Atkvæðamiklir Ágæt frammistaða Hlyns og Loga dugði ekki til.
Atkvæðamiklir Ágæt frammistaða Hlyns og Loga dugði ekki til. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sérfræðingur Morgunblaðsins Benedikt Guðmundsson benediktrunar@hotmail.com Benedikt Guðmundsson er reyndur körfuboltaþjálfari og fyrrverandi íþróttafréttamaður sem er sérfræðingur Morgunblaðsins í körfubolta í vetur. Í dag fer hann yfir fyrstu umferðina í úrslitakeppni karla.

Þegar fer að vora býður körfuboltafólk landsmönnum til veislu sem gengur undir nafninu úrslitakeppni. Það eru strákarnir sem ríða á vaðið og eru þegar hafnar fjórar rimmur þar sem átta bestu lið landsins taka hvert á öðru.

Áður en ég fer að tjá mig um fyrstu leikina í þessum viðureignum verð ég að koma aftur inn á frammistöðu Jóns Axels Guðmundssonar með Davidson-háskólanum í Bandaríkjunum. Hann átti stórleik gegn Kentucky-risanum og var næststigahæsti leikmaður leiksins. Það var bara Kevin Knox, leikmaður Kentucky, sem skoraði meira en sá er á leiðinni inn í NBA-deildina eftir tímabilið og spáð mjög framarlega í nýliðavalinu í júní. Þessi frammistaða Jóns í leiknum og í allan vetur er framúrskarandi og óhætt að segja að ný stjarna sé fædd í íslensku íþróttalífi. Annar leikmaður sem er að gera það gott í ameríska háskólaboltanum er Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson sem er búinn að leiða skólann sinn alla leið í 8-liða úrslit í 2. deild. Ég veit að Elvar og félagar stefna alla leið.

Heimasigrar á línuna

Það voru heimasigrar á línuna í 8-liða úrslitum. Það voru helst Grindvíkingar sem voru næst því að „stela“ fyrsta leik og setja rimmuna við Stólana í uppnám. Það er ákveðin pressa á fjórum efstu liðunum að vinna fyrsta leik því þau vilja ekki fara með bakið upp við vegg í leik tvö, á erfiðan útivöll og verða því að vinna. Þessir heimasigrar þýða það að núna eru þessi fjögur efstu lið búin að koma pressunni yfir á andstæðinga sína því það að lenda 0:2 undir er staða sem enginn vill lenda í. Það þýðir að serían er nánast búin. Það hafa komið undantekningar sem sanna regluna, lið hefur komið til baka úr þeirri stöðu, en ég mæli ekki með að lið fari að ögra þessari „reglu“.

Grindavík var t.d. bara einu varnarfrákasti, eftir víti í lok venjulegs leiktíma, frá að klára leikinn fyrir norðan en Stólarnir voru síðan betri í framlengingunni.

Taylor og Matthías með 51 stig

Stjarnan sýndi ÍR-ingum að þeir eru ekkert að fara að labba í gegnum þær viðureignir. Mér finnst alltaf geggjað að sjá leikmenn taka 20 fráköst eða meira en Hlynur Bæringsson tók hvorki meira né minna en 22 fráköst. Stjarnan ætlaði að stöðva Ryan Taylor og Matthías Orra Sigurðsson en það tókst ekki betur en það að þeir skoruðu 51 stig samtals af 79 stigum ÍR-inga. Ef Taylor hefði hitt almennilega af vítalínunni hefði hann skorað enn meira en þau 32 stig sem hann var með. Annars var hann með óaðfinnanlega nýtingu í öðrum skotum utan af velli. Ég hef verið að gagnrýna Stjörnumanninn Darrell Combs í þessum pistlum fyrir lítið framlag og slaka hittni. Hann var við sama heygarðshornið í fyrsta leik og þarf heldur betur að fara að gera eitthvað af viti.

Njarðvíkingar brotnuðu

Ég fylgdist með Njarðvíkurliðinu brotna í Vesturbænum. Eftir fínan fyrri hálfleik keyrðu KR-ingar yfir gestina frá Njarðvík. Terrell Vinson missti hausinn og margir leikmenn liðsins náðu sér ekki á strik gegn sterkri vörn KR. Það var bara Logi Gunnarsson sem komst eitthvað áleiðis í fyrri hálfleik en Njarðvíkingar geta ekki stólað á leikmann á 37. aldursári til að bera uppi sóknarleikinn. Það þurfa fleiri að leggja í púkkið.

KR-ingar hafa sýnt svona frammistöðu áður í vetur en svo hafa fylgt slakir leikir í kjölfarið og verður fróðlegt að sjá hvort þessi spilamennska sé komin til að vera. Jón Arnór Stefánsson var frábær, Pavel spilaði geggjaða vörn, Kristófer Acox var óstöðvandi og virðast Njarðvíkingar ekki eiga neinn sem getur hægt á honum frekar en mörg önnur lið í þessari deild. Þá er Kaninn Kendal Pollard allur að koma til og formið að skána. Hann gerði 17 stig á jafn mörgum mínútum.

Engin vandræði hjá Haukum

Haukar, með Kára Jónsson kominn aftur, voru ekki í neinum vandræðum með Keflavík. Það var ekki að sjá á honum neitt ryð eftir fjarveru vegna meiðsla. Hann spilaði bara eins og vanalega enda ofboðslega góður í körfubolta.

Það að Hörður Axel Vilhjálmsson og Reggie Dupree séu með aðeins sex stig saman gengur ekki fyrir Keflvíkinga gegn liði eins og Haukum. Ég neita að trúa öðru en að þeir láti meira að sér kveða í næsta leik sem fram fer í Keflavík.

Sérfræðingur Morgunblaðsins Benedikt Guðmundsson benediktrunar@hotmail.com Benedikt Guðmundsson er reyndur körfuboltaþjálfari og fyrrverandi íþróttafréttamaður sem er sérfræðingur Morgunblaðsins í körfubolta í vetur. Í dag fer hann yfir fyrstu umferðina í úrslitakeppni karla.

Höf.: Sérfræðingur Morgunblaðsins Benedikt Guðmundsson benediktrunar@hotmail.com Benedikt Guðmundsson er reyndur körfuboltaþjálfari, fyrrverandi íþróttafréttamaður sem er sérfræðingur Morgunblaðsins í körfubolta í vetur. Í dag fer hann yfir fyrstu umferðina í ú