Pálmi Ásmundsson fæddist 13. september 1947. Hann lést 17. febrúar 2018.

Útför Pálma fór fram 27. febrúar 2018.

Pálmi Ásmundsson, Strandamaður, húsasmíðameistari, skólabróðir af Reykjaskóla og vinur, lést 17. febrúar sl. Andlát hans var óvænt, ótímabært og mikil sorg að missa þennan góða dreng. Daginn áður, föstudaginn hinn 16., hringdi Pálmi í mig og boðaði okkur nokkra skólabræður frá Reykjaskóla til hittings. Við hittumst samt á boðuðum degi og rifjuðum upp samveru okkar.

Við félagarnir stofnuðum skólahljómsveit Reykjaskóla 1963. Pálmi var ágætis nikkari og þandi nikkuna til hins ýtrasta með miklum dýfum og krafti. Þessi hljómsveit hélt uppi stuðinu á böllum í skólanum og átti miklum vinsældum að fagna. En Pálmi var ekki síðri íþróttamaður en tónlistarmaður og var m.a. methafi skólans í limbói og mikill fimleikamaður.

Pálmi átti auðvelt með að eignast félaga og hélst vel á félögum sínum. Hann var traustur félagi og alltaf til í að fá menn til að ganga í takti, vera vinir og gera gott úr ágreiningi og vera ekki með vesen og vitleysu. Hann gat samt verið harður í horn að taka ef menn urðu uppivöðslusamir. Því verður seint gleymt, þegar einn félaginn fór eitthvað út af sporinu. Þá var kauði bara settur í skottið á Lettanum.

Sumarið 1966 útvegaði Pálmi mér vinnu á Volkswagen-verkstæði sem Snorri, bróðir hans, var nýbúinn að stofna. Andrúmsloftið þar var létt og menn létu ýmislegt flakka eins og þegar skrúfur gengu af eftir viðgerð. Þá var sagt: „Hentu þessu í smuropið, þá fer það á sinn stað.“ Öðru sinni fékk verkstæðið voffa í viðgerð sem hafði verið gert við á öðru verkstæði. Voru fjórir gírar afturábak og einn áfram. Það var náð í bílinn og var löggan í Fossvogi nærri búin að snúa sig úr hálsliðnum þegar honum var bakkað fram hjá þeim á fullri ferð. Oft fórum við félagarnir um helgar í ferðalög. Við vorum vel bílaðir að þeirra tíma hætti. Pálmi átti Chevrolet 1959-módel með vængjum, ég átti nýlegan eldsprækan VW '63 og Snorri var á Ford Fairlane, módel '55, tvennra dyra hardtop V8.

Einu sinni var ákveðið að fara í veiðiferð. Þótt við hefðum ekki jeppa til að stóla á var samt lagt í hann á Fordinum og VW. Þetta var auðvitað fífldirfska því þá voru engir farsímar og við höfðum enga talstöð. Þegar komið var að Sandá syðri var komin nótt og sjatnað í ánni. Lagt var í ána eftir rannsókn á vaðinu. Yfir komumst við og allir glaðir. Brunað var upp á Kjöl, netin lögð og veiðin var góð. Ákveðið var að fara byggð heim því hljóðkúturinn var farinn undan Fordinum og svo vel drundi í honum að hross fældust og kýr sperrtu upp halann.

Einu sinni kom ég að Pálma þegar hann var að gera við Lettann. Framlega var orðin rúm á nafinu. Vinurinn dó ekki ráðalaus; kjörnaði í nafið, setti álpappír undir leguna og smellti henni svo upp á. Engin vandamál, bara lausnir. Þannig vann Pálmi, einstaklega úrræðagóður, mikill handverksmaður og vandaður í alla staði.

Við Inga Þórunn sendum Ásdísi, Lindu Rós og Pálma Þór samúðarkveðjur vegna fráfalls eiginmanns og föður og biðjum Guð að styrkja þau á komandi tímum. Hvíl í friði gamli vinur og skólabróðir.

Þorsteinn H. Gunnarsson.

17. febrúar. Fallegur dagur rennur upp. Sólin skín og varpar geislum sínum yfir fannhvíta jörð. Frá heimili sínu í Þverárseli fara þau hjónin, Pálmi bróðir minn og Ásdís, í göngutúr eins og þau gerðu svo oft. Dugleg að rækta líkama og sál. Á þessum fallega degi er bróðir minn hrifinn burt frá okkur á örskammri stundu. Maður sem kenndi sér einskis meins, hraustur og hélt sér vel.

Við ólumst upp í Snartartungu í Bitrufirði. Pálmi var yngstur í systkinahópnum og var það gaman fyrir mig að eiga þennan fallega, ljúfa litla bróður.

Mér er ljúft að minnast æskuáranna okkar í sveitinni við leik og störf.

Við Pálmi bróðir höfum alltaf verið dugleg að hafa samband og eftir að við hjónin fluttum í Kópavoginn var stutt að fá sér göngutúr yfir í Þverárselið til Pálma og Dísu. Þar var ávallt tekið vel á móti manni með hlýju, vinskap og góðu spjalli. Einnig voru það gleðistundir þegar þau bönkuðu upp á hjá okkur hjónunum. Eins á ég góðar minningar frá heimsókn minni til þeirra í fallega húsið þeirra í Orlando. Þar stjönuðu þau bæði við mig og alltaf var bróðir minn tilbúinn að keyra okkur, hvort sem það var í verslunarleiðangur, skoðunarferðir eða eitthvað annað skemmtilegt.

Einnig var það mikil upplifun fyrir mig að fá að fara með þeim hjónum á golfvellina þarna úti og fylgjast með þeim spila golf, sem var þeirra áhugamál.

Elsku bróðir, það er erfitt að kveðja en minning þín lifir og veitir mér styrk.

Elsku Dísa, Linda Rós og Pálmi Þór, megi Guð og englarnir gefa ykkur styrk á þessum erfiða tíma.

Vel sé þér vinur

þótt víkirðu skjótt

Frónbúum frá

í fegri heima.

Ljós var leið þín

og lífsfögnuður,

æðra, eilífan

þú öðlast nú.

Hvíl í friði. Þín systir

Hrefna.