Samræmd könnunarpróf eiga að meta hæfni allra nemenda með sama hætti og við sambærilegar aðstæður. „Tilgangurinn er að meta hvernig markmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og veita endurgjöf til nemenda, foreldra, kennara og fræðsluyfirvalda.

Samræmd könnunarpróf eiga að meta hæfni allra nemenda með sama hætti og við sambærilegar aðstæður.

„Tilgangurinn er að meta hvernig markmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og veita endurgjöf til nemenda, foreldra, kennara og fræðsluyfirvalda.

Með þessari endurgjöf er til dæmis hægt að fá upplýsingar um þekkingu og hæfni hvers nemanda, hvort breyta þurfi áherslum í námi, hvað þurfi að bæta og almennt hver séu gæði menntunar.

Nemandi, foreldrar/forráðamenn og kennarar geta þannig notað niðurstöður prófsins til að ígrunda frekari áherslur í náminu í framhaldinu.“

(Vefsíða Menntamálastofnunar, mms.is)

„Með samræmdu prófunum eiga kennarar að geta metið stöðu nemenda í faginu. Raunin er sú að það er afar erfitt að fá að vita sérstaklega hvað vel er gert eða verr, niðurstöðurnar er erfitt að nota til gagns og kennarar fá takmarkaðar upplýsingar.

Þá er verið að prófa mjög lítinn hluta og á einhæfan hátt og prófin eru bara alls ekki í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla og taka aðeins á örfáum hæfniviðmiðum. Nemendur fá ákveðna raðeinkunn eða þennan bókstaf en það er verið að prófa svo lítinn hluta námsefnis, á svo einhæfan hátt, að nemendur fá ekki að sýna hvað í þeim býr.“

Hulda Dögg Proppé kennari

„Samræmdu prófin eru afar takmörkuð og sjónarhorn þeirra er þröngt, sniðið fyrir lítinn hóp nemenda. Hér á landi er „skóli án aðgreiningar“ opinber skólastefna og í dag er eðlilega mikil pressa frá ríki og sveitarfélögum á að við vinnum eftir þeirri stefnu. Við tökum alla inn í almenna grunnskóla, krakka sem flytja frá útlöndum, krakka með ýmiss konar fatlanir og raskanir. Fyrir þessi börn eru prófin kvalræði og gera ekkert annað en setja þau til hliðar. Samræmd próf eru því skaðleg fyrir nútímaskólastarf þar sem markmiðið er að rækta margs konar eiginleika og hæfni og koma algjörlega á skjön inn í það starf og vinna gegn hinni opinberu skólastefnu. Samræmdu prófin eru eldgamalt fyrirbæri og í seinni tíð eru þau orðin að einhvers konar stofnun sem lifir sjálfstæðu lífi og er ekki í neinum tengslum við starfið í skólanum lengur.“

Hafsteinn Karlsson skólastjóri

„Það er mikilvægt að átta sig á því að samræmd próf heita samræmd próf því þau eru í samræmi við aðalnámskrá. Hinn þátturinn í að þau eru samræmd er að þau eru samanburðarhæf, milli nemenda, sveitarfélaga og landshluta. Í niðurstöðum þeirra koma fram mikilvægar niðurstöður fyrir þá sem reka grunnskóla og þurfa að fylgjast með frammistöðu nemenda og fyrir menntayfirvöld til að fylgjast með stöðu menntakerfisins. Það er til dæmis áhyggjuefni sá vaxandi munur sem birtist milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins í niðurstöðum þessara prófa og það væri ekki hægt að bregðast við því ef þessi samanburður væri ekki fyrir hendi. Það væri því mjög bratt að afnema þessi próf.“

Arnór Guðmundsson, Menntamálastofnun

?