[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þær fjölluðu svo að segja allar um hræðileg morð, mannskæð slys, morðtilraunir, stríð og andlát.

Heill! Sá þessa mynd og fór að hafa áhyggjur. Er ekki allt gott að frétta úr Móunum?“

Þannig hljómaði skeyti frá kærum vini úti í bæ sem barst mér snemma í vikunni en hann vísaði þarna til myndar af tölvuskjá af tíu mest lesnu fréttunum á mbl.is. Þær fjölluðu svo að segja allar um hræðileg morð, mannskæð slys, morðtilraunir, stríð og andlát. Mest fór fyrir fréttum af grimmum örlögum spænska drengsins Gabriels en þarna var líka að finna fréttir um mannskæðasta flugslys í Nepal í áratugi og þyrluslys í Austurá í New York, þar sem enginn lifði af, eiturefnaárásina á gamla Rússann og dóttur hans í Bretlandi og andlát tískufrömuðarins Huberts de Givenchys sem ég verð reyndar að viðurkenna að ég hafði aldrei heyrt nefndan. Þá var O.J. gamli Simpson kominn upp á dekk með meinta morðjátningu. Loks var þarna frétt um börn í bráðri lífshættu í styrjöldinni í Sýrlandi.

Það er gömul saga og ný að mál sem þessi veki áhuga lesenda fréttamiðla og án þess að hafa gert á því vísindalega rannsókn stenst þeim líklega ekkert snúning, nema þá helst nekt og brjóst. Birtist einhver einhvers staðar nakin/n eða sleppi brjóstum sínum lausum þá sýna dæmin að fréttin er fljót að rjúka upp vinsældalistann. Enda þótt mynd fylgi sjaldnast með.

Þetta á eflaust við á heimsvísu en ef við lítum okkur nær þá má bæta við fréttum af því þegar einhver „frægur“ skellir húsinu sínu eða íbúðinni á sölu. Þá fer þorri þjóðarinnar af hjörunum. Nú eða ef eitthvað óvenjulegt hendir einhvern sem við könnumst við. Rataði ekki frétt um það að blóðblettur hefði verið þveginn úr kjól Ragnhildar Steinunnar á elleftu stundu fyrir beina útsendingu Júróvisjón (eða Ísóvisjón) á toppinn yfir mest lesnu fréttirnar á mbl.is fyrir skemmstu?

Svo eru það „lét sig ekki vanta“-fréttirnar. Þær drekkum við í okkur eins og móðurmjólkina. Þarna er ég að tala um myndasyrpur frá viðburðum, eins og tónleikum eða leikhúsfrumsýningum, þar sem fræga og fína fólkið kemur gjarnan saman og stillir sér brosandi upp fyrir framan myndavélina.

Loks ber að nefna fréttir af heimsfrægu fólki sem statt er á Íslandi. Ennþá fara öll skilningarvit á yfirsnúning þegar slíkar fréttir berast enda þótt þetta sé í seinni tíð orðið nánast vikulegur viðburður. Var til dæmis ekki sjálfur Cristiano Ronaldo hérna í vikunni?

Það ætlar að ganga hægt að berja úr okkur sveitamanninn!