Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Toppur hún á trénu er. Tigin svanni á höfði ber. Rýra hér oss rentu gaf. Ríkisdalinn leysti af.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Toppur hún á trénu er.

Tigin svanni á höfði ber.

Rýra hér oss rentu gaf.

Ríkisdalinn leysti af.

Hér er lausn Hörpu á Hjarðarfelli:

Efst sem trónir ávallt þar

eg því geri skóna

að eflaust það sem átt við var

sé ýmiskonar króna.

Guðrún Bjarnadóttir leysir gátuna þannig:

Í laufkrónu lék sér Beta,

með lotningu síðar krýnd.

Króna íslensk er ekkert að geta

– engum höfðingja sýnd.

Helgi Seljan svarar:

Á trénu króna á toppi er

og tiginn svanni krónu ber.

Krónan vísast vexti gaf,

vel hún leysti „rigsdal“ af.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Trjákróna á trénu er.

Tiginn svanni krónu ber.

Rentu króna rýra gaf.

Ríksdal króna leysti af.

Þá er limra:

Hann Eiríkur Hreinn á Eyri

átti krónurnar fleiri

en búhöldar bestu

og burgeisar mestu,

en ekki grænan eyri.

Og síðan ný gáta eftir Guðmund:

Dagur loftið lýsa fer,

líður svefninn burt frá mér,

verk nú leyst af hendi hér

hef og gátu sendi þér:

Orðsnilld sú, er aldrei deyr.

Íþrótt sú að móta leir.

Bragðvísi, sem beitt er enn.

Bókleg fræði stunda menn.

Ósk Skarphéðinsdóttir orti:

Oft þó hafi illu kynnst

á það hiklaust treysti

að búi í hvers manns eðli innst

einhver góður neisti.

Og að lokum eftir Huldu:

Oft mig dreymir ást og vor,

einskis þá ég sakna,

en mig skortir einatt þor

aftur til að vakna.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is