Hraun Þar bjó Hallgrímur um tíma.
Hraun Þar bjó Hallgrímur um tíma.
Hallgrímur Þorsteinsson fæddist í Garði í Aðaldal 17.3. 1776. Foreldrar hans voru Þorsteinn Hallgrímsson, prestur í Stærra-Árskógi, og f.k.h., Jórunn Lárusdóttir Scheving húsfreyja, föðursystir Hallgríms Scheving, kennara á Bessastöðum.

Hallgrímur Þorsteinsson fæddist í Garði í Aðaldal 17.3. 1776. Foreldrar hans voru Þorsteinn Hallgrímsson, prestur í Stærra-Árskógi, og f.k.h., Jórunn Lárusdóttir Scheving húsfreyja, föðursystir Hallgríms Scheving, kennara á Bessastöðum.

Þorsteinn var sonur séra Hallgríms Eldjárnssonar á Grenjaðarstað, en Jórunn var dóttir Lárus Scheving Hannessonar, klausturhaldara í Garði í Aðaldal.

Eiginkona Hallgríms var Rannveig Jónasdóttir frá Hvassafelli en börn þeirra voru Þorsteinn, bóndi að Hvassafelli; Rannveig, húsfreyja á Steinsstöðum; Jónas, skáld og náttúrufræðingur, og Anna Margrét, búsett á Steinsstöðum.

Hallgrímur var sex ára er hann missti móður sína, var í fóstri á Sandi í Aðaldal, síðan í fjögur ár hjá séra Hallgrími Thorlacius, síðast að Miklagarði og síðan hjá föður sínum þar til faðir hans lést, vorið 1791. Hann fór þá aftur að Miklagarði en lærði undir skóla hjá séra Guðmundi Böðvarssyni í Reykjadal.

Hallgrímur var tekinn í Hólaskóla 1794 og lauk þaðan stúdentsprófum vorið 1799 með vitnisburði yfir meðallagi. Var jafnframt tekið fram að hann hefði haldið ágæta prófræðu.

Að loknum stúdentsprófum var Hallgrímur í fjögur ár að Hvassafelli, vígðist 1803 aðstoðarprestur séra Jóns Þorlákssonar á Bægisá, bjó að Hrauni í Öxnadal 1803-1809 og síðan á Steinsstöðum. Hann var sagður „ásjálegur maður, dável gefinn, söngmaður ágætur“.

Hallgrímur drukknaði við silungsveiði í Hraunsvatni sunnudaginn 4. ágúst 1816. Um föðurmissinn orti Jónas Hallgrímsson:

Þá var eg ungur

er unnir luku

föðuraugum

fyrir mér saman.

Man eg þó missi

minn í heimi

fyrstan og sárstan

er mér faðir hvarf.