[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gylfi meiddur en verður með á HM Gylfi Sigurðsson verður líklega frá keppni í sex til átta vikur vegna meiðsla á hné sem hann varð fyrir snemma leiks með Everton, hélt þó áfram og hljóp meira en nokkur annar!

Gylfi meiddur en verður með á HM

Gylfi Sigurðsson verður líklega frá keppni í sex til átta vikur vegna meiðsla á hné sem hann varð fyrir snemma leiks með Everton, hélt þó áfram og hljóp meira en nokkur annar! Óttast var að Gylfi missti af HM í fótbolta í Rússlandi en hann verður með.

Andri las best upp

Andri Steinar Johansen, nemandi í Setbergsskóla í Hafnarfirði, bar sigur úr býtum í lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar. Er þetta í 22. skipti sem keppnin er haldin og allir grunnskólar landsins með 7. bekk taka þátt í henni.

Það er gott að búa í Hafnarfirði!

Þrjár verslanir í Hafnarfirði voru með lægst verð á 22 vörutegundum af 24 sem Alþýðusambandið kannaði í fiskverslunum og fiskborðum matvöruverslana víða um land. „Hafnfirðingar halda margar fastar utan um budduna en fólk í Reykjavík. Hér hefur fólk þekkingu á fiski og veit hvað hann á að kosta. Sums staðar pælir fólk ekki mikið í verðinu, þó svo að það geri það hér,“ sagði Jón Garðar Sigurvinsson í Litlu fiskbúðinni við Helluhraun.

Ný meinvörp í Stefáni Karli

Leikarinn Stefán Karl Stefánsson greindist með krabbamein 2016 og nú hafa fundist ný meinvörp sem ekki er hægt að lækna. Við taka lífslengjandi tilraunir með lyfjagjöfum, segir eiginkona hans, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, á Facebook.

Ís-hokkí-kalt steypibað

Ásynjur, eldra lið Skautafélags Akureyrar, urðu Íslandsmeistarar í íshokkíi kvenna eftir sigur á yngra liði SA, Ynjum. Bart Moran þjálfari fékk ískalt steypibað en sá er siður þegar meistaratitill í íshokkíi er í höfn!