Lilja Rósa Ólafsdóttir fæddist á Akureyri 26. júní 1947. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 15. febrúar 2018.

Foreldrar hennar voru Ólafur Guðmundsson, f. 15.5. 1918, d 5.3. 2005, og Sveinbjörg Baldvinsdóttir, f. 6.12. 1916, d. 9.3. 2011. Systkini Lilju Rósu eru Helga Steinunn, f. 1937, látin, Þórey, f. 1942, látin, Herdís, f. 1944, Magnús, f. 1950, og Aðalheiður, f. 1956.

Lilja Rósa var gift Þorvaldi Benediktssyni, f. 29.9. 1943, d. 5.11. 2015. Hann á tvö börn, Martein og Ellu Möggu. Lilja Rósa og Þorvaldur giftu sig 16. júní 1990.

Börn Lilju Rósu eru: 1) Hjördís Björk Þorsteinsdóttir, f. 19.2. 1965, maki Hannes Gunnlaugsson. Börn þeirra eru: Linda Björk, Karen Arna, Ágúst Heiðar, Höskuldur Logi og Þorsteinn Viðar. Eiga þau tvö barnabörn.

2) Sigríður Svavarsdóttir, f. 6.6. 1969, maki Aðalsteinn Heiðmann Hreinsson. Börn þeirra eru: Ásta Júlía, Arnór Heiðmann, Birkir Heiðmann og Davíð Heiðmann. Eiga þau sex barnabörn.

Útför Lilju Rósu fór fram í kyrrþey 23. febrúar 2018.

Elsku mamma mín. Eina stundina varstu hér en nú ertu farin, það er mjög skrítin tilfinning að heyra ekki í þér lengur eða sjá. En ég hugga mig við það að nú líður þér vel, laus við alla sjúkdóma og komin í faðminn á Þorvaldi þínum, þú saknaðir hans mikið. Samband ykkar var einstakt og nú eruð þið sameinuð á ný.

Mig langar að þakka þér fyrir það sem þú gafst mér. Þótt þú ættir oft mjög erfitt þegar ég var að alast upp gafstu þér alltaf tíma til að hlusta á mig og mín mál, sama hversu ómerkileg þau voru. Seinna, þegar heilsa þín fór að versna, fannst mér erfitt að leggja þau á þig en samt spurður þú alltaf hvernig mér liði og mínu fólki en kvartaðir ekkert yfir þínu hlutskipti. Þú kenndir mér margar fallegar bænir þegar ég var mjög ung og á ég minningar þar sem við krupum við rúmið mitt og báðum fyrir fólkinu okkar og þeim sem áttu bágt. Seinna eignuðumst við báðar sterkari trú og hefur hún fylgt okkur báðum í gegnum lífið.

Davíðssálm 23 sungum við oft saman hér áður og minnir hann mig alltaf á þig.

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum

lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Þó að lífið hafi ekki alltaf farið mjúkum höndum um þig varstu ótrúlega sterk og sannaðir það fyrir okkur þegar Þorvaldur þinn dó, þá reistu upp og hélst áfram.

Það síðasta sem þú sagðir við mig áður en þú kvaddir var: „Guð blessi þig elskan mín og góða nótt.“

Þetta verða mín kveðjuorð til þín, elsku mamma mín.

Þín dóttir

Sigríður Svavarsdóttir (Sirrý).

Það var í janúar árið 1984 sem ég hitti Rósu vinkonu mína fyrst. Ég hafði ráðið mig í vinnu í Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal og þar lágu leiðir okkar saman. Hún var frá Akureyri, komin suður til að leita sér hjálpar og hefja nýtt líf, í Hlaðgerðarkoti hjá Samhjálp hvítasunnumanna.

Það má segja að við höfum orðið vinkonur frá fyrsta degi. Dag frá degi hækkaði sólin í lífi Rósu og hún fór að blómstra. Það má segja að versin úr Davíðssálmi 91 hafi verið haldreipi Rósu.

Þitt hæli er Drottinn,

þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.

Eftir dvölina í Hlaðgerðarkoti réð Rósa sig í vinnu í Tjaldanesi og fékk íbúð á leigu í Dalnum. Vinnan átti vel við hana og áfram blómstraði hún. Þessir vetur sem ég vann í Hlaðgerðarkoti voru snjóþungir svo stundum nennti ég ekki heim og fékk að gista hjá Rósu. Á þeim kvöldum og fram á nætur var mikið spjallað, hlegið og planað og vináttan varð kærari.

Rósa kynntist Þorvaldi Benediktssyni í Samhjálp og með þeim tókust ástir og þau voru gefin saman í Samhjálparsalnum árið 1990. Þau áttu góð ár saman þótt stundum hafi verið á brattann að sækja og gamalkunnur óvinur ráðist inn í líf þeirra á ný. Sem betur fer náðu þau að snúa vörn í sókn og uppskáru sigur. Eftir það gekk allt betur. Það var Rósu mikið áfall að missa Þorvald haustið 2015 og má segja að með fráfalli hans hafi ljósið dofnað, að vissu leyti, í lífi hennar. Hún hélt þó ótrauð áfram, jákvæð, sjálfstæð og sterk. Ég heimsótti Rósu í ársbyrjun 2016 og dvaldi hjá henni eina helgi. Það var góð helgi þar sem við rifjuðum upp gamlar minningar og slógum á létta strengi. Rósa hafði engu gleymt enda stálminnug og sagði svo skemmtilega frá. Hún var stolt af afkomendum sínum og þær Hjördís og Sirrý voru henni afar kærar. Hún var í góðu sambandi við þær og þeirra fjölskyldur og myndir af afkomendum þeirra Þorvaldar voru upp um alla veggi í íbúðinni. Mikið þótti mér vænt um að sjá þar myndir af okkur Jónsa og börnunum okkar, hún sagði að við værum líka fjölskyldan hennar.

Síðast hitti ég Rósu á liðnu sumri en þá var hún nýbúin að fagna 70 ára afmæli sínu og var hress í anda. Við áttum góða samverustund í hennar notalegu íbúð og kvöddumst eins og við vorum vanar með hlýju faðmlagi. Ég tel mig ríkari að hafa kynnst Rósu og átt vináttu hennar í 34 ár þó svo leiðir okkar hafi skilið í nokkur ár. Þegar við tókum upp þráðinn að nýju var gott að finna að vináttan var söm og áður. Að leiðarlokum þakka ég kæra vináttu og við Jónsi vottum Hjördísi, Sirrý, börnum Þorvaldar og þeirra fjölskyldum samúð okkar. Guð blessi Rósu vinkonu mína og kærar minningar.

Anna Árnadóttir.