Kannski er málið að við höfum það svo gott núna að við höfum tíma til að hugsa um svona hluti, eins og tilfinningar. Við höfum tíma til að hanga yfir börnunum okkar þar til þau fá alveg nóg og langar stundum bara meira til að tala við símana sína en okkur.

Íslenska þjóðin er þjóð átaka. Þá er ég ekki að tala um stríð heldur vitundarvakningar, eins og það er kallað. Bara á þessu ári erum við búin með meistaramánuð, veganúar og mottumars. Þá tek ég ekki með öll hin hefðbundnu nýársátök þar sem fólk ætlar að breyta algjörlega um lífsstíl á nýju ári. Hætta að drekka, reykja og jafnvel borða.

Þegar nýjasta átakið byrjaði, #karlmennskan, þar sem karlmenn segja frá tilfinningum sínum, varð mér hugsað til brandarans um Finnann sem elskaði konuna sína svo mikið að hann var næstum búinn að segja henni það.

Mér finnst hann fyndinn vegna þess að hann er svo fjarri mér og hvernig ég og mín fjölskylda erum. Við erum hluti af kynslóð sem er óhrædd við að segja hvað okkur finnst, láta vita hvenær okkur líður illa og ekki síður hvenær okkur líður vel. Tala um allt mögulegt og við skömmumst okkur ekki fyrir að vera eins og við viljum vera.

Ég var mikið hjá afa og ömmu. Ég veit ekki hvað ég hefði haldið ef þau hefðu sagt mér að þau elskuðu mig. Þau voru ekkert mikið að tala um svoleiðis hluti. En ég vissi alltaf hvað þeim fannst um mig og dró aldrei væntumþykju þeirra í efa. Það var bara enginn að fjasa um svoleiðis hluti daginn út og inn. Svo mátti auðvitað ekki nota þessa sögn, að elska, nema í mjög þröngum skilningi.

Börnin mín vita að ég elska þau. Af því ég segi þeim það á hverjum degi. Það er ekki eins og ég þurfi að gera það en mér finnst það betra. Það er eðlilegt fyrir mig og eðlilegt fyrir þau. Það hefur ekki alltaf verið þannig.

Karlar fyrri kynslóða voru aldir upp við að vera harðir. Til að skaffa, takast á við áföll og vera höfuð fjölskyldunnar. Lífsbaráttan var erfiðari og tilfinningar voru ekki eitthvað sem menn flögguðu. Og menn voru þess vegna ekki grenjandi útum allt, eins og það hefði sennilega verið kallað. En það er ekki þar með sagt að þeir hafi ekki elskað börnin sín og að þeir hafi ekki grátið. Það fékk bara enginn að vita af því.

Kannski er málið að við höfum það svo gott núna að við höfum tíma til að hugsa um svona hluti, eins og tilfinningar. Við höfum tíma til að hanga yfir börnunum okkar þar til þau fá alveg nóg og langar stundum bara meira til að tala við símana sína en okkur.

Það sem skiptir þó máli er að fólk má vera eins og það vill. Að það átti sig á að það er eðlilegt að viðurkenna vandamál og að það er ekki veikleikamerki að leita sér hjálpar. Karlar mega hlæja og gráta og naglalakka sig og vinna á leikskóla og æfa dans og hlusta á Abba og bara allt sem þeim dettur í hug. Kannski gerum við okkur ekki almennilega grein fyrir því, en það hefur aldrei verið jafn mikið frelsi og nú til að vera bara eins og maður vill.

En gleymum ekki að því fylgir líka frelsi manna til að vera tilfinningalega lokaðir, gamaldags karlmenn sem pissa standandi.

Það skemmtilega við frelsi er að það virkar nefnilega í allar áttir.

Höf.: Logi Bergmann Eiðsson