Sigurður Flosason
Sigurður Flosason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er mögnuð tilviljun að þetta skuli allt gerast sama daginn,“ segir Sigurður Flosason saxófónleikari, sem á miðvikudaginn hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem lagahöfundur ársins fyrir tónlistina á „Green Moss Black Sand“.

„Það er mögnuð tilviljun að þetta skuli allt gerast sama daginn,“ segir Sigurður Flosason saxófónleikari, sem á miðvikudaginn hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem lagahöfundur ársins fyrir tónlistina á „Green Moss Black Sand“. Tvær dætra hans, Anna Gréta og Sigríður, fengu samtímis verðlaun á öðrum vettvangi, önnur fyrir djasstónlist og hin fyrir hönnun. Fjölskyldan er að vonum í skýjunum. Sigurður segir að þessar viðurkenningar muni koma sér vel fyrir dæturnar á þeim brautum sem þær hafa valið sér.

Sigurður Flosason lauk einleikaraprófi á saxófón frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1983. Hann stundaði framhaldsnám í klassískum saxófónleik og djassfræðum við Indiana University í Bandaríkjunum og lauk þaðan Bachelors- og mastersprófum. Síðan stundaði hann einkanám hjá George Coleman í New York veturinn 1988-1989. Sigurður var ráðinn aðstoðarskólastjóri og yfirmaður djassdeildar Tónlistarskóla FÍH 1989 og hefur gegnt því starfi síðan. Hann hefur verið atkvæðamikill í íslensku dasslífi undanfarin ár og hefur einnig tekið þátt í mörgum fjölþjóðlegum samstarfsverkefnum.

Anna Gréta, 23 ára gömul dóttir Sigurðar, fékk verðlaun Vina Fasching, aðaldjassklúbbsins í Svíþjóð, en þau velja aðeins einn ungan djasstónlistarmann í Svíþjóð á ári. „Þetta kemur sér vel fyrir hana, þar sem um peningaverðlaun er að ræða,“ segir faðir hennar. Hann bendir á að Svíar séu 10 milljónir og því sé það talsverður árangur að skara fram úr með þessum hætti þar í landi.

Sigríður Hulda, sem er 27 ára, fékk hönnunarverðlaun FÍT, Félags íslenskra teiknara, fyrir mastersverkefni sitt frá Konstfack í Stokkhólmi. Það nefnist „Snið sögunnar: Greining á hulinni sögu kvenna í gegnum hönnun.“