Í Smiðjunni Þórey Richardt Úlfarsdóttir, Sveinn Sigurðsson og Vigfús Þór Hróbjartsson leggja nú lokahönd á undirbúning Smiðjunnar brugghúss. Stefnt er að opnun veitingastaðarins fyrir páska og brugghússins mánuði síðar.
Í Smiðjunni Þórey Richardt Úlfarsdóttir, Sveinn Sigurðsson og Vigfús Þór Hróbjartsson leggja nú lokahönd á undirbúning Smiðjunnar brugghúss. Stefnt er að opnun veitingastaðarins fyrir páska og brugghússins mánuði síðar. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við byrjum á matnum og stefnum á að opna veitingastaðinn fyrir páska. Það er alla vega draumurinn.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við byrjum á matnum og stefnum á að opna veitingastaðinn fyrir páska. Það er alla vega draumurinn. Svo opnum við brugghúsið í beinu framhaldi svona mánuði síðar,“ segir Sveinn Sigurðsson, einn eigenda Smiðjunnar brugghúss, sem verður opnuð í Vík í Mýrdal á næstunni.

Mikill straumur ferðamanna fer um Vík og er staðurinn fyrir löngu hættur að anna eftirspurn um veitingasölu og gistingu. Það má því víst telja að Smiðjan brugghús komi sem ferskur andvari inn í vorið þarna um slóðir.

„Það hefur verið mikil fjölgun á amerískum ferðamönnum hér. Við höfum heyrt frá starfsfólki í Vínbúðinni að þeir eru að spyrja eftir bæði handverksbjór og lókal bjór. Við heyrum það reyndar víða að það sé eftirspurn eftir lókal bjór,“ segir Sveinn.

Fyrst um sinn ræður þó maturinn ríkjum og segir Sveinn að matseðillinn verði einfaldur. Boðið verði upp á gæðahamborgara og smárétti, til að mynda bjórpylsur úr þurrkuðu ærkjöti frá bónda í sveitinni. Reyndar er stefnt að því að sem mest af hráefninu komi úr nágrenni veitingastaðarins.

„Svo verðum við með paranir, mælum með rétta bjórnum með hverjum rétti. Þá er hugmyndin að nýta maltið sem fellur til úr bjórgerðinni sem fæðu fyrir nautgripi í sveitinni. Það býr til smá hringrás í þessu.“

Á sér langan aðdraganda

Um tilurð Smiðjunnar segir Sveinn að hann og Þórey, kærasta hans, hafi lengi stefnt að því að opna brugghús. Hann hafi farið í viðskiptafræðinám og látið flestöll verkefnin snúast um handverksbjór. Þegar þau bjuggu í Danmörku árið 2014 og hann var í meistaranámi í vörumerkjastjórnun fékk hann skilaboð frá Vigfúsi Þór, sem hafði fengið bjórbók í jólagjöf og spurði hvort þau ættu ekki að stofna brugghús í Vík.

„Ég var þá einmitt að vinna viðskiptaáætlun fyrir brugghús á Fjóni og sagði honum í gríni að ég myndi þýða hana á íslensku. Tveimur dögum síðar sendi hann okkur teikningar að brugghúsi sem hann var búinn að gera og við föttuðum að þetta væri ekkert grín. Seinna bættist svo Vigfús Páll í hópinn.“

Alls verða tíu bjórtegundir á krana á Smiðjunni, bæði bjór sem bruggaður verður á staðnum og líka úrval af því besta sem önnur íslensk handverksbrugghús hafa að bjóða.