Þá er fyrstu umferðinni í úrslitakeppni Dominos-deildar karla lokið í körfuboltanum. Úrslitin voru öll í takt við lokastöðuna í deildakeppninni.
Þá er fyrstu umferðinni í úrslitakeppni Dominos-deildar karla lokið í körfuboltanum. Úrslitin voru öll í takt við lokastöðuna í deildakeppninni. Liðin í fjórum efstu sætunum eru með 1:0 forskot eftir heimasigra gegn liðunum sem höfnuðu í fimmta til áttunda sæti.

Fyrsta umferðin olli vonbrigðum að því leytinu til að einungis einn leikur af fjórum náði því að verða verulega spennandi. Sá fór raunar í framlengingu í Skagafirðinum í gær eins og Einar Sigtryggsson fjallar um hér í blaðinu í dag.

Þótt fyrstu þrír leikjanna hafi verið fremur ójafnir þá gætu allar þessar rimmur engu að síður orðið stórskemmtilegar. Suðurnesjaliðin þrjú eru undir og mæta næst til leiks á heimavelli. Þar eru þau til alls vís eins og sagan kennir okkur.

Úrslitakeppnin gæti orðið afskaplega skemmtileg meðal annars fyrir þær sakir að KR er ekki lengur augljóslega besta liðið eins og síðustu tvö tímabil. Enda höfnuðu þrjú lið ofar í deildakeppninni, Haukar, ÍR og Tindastóll. Öll fara þau vel af stað.

Haukar og Tindastóll tefldu fram þeim Kára Jónssyni og Sigtryggi Arnar Björnssyni í gær. Báðir voru þeir mjög atkvæðamiklir og virðast því vera tilbúnir í slaginn. Eru það afskaplega góð tíðindi fyrir stuðningsmenn þessara liða. Nárameiðsli Sigtryggs Arnars gætu þó verið viðkvæmari þegar leikjaálagið eykst.

KR-ingar misstu á hinn bóginn fyrirliðann Brynjar Þór Björnsson vegna handarbrots. KR þarf að bregðast við því og gerði það á fimmtudaginn.