Laufey Júlíusdóttir fæddist 8. maí 1925. Hún lést 12. febrúar 2018.

Útför Laufeyjar fór fram í kyrrþey 23. febrúar 2018.

Fyrstu ár ævi minnar bjuggum við mamma hjá ömmu og afa. Ég gleymi aldrei svipnum á ömmu þegar Stefán litli gerði hluti sem ekki voru samþykktir, sem gerðist þó nokkrum sinnum. Ég man að þú varst vön að geyma mola og súkkulaði í skápnum inni í stofu. Þegar þú sást ekki til reyndi ég að klifra og sækja mér mola. Það endaði með ósköpum þegar skápurinn hrundi og mátti ég þakka fyrir að fá hann ekki yfir mig. Skálar, bollar, diskar og fleiri hlutir hrundu í gólfið með tilheyrandi óhljóðum og látum. Ég var fljótur að forða mér og hljóp eins og fætur toguðu að Hólmgarði 50 þar sem ég faldi mig. Loksins sá ég þig koma labbandi að mér með örvæntingarsvip á andlitinu. Ég ákvað að koma úr felum og sá að mikill léttir kom yfir ömmu mína. Ég hljóp í fangið á þér og þú faðmaðir mig að þér. Ég fann aðeins fyrir kærleika og hlýju. Ég grét og sagði: „Fyrirgefðu amma, þetta var óvart.“ Amma svaraði: „Þetta er allt í lagi. Þetta voru bara hlutir, ég er bara þakklát fyrir að það er í lagi með þig.“ Ég knúsaði ömmu fast og við fórum heim og hún gaf mér mola.

Elsku amma, þú hefur síðan þá verið stoð mín og stytta. Ég hef alltaf getað leitað til þín þegar eitthvað hefur bjátað á. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir að fá að búa hjá ykkur afa þegar ég fór í framhaldsskóla. Á hverjum virkum degi áttum við svo okkar stund saman þegar Leiðarljós var sýnt í Ríkissjónvarpinu. Við fylgdumst með Revu, Josh og öllum hinum. Þessir þættir munu alltaf minna mig á þennan tíma sem við áttum saman.

Hvergi fannst mér betra að koma í heimsókn. Tekið á móti manni með hlýju faðmlagi og kossi á kinn og eftir allar kræsingarnar voru heimsmálin rædd, að endingu lagðist maður inn í stofu yfir imbakassanum. Sófinn í Hólmgarðinum var sá staður sem mér leið hvað best á. Þar gat ég slakað vel á og gleymt öllum heimsins áhyggjum. Vita af ömmu þarna mér við hlið og afa að fylgjast með.

Elsku yndislega amma mín, ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og gefið mér. Góðu stundirnar sem við áttum saman og allar dásamlegu minningarnar. Ég mun geyma í hjarta mínu öll faðmlögin, kossana, kærleikann og hlýjuna frá þér. Ég sakna þín og mun aldrei gleyma þér. Þú munt ávallt eiga frátekið stórt pláss í hjarta mínu.

Nú hefur þú yfirgefið þennan heim og ert komin á betri stað. Þið afi nú sameinuð á ný og farin að syngja, dansa og spila saman á himnum ásamt því að undirbúa gómsætar pönnukökur.

Enginn betri ömmu getur óskað sér

í gegnum lífsins öldudal.

Allt það góða sem þú kenndir mér.

Ég ávallt var velkominn í þinn sal.

Þú munt alltaf í hjarta mér búa

ekkert því mun geta breytt.

Alltaf til þín var hægt að snúa

eftir allt mér þykir leitt

að nú er dagur að kveldi kominn.

Elsku amma ég kveð að sinni

til himna þú hefur verið boðin.

Þú aldrei munt renna úr mínu minni.

Berðu afa kveðju mína

þegar þú kemur til ríkis himna.

Þín stjarna á himnum mun skærast skína.

Þakkir ég gef fyrir allt hið liðna.

Elsku amma mín, megi Guð vaka yfir þér og gefa þér frið.

Með söknuð í hjarta,

Stefán Þór.

Það rifjast upp ótal margar frábærar minningar þegar ég hugsa til baka. Þegar ég var lítill var amma alltaf til í að spila við mig og þegar ég talaði um hana við vini mína hét hún alltaf „spila-amma“. Við spiluðum lengi og alltaf leyfði hún litla stráknum að vinna. Ég notaði svindl ef ég var að tapa og amma lét alltaf eins og hún sæi það ekki. Sama hvenær ég heimsótti ömmu í Hólmgarð 60, þá fór ég aldrei svangur heim. Hvort sem það voru hveitikökur, pönnukökur, skonsur eða bestu pítsur allra tíma. Eins og allir vita fór aldrei matur til spillis hjá ömmu og maður vissi aldrei hvað myndi vera á næstu pítsu, en alltaf voru þær góðar.

Mun alltaf sakna þín, elsku amma. Skilaðu kveðju til afa frá mér.

Ármann Örn.