláti hans. Við syrgjum góðan félaga, nemanda og vin. En fyrst og fremst er hugur okkar hjá þeim sem næst honum stóðu og syrgja sárast. Við sendum Iðunni, Ragnheiði og Hlyn innilegar samúðarkveðjur svo og þeim öðrum sem næst honum stóðu.

Megi ljúfar og fallegar minningar um góðan dreng hugga og styrkja í sorginni.

Starfsfólk Menntavísindasviðs Háskóla Íslands,

Baldur Sigurðsson.

Í dag kveðjum við á Glitstöðum góðan vin. Heimi höfum við þekkt alla tíð og kynnst vel, fyrst í gegnum vinskap barna okkar og hans og síðar sem starfsmann og heimilisvin. Það var mikill samgangur milli bæjanna Dýrastaða og Glitstaða eftir að strákarnir Heimir og Jóhann Óli byrjuðu í Varmalandsskóla og heimsóttu þeir hvor annan oft eftir skóla. Þeir náðu vel saman í leik og var oft fjörugt í kringum þá. Saman hafa þeir setið í skólabílnum tæpa 50 þúsund kílómetra og örugglega margt verið spjallað allan þann tíma. Áhugamálin voru svipuð og þeir gleymdu sér í fótboltaleik, í lestri á Andrési önd og söfnuðu Pokémon, svo fátt eitt sé upp talið. Ekki má gleyma öllum spilakvöldunum þegar krakkarnir hér buðu krökkunum af nágrannabæjunum til sín, þá var Heimir algjörlega ómissandi.

Árið 2013 hóf Heimir störf hjá okkur við búskapinn. Það hentaði báðum vel. Það kom sér vel fyrir okkur að fá duglegan mann sem þekkti sveitastörfin út og inn og var fljótur að læra á alla okkar sérvisku. Heimir stundaði einnig tónlistarnám í Reykjavík ásamt því að sinna ýmsu tónlistarstarfi og vissi sem var að það gæti orðið honum erfitt að ráða sig í venjulega vinnu sem krefðist fastrar viðveru alla daga. Hann fékk sveigjanleikann sem hann vildi hjá okkur og var á móti sveigjanlegur við okkur þegar við þurftum á að halda og allir græddu. En Heimir var mikið meira en starfsmaður. Hann var líka heimilisvinur og ef yngri kynslóðin var heima við var gjarnan tekið í spil í hádeginu eða að loknum vinnudegi. Heimir gaf sig að öllum og var annt um að fólki liði vel en forðaðist deilur og átök. Heimir reyndist okkur og börnum okkar mjög vel, var umhyggjusamur og nærgætinn.

Undanfarna daga höfum við verið döpur, hrygg og átt erfitt með að skilja. Víst er að veikindi leggjast misjafnlega á fólk og erfitt að greina hversu þungbær þau eru. Það er auðvelt að detta í það að horfa í baksýnisspegilinn og sjá hvað maður hefði getað gert svo miklu betur. Heimir vildi lítið ræða veikindi sín, vildi ekki íþyngja öðrum. Hann vildi bæta mannlífið í kringum sig, fræðast og fræða aðra. Af samverunni við hann getum við dregið margvíslegan lærdóm. Takk fyrir allt og allt.

Guðrún á Glitstöðum.