„Ég held það sé ekki nokkur vafi á að samræmdu prófin hafa áhrif á viðhorf barna og unglinga til móðurmálsins.

„Ég held það sé ekki nokkur vafi á að samræmdu prófin hafa áhrif á viðhorf barna og unglinga til móðurmálsins. Í málfræðihluta prófanna, þar sem spurt er um rétt og rangt, gott og vont mál, er ofuráhersla á þágufallssýki og margar spurningar í hverju prófi snúast um það atriði eitt og sér. Mikið snýr að orðflokkagreiningu, það er spurt um sterka og veika beygingu, sem segir nákvæmlega ekki neitt um málkunnáttu. Ég hef heyrt það frá mörgum, nemendum og foreldrum, að þetta mótar neikvætt viðhorf til íslenskunnar.

Íslenskan er viðkvæmari en mörg önnur fög, í stórri könnun sem við Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor stöndum fyrir núna, þar sem við erum að skoða viðhorf ungs fólks til íslenskunnar og ensku, hefur komið í ljós að yngstu kynslóðinni þykir ekki eins mikilvægt að vera góður í íslensku eins og þeim sem eldri eru og talar stundum ensku við félaga sína í aðstæðum þar sem allir eru íslenskumælandi.

Ef viðhorfið til móðurmálsins verður neikvætt hrindir það af stað svo mikilli keðjuverkun og tungumál veiklast. Þessi próf viðhalda þeirri röngu ímynd að íslenska og íslenskukennsla gangi út á orðflokkagreiningu og utanbókarlærdóm.“

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor