24 stig Sigtryggur Arnar hleypir af á Sauðárkróki í gær.
24 stig Sigtryggur Arnar hleypir af á Sauðárkróki í gær. — Ljósmynd/Hjalti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Sauðárkróki Einar Sigtryggsson sport@mbl.is Fyrsti leikur Tindastóls og Grindavíkur í úrslitakeppninni í körfubolta fór fram í gærkvöldi á Sauðárkróki.

Á Sauðárkróki

Einar Sigtryggsson

sport@mbl.is

Fyrsti leikur Tindastóls og Grindavíkur í úrslitakeppninni í körfubolta fór fram í gærkvöldi á Sauðárkróki. Að sjálfsögðu var gríðarleg eftirvænting í loftinu og fríður flokkur Grindvíkinga kom norður á Sauðárkrók til að hvetja sitt lið. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og náðu Stólarnir að kreista leikinn í framlengingu. Þar voru heimamenn sterkari með Sigtrygg Arnar Björnsson fremstan í flokki. Heimamenn mörðu loks sigur 96:92 eftir æsilegan leik.

Leikurinn byrjaði með miklum látum og voru liðin í fantaformi. Jafnt var allan fyrsta leikhlutann en Grindvíkingar komust fyrst yfir í leiknum með lokakörfu fyrri hálfleiks. Þá var staðan 44:43.

Spennan magnaðist síðan með hverri mínútu sem leið af leiknum. Grindvíkingar voru með undirtökin fram á síðustu mínútu og var það Dagur Kár Jónsson sem hélt uppi merki gestanna með fáránlega svölum þristum á lokakaflanum. Stólarnir virtust búnir að kasta leiknum frá sér en í lokasókninni skoruðu þeir úr víti og náðu svo frákasti eftir seinna vítið. Það skilaði jöfnunarkörfu en Grindvíkingar fengu svo lokaskotið. Það missti marks og því þurfti að framlengja.

Framlengingin var æsileg og þar fór Sigtryggur Arnar Björnsson hreinlega á kostum og hann dró sigurinn að landi fyrir Sauðkrækinga.

Það var gríðarlega skemmtilegt að fylgjast með baráttu leikmanna undir körfunni þar sem Sigurður Gunnar Þorsteinsson var Stólunum óþægur ljár í þúfu. Hann var ekki að verja skotin en truflaði menn það mikið að þeir misstu marks í kjörfærum. Axel Kárason var einnig svakalega drjúgur í að berjast um lausa bolta. Anthony Hester og J´Nathan Bullock voru svo með í slagnum allan tímann og var hrein unun að horfa á.

Þrátt fyrir tap Grindvíkinga verður maður leiksins að vera Sigurður Gunnar Þorsteinsson. Hann var hreint frábær, jafnt í vörn og sókn og þrátt fyrir allan barninginn var hann bara með eina villu fyrir lokaleikhlutann. Í framlengingunni fékk hann fimmtu villuna og munaði um minna fyrir Grindvíkinga.

Stólarnir voru nánast bara þriggja manna teymi þegar kom að því að skora og var Antonio Hester með heil 33 stig. Pétur Rúnar skoraði 18 og Sigtryggur Arnar 24. Menn sem hafa verið að stíga upp á þessu tímabili voru töluvert frá sínu og þarf liðið framlag frá fleiri til að eiga betri möguleika á að vinna einvígið.